Að fæða barn er ruglað. Að því leyti að höfuð þess er of stórt og mjaðmir kvenna of mjóar. Fæðing barna fyrir ca. fjórum milljónum ára; þegar við vorum ekki enn farin að ganga upprétt með þeim afleiðingum að mjaðmir okkar minnkuðu og höfuð okkar var enn tiltölulega lítið því við þurftum ekki að skilja pípulagnir eða tilfinningar okkar til hlítar þá var þetta nokkuð rökrétt leið til að fjölga sér. Núna er það bilun.
Kannski væri sniðugra að við konur verptum eggjum okkar á valda staði til dæmis í skúffur þar sem svo menn kæmu til að frjógva þau og svo myndum við sinna þeim þar ekki ósvipað og margir fiskar gera. Reyndar finnst mér fiskar til fyrirmyndar í mörgu en það er efni í aðra pistla.
Ég fæddi barn fyrir mánuði síðan og ekkert hefði getað undirbúið mig undir hversu erfitt það er.
Þegar maður gengur með barn fær maður oft að heyra að fæðingar geti verið allskonar og best sé að anda sig í gegnum þær með svokallaðri haföndun og sækja jógatíma hjá Auði til að æfa sig að vera afslappaðar í þessum ýktu aðstæðum.
Við ykkur óléttu konur vil ég segja: Fæðingar eru alls konar. Ef þú getur andað þig í gegnum hana með haföndun – flott. En mögulega verður þú að sætta þig við að baula og rymja og gefa frá þér fleiri leiðinlegri hljóð. Við getum sagt sem svo að ef haföndun er Sykurmolarnir þá eru hljóðin sem flestar gefa frá sér Einar Örn.
Ég hafði vissulega heyrt misgóðar fæðingarsögur á meðgöngunni og einhverjar konur höfðu sagt mér að þetta væri hellað dæmi. Ég kinkaði alltaf kolli og virtist skilningsrík en hugsaði með mér: já já, fæðing er kannski erfið fyrir svona venjulega snakkpokakonu eins og þig sem hefur aldrei fengið tíu í leikfimi í MR eða drukkið tvo lítra af vatni á tveimur mínútum án þess að gubba. En ég mun hinsvegar fara létt með þetta.
Ó mikil var heimska mín og hroki.
Allar háræðarnar í andlitinu á mér sprungu. Ég hélt tvisvar að ég myndi örmagnast. Ég hef ekki tölu á því hversu oft mig grunaði að ég væri að kúka á mig og mér leið bara alveg fáránlega illa.*
Það sem kom mér mest á óvart er að það eru til konur sem hafa fætt barn oftar en einu sinni. Þær konur eru bilaðar. Því þær vita í hvað þær eru að fara. Hvað er að ykkur? Þetta er ekki retorísk spurning. Endilega hendið í opið bréf – ef þið hafið eitthvað til ykkar máls, ruglhausarnir ykkar!
Hélt ekki.
Mér finnst ég verði að segja hér hvað það er mikilvægt að ljósmæður fái mannsæmandi laun. Ljósmæður verða að fá mannsæmandi laun. Það er bara svo augljóst að það er erfitt að skrifa um það án þess að líða eins og aula að útskýra skaðsemi reykinga. Við hljótum bara öll að vera sammála.
Allar konurnar sem sáu um okkur voru frábærar. Meira en það. Ljósmæður þurfa að vera svo djúpklárar. Bæði í öllum þeim læknisfræðilegu aðstæðum sem þær fara í gegnum en líka í samskiptum. Ljósmæður leiða ekki bara fólk í gegnum rosalegustu stundir lífs þeirra þar sem það er undir mestu álagi og mjög viðkvæmt. ** Þær fara líka heim til kvenna þar sem þær liggja með frosin dömubindi og aumar geirvörtur uppí rúmi, þær setjast á rúmbríkina hjá okkur pollrólegar, skilningsríkar og dæma okkur ekki fyrir harðfisksmylsnurnar sem eru í lakinu. Ég er þeim endalaust þakklát. Sérstaklega henni Fríðu sem kenndi mér að klippa netanærbuxur frá spítalanum og klæðast þeim eins og toppi. Mjög þægilegt.
Allavega, ef ykkur býðst að skrá ykkur á stuðningslista fyrir ljósmæður eða fara í göngur þeim til stuðnings – geriði það. Þið vitið aldrei hvenær þið barnið einhvern eða verðið barnaðar og þá er gott að það sé fólk sem er ánægt í vinnunni sem mun sauma saman á ykkur klofið.
Ég læt hér fylgja með mynd af mér sem er tekin fjórum dögum eftir fæðinguna. Daginn eftir hana leit ég út eins og einhver hefði sleppt gagnstéttarhellu úr tveggja metra hæð á andlitið á mér. Þess má geta að ég er í netanærbuxum bæði að neðan og að ofan á myndinni. En það sést að sjálfsögðu ekki.
Einnig er hér stuttur listi ef einhver er við það að fæða barn:
- Biddu um að fá netabuxur með þér heim af fæðingardeildinni. Það er hægt að nota þær sem topp sem andar vel ef þú klippir gat í klofið. Heldur brjóstapúðum vel og þér líður eins og ódýrri útgáfu af Mel C í honum.
- Biddu líka um að fá svona stór dömubindi.
- Það er mjög notalegt að bleyta dömubindi og setja í frysti og setja svo í nærbuxurnar þegar þú ert enn mjög bólgin og aum.
- Þér líður kannski eins og píkan á þér sé í hakki. Notaðu spegil og kíktu á hana. Hún lítur þúsund sinnum betur út en þú heldur. Þetta er bara svona eins og að fá fótbolta af alefli í andlitið. Þér líður eins og pönnuköku en svo ertu bara með mjög eðlilegt andlit með útstæðu nefi og allt.
- Mendela brjóstagelið sem þú límir á geirvörturnar til að hvíla þær er æði.
- Mundu eftir sokkabuxum fyrir nýfætt barn þegar þú ferð á fæðingardeildina.
- Taktu líka með þér teppi fyrir barnið.
- Segðu maka þínum eða þeim sem verður með þér að gefa þér vatn reglulega í fæðingunni en ekki spyrja þig hvort þú viljir vatn. Ég var allavega ekki í stuði til að gera upp hug minn. Ég vildi bara annaðhvort fá vatn eða ekki.
- Barnið þitt fæðist rangeygt. Það er eðlilegt.
- Ef þú færð mænudeyfingu þá bið ég að heilsa svæfingalækninum.
Man ekki meira í bili.
*Nei, ég fékk ekki mænudeyfingu. Mér skilst að hún sé snilld. Málið er að ég var á blóðþynningu þannig að það var ekki mælt með því auk þess sem að læknirinn sem sér um deyfinguna er fyrrverandi kærasti minn. Yndislegur maður, sem hefur linað þjáningar margra kvenna en ekki sá sem mig langaði að hitta þarna sveitt og allsber og eiga í kurteisihjali við. Sennilega gagnkvæmt. Gaman væri ef landlæknisembættið myndi rannsaka hversu margir Íslendingar þjást af óþörfu því þeir kunna ekki við að leita sér læknisaðstoðar af ótta við að fyrrverandi elskhugar taki á móti þeim.
**Ég vil nýta tækifærið hér og biðja læknanemann sem ég var frekar tussuleg við afsökunar. Mér til afsökunar þá var ég að missa mikið blóð og í frekar lélegu jarðsambandi. Ég vona að þú hafir ekki látið mig draga úr þér og haldir áfram námi og veljir að verða fæðingarlæknir eða ljósmóðir.