Fátt dregur betur fram það versta í íslenskri pólitík en framlagning stórra og viðamikilla áætlana eins og fjármálaáætlunar fyrir næstu fimm ár. Vegna þess hve flókin og viðamikil áætlunin er, þá getum við stjórnmálamenn valið sjónarhorn eftir hentugleika, farið fram með hálfsannleik, tekið úr samhengi, jafnvel farið rangt með; allt til að þjónka okkar málstað sem best.
Við stjórnarliðar boðum þannig stórsóknir á alla kanta á meðan stjórnarandstaðan… tja, hún segir ýmislegt. Samfylkingin segir stefnu Sjálfstæðisflokksins holdgerast í áætluninni, sem er skemmtileg andstaða orða eins forystumanna Viðreisnar sem hefur sagt ríkisstjórnina vera sósíalíska vegna stefnu hennar. Viðreisn segir hana draumsýn þar sem hún byggi á óraunhæfum hagspám, þó fjármálaáætlun þess flokks hafi reyndar treyst á áframhaldandi hagvaxtarskeið og meira að segja gert ráð fyrir þaki á ríkisútgjöld sem hefði þýtt samdrátt þeirra ef hagspár gengju ekki eftir. Píratar segja þetta vera nákvæmlega sömu fjármálaáætlun og lögð var fram í fyrra, sem rímar frekar illa við gagnrýni Viðreisnar sem stóð einmitt að þeirri áætlun. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins gagnrýna svo ýmsa þætti úr áætluninni þar sem þeim finnst ekki nóg að gert. Eðlilega, það er aldrei nóg að gert á öllum sviðum.
Frekar en að bæta í túlkunarkórinn, þar sem ég mæri og dásama okkar áætlun, langar mig að reyna að svara nokkrum spurningum sem ég hef rekist á undanfarna daga. Lesendur verða þó að muna að ég er stjórnarliði og besta leiðin til að mynda sér skoðun er að lesa fjármálaáætlunina sjálfa, frekar en að treysta okkur stjórnmálamönnum.
Fyrst þó þetta:
Fyrir tvennar síðustu kosningar töluðu Vinstri græn fyrir því að til þess að svara kalli almennings um samfélagslega uppbyggingu þyrfti að auka árleg ríkisútgjöld um allt að 50 milljarða á kjörtímabilinu. Að tryggja betri heilbrigðisþjónustu, betra velferðarkerfi, menntakerfi, vaxtagjöld og lífeyrisskuldbindingar, og uppbyggingu innviða. Fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að viðbættum fjárlögum 2018 gerir ráð fyrir að árleg útgjöld muni aukast að raunvirði, og fyrir utan mögulegar launa- og verðlagsbreytingar, um 132 milljarða til ársins 2023 miðað við fjárlög 2017. Þar af verða árleg útgjöld heilbrigðismála aukin um nærri 60 milljarða króna, en þau hækkuðu um tæpa 17 milljarða í fjárlögum í desember og aukningin í fjármálaáætlun er 40 milljarðar til viðbótar. Um þessi auknu útgjöld er ekki hægt að deila, en fólk getur vissulega talið að ekki sé þörf á þeim.
Til að gæta allrar sanngirni, þá er rétt að taka það fram að mikill hluti aukningarinnar er vegna nýframkvæmda.
Miðað við 2017 munu árleg útgjöld vegna velferðarmála aukast um 40 milljarða, en þau hækkuðu um 12 milljarða í fjárlögum 2018 og munu hækka um 28 til viðbótar samkvæmt fjármálaáætlun.
Þá í spurt og svarað. Tekið skal fram að þetta eru aðeins örfáar af þeim spurningum sem fólk hefur spurt, en það gefst tími til frekari svara síðar.
Er engin aukning til menntamála?
Jú, það er mjög mikil aukning til menntamála. Heildarfjárheimildir til háskólastigsins uxu úr rúmlega 42,3 milljörðum kr. árið 2017 í 44,2 milljarða á þessu ári og samkvæmt fjármálaáætlun er fyrirhugað að fjárveitingar til háskólastigsins muni halda áfram að aukast og hækki upp í 47,2 milljarða árið 2023, sem þá er vöxtur upp á tæp 12% á tímabilinu. Fyrri ríkisstjórn hugðist auka fjárframlög pr. háskólanema með því að fækka nemendum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eykur sjálf framlögin.
Hvað framhaldsskólana varðar þá hækkaði framlag til þeirra um næstum 2 milljarða í fjárlögum yfirstandandi árs. Þrátt fyrir að nemendum fari fækkandi í framhaldsskólum á næstu árum, annars vegar vegna styttingu náms úr 4 í 3 ár og hins vegar vegna lýðfræðilegrar fækkunar í þeim árgöngum sem eru að koma upp úr grunnskóla, munu framlög til framhaldsskóla hækka lítillega að raunvirði til viðbótar á tímabilinu. Það þýðir auðvitað að framlög á hvern nemenda munu hækka verulega.
Verður ekkert gert fyrir öryrkja?
Jú, það er töluverð hækkun í örorkubætur. Framlögin munu aukast um 4 milljarða króna strax frá næsta ári. Þar fyrir utan er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna fjölgunar öryrkja eða svokallaðra lýðfræðilegra breytinga. Eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar á þessu ári er samráð við hagsmunasamtök örorkulífeyrisþega um umbætur á bótakerfum sem eiga að miða að því að bæta kjör. Niðurstaða samráðsins um umbætur á bótakerfum mun svo leiða af sér breytingar á fjárhæðum í næstu áætlunum þegar niðurstaðan liggur fyrir.
Hvað með barna- og vaxtabætur?
Um leið er stefnt að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga í samráði við aðila vinnumarkaðarins, samhliða endurskoðun bótakerfa. Þar er horft til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og vegna húsnæðiskostnaðar, með markvissari fjárhagslegum stuðningi við efnaminni heimili. Vegna þessarar endurskoðunar er síður um það í þessum málaflokki að hægt sé að lesa hækkun fjármagns, einfaldlega vegna þess að fyrirkomulagið liggur ekki fyrir fyrr en eftir endurskoðun, sem samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður lokið í haust, áður en fjárlög næsta árs verða afgreidd. Þannig munu breytingar í samræmi við niðurstöðuna sjást í næstu áætlunum.
Gagnast skattabreytingar þeim efnameiri best?
Flöt lækkun á skattprósentu þýðir hærri krónutölu fyrir þau sem hafa hærri tekjur. Einmitt þess vegna mun ríkisstjórnin í samstarfi við verkalýðshreyfinguna fara í vinnu við endurskoðun á tekjuskattskerfinu með áherslu á lækkun skattbyrði fólks með lágtekjur og lægri millitekjur. Þar verðar teknar til skoðunar mögulegar breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfi (barnabætur og vaxtabætur) sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa. Meðal þess sem skoðað verður er að sett verði á fót heildstætt kerfi er taki jafnt til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og stuðnings vegna húsnæðiskostnaðar, hvort heldur er fyrir íbúðareigendur eða leigjendur. Þessi endurskoðun byggir á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í þágu félagslegs stöðugleika í tilefni af mati á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði frá 27. febrúar sl.
Í fjármálaáætlun kemur fram að miðað sé við að þær breytingar sem endurskoðunin leiði af sér geti að umfangi jafngilt eins prósentustigs lækkun neðra tekjuskattsþreps, eða 14 milljarða lækkun á skattbyrði fjölskyldna í fyrrgreindum hópum.
Hafnar ríkisstjórnin breytingu á persónuafslætti?
Nei, samanber svarið fyrir ofan. Á þessu ári fer einmitt fram vinna með verkalýðshreyfingunni þar sem til skoðunar eru mögulegar breytingar á persónuafslætti í þágu fólks með lágtekjur og lægri millitekjur.
Hvað með húsnæðisstuðning?
Heildarstefna um húsnæðisstuðning til framtíðar liggur ekki enn fyrir. Í því ljósi er gert ráð fyrir að allar reiknireglur vaxtabótakerfisins verði þær sömu á tímabilinu, en viðmiðunarfjárhæðir breytist þannig að vaxtabætur haldist að raungildi. Ríkisstjórnin hefur hins vegar nýverið lagt fram yfirlýsingu í tengslum við framlengingu kjarasamninga á almennum markaði (sem ekki var skilyrt við framlenginguna, eins og sumir stjórnmálamenn hafa ranglega haldið fram). Þar er kveðið á um að unnið verði með aðilum vinnumarkaðarins að endurskoðun núverandi húsnæðis- og barnabótakerfa. Markmiðið með endurskoðuninni er að kerfin þjóni markmiðum sínum og styðji raunverulega við þá sem mest þurfa á því að halda. Þannig verður rætt að sett verði á fót heildstætt kerfi sem taki jafnt til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og stuðnings vegna húsnæðiskostnaðar, hvort heldur fyrir íbúðareigendur eða leigjendur. Þetta leiðir að öllum líkindum til breytinga á vaxtabótakerfinu og húsnæðisbótakerfinu með tilheyrandi breytingum á fjárhæðum í næstu áætlun
Varðandi framlög til uppbyggingar á leiguhúsnæði voru þau hluti af samkomulagi á milli stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar til fjögurra ára (2016-19) í tengslum við kjarasamninga. Það hefur komið fram að framhald þessa mun ráðast af samtali stjórnvalda við verkalýðshreyfinguna og því ekki hægt að setja það á áætlun fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir.
Hér hefur verið tæpt á nokkrum spurningum í allt of löngu máli. Á næstunni gefst færi á að svara fleiri spurningum og hlusta á rökstudda gagnrýni. Vonandi tekst okkur þó að lyfta umræðunni upp úr innihaldslausum frösum, það væri okkur öllum til framdráttar.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.