Síðasta ríkisstjórn ákvað að tvöfalda kolefnisgjald samhliða aðgerðaráætlunum Íslands í loftslagsmálum. Núverandi ríkisstjórn hefur fellt niður þá ákvörðun þrátt fyrir loforð um grænar áherslur og nú verður einungis 10% hækkun kolefnisgjalds milli ára. Hvernig réttlæta Vinstri grænir sem gera sig út fyrir að vera umhverfisverndarflokkur þessa ákvörðun? 4,5 milljörðum minna í ríkiskassann og veikari efnahagshvatar til umhverfisverndar. Þetta samræmist ekki stefnu landsins í loftslagsmálum, hvað þá Parísarsáttmálanum.
Meint útópísk hugsjón
Í heimildaöflun minni varðandi orkunotkun fiskiflotans rakst ég nýja skýrslu frá SFS (Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi) „Nýting auðlindar og umhverfisspor” en þar kemur fram að olíunotkun fiskiflotans er umtalsvert minni nú heldur en 1990, hefur farið úr 19,5% af heildarlosun Íslands í 9,7% árið 2014. Má rekja þá lækkun til fækkunar skipa og endurnýjunar í flotanum, togarar eru nú stærri, veiða meira í einu og nota léttari veiðarfæri svo fátt eitt sé nefnt. Þegar ég fór á stúfana og spurði starfsmenn SFS út í aðgerðaráætlun sjávarútvegsfyrirtækja vegna stefnu Íslands að hætta notkun svartolíu þá hlógu menn góðlátlega og sögðu að það myndi nú ekki allir vera sáttir við það, það væri nú engu skárra að nota díselolíu hvað varðar loftslagsmál og hún væri umtalsvert dýrari en svartolía. Spurðir út í möguleika á endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við rafmagn þá þótti þeim það útópísk hugsjón (þeirra orð) og að lokum þegar ég spurði hver framtíðin væri í sjávarútvegi fékk ég svarið: Fiskeldi í sjó.
Eyðilegging villtra stofna
Fiskeldi í sjó? Vita menn ekki að fiskeldi í sjó er bannað víða erlendis vegna þess að það eyðileggur villta stofna sem fyrir eru? Eiga skammtímagróðalausnir sem valda óafturkræfri eyðingu á villtum fiskistofnum og valda dauðum svæðum í sjó að fá brautargengi hér á landi? Undir stjórn VG? Nýleg grein í Viðskiptablaðinu beinir sjónum að því að Skipulagsstofnun og Hafrannsóknarstofnun ályktuðu að fyrirhugað eldi fiskeldisfyrirtækisins Háafells á framleiðslu á 6800 tonnum af eldislaxi myndi hafa neikvæð áhrif á laxastofna í Ísafjarðardjúpi og væri því ekki æskileg. Stofnanirnar drógu svo nýlega ályktun sína tilbaka að ósk Háafells. Hvernig getur fyrirtæki óskað eftir því að stjórnvald dragi álit tilbaka?
Það sjá það allir sem eitthvað vita um Sjálfstæðisflokkinn hvað er í gangi, æðstu menn þar eiga persónulega fjárhagslegra hagsmuna að gæta bæði hvað varðar kolefnisgjaldið og í sjávarútvegi.
Rútubílafyrirtækið Kynnisferðir, eitt umfangsmesta langferðabíla- fyrirtæki á Íslandi er td. að langstærstu leiti í eigu föður og fjölskyldu Bjarna Benediktssonar, Benedikts og Einars Sveinssona. Benedikt Sveinsson er einnig umfangsmikill fjárfestir í sjávarútvegi.
Stjórnarsáttmáli til skrauts
Meginforsenda loftslagsstefnu ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er að koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. En helstu álagsþættir þess er hlýnun sjávar og súrnun hans vegna aukins styrks koltvísýrings í lofthjúpnum.
„Þannig á Ísland að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið og sjávarútveginn,“ segir í stjórnarsáttmálanum.
Er stjórnarsáttmálinn bara til skrauts? Að hvaða leiti samræmist lækkun kolefnisgjalds þessum sáttmála? Er einhver sem treystir Sjálfstæðisflokki til þess að standa við hann? Ætla VG að sigla blindir að feigðarósi og deyja svo drottni sínum eins og fyrrum stjórnmálaflokkar sem hafa gengið í gildru íhaldsins?
Píratar metnaðarfyllstir í lofslagsmálum
Píratar eru samkvæmt samantekt sem Loftstlag.is gerði fyrir síðustu alþingiskosningar með metnaðarfyllstu stefnu allra stjórnmálaflokka í loftslagsmálum og á ítarleg aðgerðaáætlun okkar til að framfylgja henni stóran þátt í því að okkar stefna var valin. Sjálfstæðisflokkurinn var þótt ótrúlegt megi virðast með næst-metnaðarfyllstu stefnu í loftslagsmálum. En það er ekki lengur í boði að monta sig af stefnum, framfylgni verður að fylgja máli.
Hverjum ætliði að treysta? Hvaða flokkur hefur sýnt og sannað að þeir veita aðhald á þingi og gefa ekki afslátt af sínum stefnumálum?
Sjálf gekk ég til liðs við Pírata vegna þess að það er eina stjórnmálaaflið í dag sem ég treysti eftir endurtekin vonbrigði með aðra flokka sem gefa sig út fyrir að vera umhverfisvæna og framúrstefnulega en gefa svo afslátt af grunngildum sínum þegar á hólminn er komið. Píratar hafa ekki reynt að fegra sig með glansmyndum eða innantómum loforðum. Við vinnum út frá grunnstefnu okkar sem snýst um lýðræði, gagnsæi og ábyrgð.
Höfundur er frambjóðandi Pírata í borgarstjórnarkosningum.