Ég gæti haft fræðilegan inngang að þessari grein en í þessu tilfelli þarf að koma sér beint að efninu. Ísland hefur skrifað undir alþjóðlega skuldbindingar og þarf að draga verulega úr útblæstri fyrir 2030. Okkar verkefni er því að draga úr losun á um milljón tonnum af CO2 árlega. Hér er EKKI verið að tala um útblástur frá stóriðju enda er þegar búið að afgreiða hann með kröfu um yfir 40% losunarsamdrátt í samvinnu við Evrópusambandið. Alþjóðaflug er líka utan beinna skuldbindinga Íslands og þó að þar sé sannarlega aðgerða þörf, þá mun flugið ekki skrifast á skuldbindingar Íslands.
Loftlagsmál eru einfaldlega orkumál. Heimurinn þarf að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti til að ná tökum á vandanum. Staðan er í raun óvíða eins einföld og á Íslandi því að jarðefnaeldsneyti er nær horfið úr íslensku orkukerfi nema í farartækjum. Með öðrum orðum þá er einfaldlega ekki hægt að ná skuldbindingum Íslands nema með orkuskiptum í samgöngum. Það er reyndar líka útblástur vegna urðunar og landbúnaðar en tölfræðilegir möguleikar þar eru ekki meira en svo, að þó að við legðum niður landbúnað og hættum urðun, þá myndum við samt sem áður vera óralangt frá takmarkinu. Ekki er heldur hægt að benda á fiskiskipin því þar hefur eldsneytisnotkun snarminnkað síðustu tvo áratugi og engir raftogarar til sölu ennþá. Öðru máli gildir um bifreiðar en þar eru ýmsar nýorkulausnir til sölu. Til að einfalda málið er þægilegt að tala um nýorkubíla en það geta verið raf-metan- eða vetnisbílar.
Á Íslandi kveikjum við í um 600 milljón lítrum af olíu á ári, sem sagt 70 þúsund lítrum á klukkustund eða 20 lítrum á sekúndu! Við verðum einfaldlega að helminga þá brennslu bil fyrir árið 2030. Þetta þýðir að allt í einu er olíubrennsla orðið sameiginleg takmörkuð „auðlind“ alveg eins og fiskurinn í sjónum. Allir vita að ef ekki á að fara illa í vistkerfi hafsins þá má bara veiða takmarkað magn af fiski. Sama gildir um olíu þ.e. ef ekki á að fara illa í skuldbindingum Íslands megum við bara brenna ákveðnu magni af olíu. Það getur vel verið að sumir neytendur vilji persónulega hundsa loftlagssamning þjóðríkja heims en það er bara ekki þeirra einkamál lengur. Ef flestir kaupa nýjan bíl sem eingöngu keyrir á jarðefnaeldsneyti frá og með deginum í dag og næstu tólf árin þá sprengjum við einfaldlega kvótann. Það þýðir tvennt; A) fokdýr útgjöld í erlendum kolefniskvótakaupum og B) ömurlegir álitshnekkir í alþjóðasamfélaginu. Ef við klúðrum þessu lendir reikningurinn á öllum landsmönnum líka nýorkubílaeigendum, göngufólki, hjólreiðamönnum og notendum almenningssamgangna. Er það sanngjarnt? Værir þú t.d. tilbúinn að greiða aukareikning frá fjarskiptafyrirtæki vegna þess að nágranninn þinn sprengdi gagnamagnskvótann?
Það eru enn tólf ár í 2030 sem þýðir að flestir eldri bílar sem þegar eru komnir í samgöngukerfið verða horfnir fyrir þann tíma. Vandamálið snýst því um rangar ákvarðanir sem teknar verða í bílakaupum héðan í frá. Að mínu mati þarf enginn að taka ranga ákvörðun. Nóg verður til af rafbílum, metanbílum og tengiltvinnbílum á næstu árum af öllum gerðum. Ef einhverjir neytendur geta alls ekki sætt sig við úrvalið af nýorkubílum sem þegar er í boði, þá er einfaldlega hægt að kaupa notaðan bíl eða bíða eftir rétta bílnum sem pottþétt verður í boði innan 5 ára. Bílar endast að jafnaði í 10-15 ár en það þýðir að hver einasti nýi bíll sem kemur inn í íslenska samgöngukerfið í dag og keyrir 100% á olíu, er tapað tækifæri til að minnka útblástur fyrir Parísaruppgjörið. Best er auðvitað að keyra sem minnst og fækka bílum en ef bifreiðakaup eru nauðsynleg þá eru tæknilausnirnar sem sagt til. Eðlilegar ívilnanir tryggja svo viðráðanlegt verð, þannig að ábyrgðin er öll okkar neytenda.
Við getum ekki kallað okkur tæknivædda og vel menntaða þjóð ef við klúðrum því svo að kenna fólki að innleiða tæknilausnir sem leysa vandann. Við verðum hreinlega að hætta að kaupa nýja bíla sem eingöngu ganga á jarðefnaeldsneyti. Nýir bílar sem koma inn í íslenska samgöngukerfið verða með öðrum orðum að vera móttækilegir fyrir rafmagni eða lofti hvort sem það er metan eða vetni. Fjölmargir hafa talað um að þetta sé alls ekki tímabært og allskonar vesen standi í veginum. Þeir hinir sömu verða þá að svara þeirri einföldu spurningu: Hvar eigum við þá að finna kolefnistonnin sem skera þarf niður fyrir 2030?
Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.