Sameiginleg yfirlýsing framkvæmdastjóra flokkanna gegn óhróðri og nafnlausum áróðursherferðum í kosningabaráttu fær falleinkunn í leiðara Kjarnans. „Aðför að lýðræðinu fær uppreist æru,“ segir leiðarahöfundur sem segir yfirlýsinguna óboðlega og merki um samtryggingu flokkanna. Með henni séu allir stjórnmálaflokkarnir að samþykkja að fyrri andlýðræðisleg myrkraverk verði gleymd og grafin.
En svo er ekki, sem betur fer. Yfirlýsingin er áfangi í vinnu nefndar forsætisráðherra að betri löggjöf, sem eykur gagnsæi og hindrar andlýðræðisleg öfl í að reka kosningabaráttu án þess að bera á henni ábyrgð. Í yfirlýsingunni er bent á að stjórnmálaflokkar bera ábyrgð í kosningabaráttu og lúti ströngum lögum um styrki og meðferð fjármuna. Sem er gott, en marklaust, ef hægt er að fara fram hjá lögunum með því að reka ábyrgðarlausa kosningabaráttu gegnum þriðja aðila.
Upplýsingar frá öðrum löndum sýna að við erum að réttri leið. Í Frakklandi er tilbúið lagafrumvarp sem á að hindra dreifingu áróðurs og falsfrétta í aðdraganda kosninga. Í Svíþjóð, þar sem kosið verður til þings í haust, ræða stjórnmálaflokkarnir nú um að setja sér sameiginlegar reglur um auglýsingar á samfélagsmiðlum fyrir kosningar. Allir flokkar, nema Svíþjóðardemókratarnir lýsa yfir vilja til að vera með.
Framkvæmdastjórar flokka á Íslandi eru ánægðir með að hafa náð saman um að vinna að þessu mikilvæga og tímabæra verki. Sumarið verður nýtt til að gera tillögur að lagabreytingum um víðtæka ábyrgð á orðum og áróðri í kosningabaráttu. Og það þurfa fleiri en flokkarnir að taka ábyrgð á því að stjórnmálaumræða standist kröfur um lýðræði og sanngirni og að falsfréttir vaði ekki uppi. Þáttur og ábyrgð fjölmiðla er þar einna stærstur. Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkar, fjölmiðlar, félög, efnisveitur, fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar taki höndum saman um að stöðva þá aðför að lýðræðinu sem birtist í falsfréttum og hatursáróðri.
Höfundur er framkvæmdastjóri Vinstri grænna.