Á árum áður, var við lýði Aflatryggingasjóður sjávarútvegs. Sá sjóður var fjármagnaður af sjávarútvegnum sjálfum og var ekki á fjárlögum. Það var haft að háði, að skussarnir „þeir sem fiskuðu lítið" gerðu út á aflatryggingasjóð.
Núna erum við búin að koma okkur upp nýjum aflatryggingasjóð. Aflatryggingasjóð hinna best settu, aflatryggingasjóð fjármagns og fasteignaeigenda. Þessum sjóð er stjórnað af okkar kjörnu fulltrúum og deila þeir út úr sjóðnum í nafni „húsnæðisbóta" og „vaxtabóta"
Munurinn á þessum tveim aðstæðum er tvíþættur. Í fyrsta lagi er þessi nýi aflatryggingasjóður ekki fjármagnaður af þeim sem úr honum fá, heldur af þeim sem verða fyrir áfallinu sem veldur aflabrestinum. Í öðru lagi er aflabresturinn sem kallar á útgreiðslur ekki af vankunnáttu eða náttúrulegum aðstæðum sprottinn. Ástæðurnar eru hnitmiðaðar af þeim sem njóta góðs af útgreiðslunum. Skortstaða á húsnæðismarkaði og okurvextir.
Það er full ástæða til að ætla, að hagnaður eða arður leigufélaga á íbúðamarkaði verði í samhliða línu upp á við og samtala útgreiddra húsnæðisbóta. Einnig hefur okkur í Íslensku þjóðfylkingunni alveg misfarist að sjá nokkuð stjórnmálaafl bera fram spurningu um hvað áhrif vaxtabóta vegi þungt í arði banka og fjármálastofnana. Það virðist vera þegjandi samkomulag um að vaxta og húsnæðisokur, sé sjálfsagt að niðurgreið úr sjóðum samfélagsins án þess að setja nokkur spurningamerki við það.
Við í Íslensku þjóðfylkingunni höfum aftur á móti orðið vitni af að kjörnir fulltrúar hafi keppst um að lofa auknum niðurgreiðslum í þessa aflatryggingasjóði. Auka húsnæðisbætur, inn í skortstöðu og okurmarkað og síðan að fyrirframgreiða vaxtabætur sem eru byggðar á okurvöxtum. Þetta köllum við í Íslensku þjóðfylkingunni ekki að leysa vandamál, þetta köllum við að skvetta olíu á eld.
Við í Íslensku þjóðfylkingunni erum af bjargfastri sannfæringu að húsnæðisbætur eigi að vera undantekning en ekki regla. Við viljum útiloka húsnæðisbætur til leiguhúsnæðis sem er hagnaðardrifið. Við í Íslensku þjóðfylkingunni höfum alltaf viljað afleggja verðtryggingu, en borgarstjórn hefur ekki slík völd.
Húsnæðisvandi Reykvíkinga og landsmanna allra, verður aldrei leystur, fyrr en húsnæðisverð fellur niður í byggingakostnað. Til þess þarf umframframboð sem virkar öfugt við skortstöðuna í dag.
Höfundur skipar 3. sæti lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavík.