Það var gaman að heyra Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, tilkynna að styrkja ætti útgáfu barna- og unglingabóka og sérlega viðeigandi að hún notaði tækifærið á Sögum – Verðlaunahátíð barnanna til þess. Litlar upplýsingar hafa þó fylgt um með hvaða hætti eigi að veita styrki úr þessum barna- og unglingabókasjóði. Sama fréttatilkynningin hefur þó birst á vef ráðuneytisins og hjá Miðstöð íslenskra bókmennta. Þar segir að nýjum styrkjaflokki verði bætt við styrki miðstöðvarinnar frá og með næsta ári og sé það liður í að styðja við og efla útgáfu á efni fyrir yngri lesendur. Vitnað er til orða Lilju: „Eitt það mikilvægasta sem við getum gert til þess að efla læsi í landinu til framtíðar og standa vörð um tungumálið okkar er að tryggja aðgengi barna og ungmenna að bókum við þeirra hæfi.“
Ekki gæti ég verið ráðherranum meira sammála. Ég er þó ekki viss um að sú aðferð sem hér virðist hafa orðið ofan á, þ.e. að styrkja útgáfu bóka fyrir börn og unglinga sérstaklega, leysi vandann. Hér verð ég að gera fyrirvara við efasemdir mínar þar sem litlar upplýsingar liggja fyrir um styrkina en í áðurnefndri fréttatilkynningu segir að fyrirkomulag styrkjanna og umsóknarferlið verði nánar kynnt síðar. „Styrkir til útgáfu“ bendir þó til þess að peningarnir eigi að renna til útgefenda. Og það er svo sem ekki vanþörf á slíkum styrkjum.
Þegar ráðherrann tilkynnti um styrkina vísaði hún til málþingsins „Barnið vex en bókin ekki“ sem unglingar í Hagaskóla stóðu fyrir. Þar bentu krakkarnir réttilega á að það koma alls ekki út nægilega margar bækur fyrir unglinga á Íslandi. Það er sannarlega satt og rétt en það vandamál verður ekki einungis leyst með styrkjum til útgefenda. Það þurfa nefnilega einhverjir líka að skrifa bækurnar og svo verða þær að rata til krakkanna.
Rót vandans er að það fæðast alltof fá börn á Íslandi til að standa undir markaði með barnabækur. Í hverjum árgangi eru einungis 4.-5.000 börn. Bók fyrir krakka sem eru nýlega farin að lesa sjálf hentar kannski aðeins fyrir einn eða tvo árganga svo markhópurinn er smár. Fái 10% sex ára barna bókina í jólagjöf eru það einungis um 450 eintök og langt í að útgáfan standi undir sér. Annar vandi er sá að markaðslögmálin hafa að mestu verið látin stýra barnabókaútgáfu hér á landi. Það sér hver maður að það er ekki vænlegt til árangurs á örmarkaði ef markmiðið er annað en að leggja tungumálið niður.
Til einföldunar má segja að vandi barnabóka á Íslandi sé þríþættur. Í fyrsta lagi stendur útgáfa á efni fyrir börn sjaldnast undir sér. Markaðurinn er of lítill, börnin of fá, barnabækurnar ódýrari út úr búð en aðrar bækur en framleiðslukostnaður oft hár, bækurnar dýrar í hönnun, myndskreyttar og litprentaðar, auk þess sem pappírinn og kápan þarf að þola meðferð lítilla handa. Í öðru lagi getur ekki nokkur maður lifað af því að skrifa barnabækur á Íslandi. Höfundalaunin eru hlutfall af heildsöluverði bóka og þar sem barnabækur eru ódýrari en fullorðinsbækur og markhópurinn smærri fá höfundarnir minna greitt fyrir vinnu sína. Auk þess koma oftar tveir höfundar að verkinu, t.d. textahöfundur og teiknari, sem skipta þá með sér höfundalaunum. Fáir barna- og unglingabókahöfundar hafa fengið starfslaun listamanna og sjaldnast fá þeir meira en 3-6 mánuði. Það er því fjárhagslega glórulaust að leggja fyrir sig skrif barna- og unglingabóka. Þriðji vandinn fellst í dreifingu bókanna. Börn eignast helst bók á jólum. Sum fá margar að gjöf, önnur engar. Í lögum um grunnskóla segir að í hverjum skóla skuli vera bókasafn. Þar segir hins vegar ekkert um hvað teljist vera bókasafn, hvort bækurnar þurfi að vera nýjar og spennandi og bókakostinum viðhaldið. Heldur ekkert um það hvort bókasafnið eigi að vera börnunum opið og aðgengilegt. Bókakostur skóla og leikskóla er sums staðar góður, nýjar bækur keyptar reglulegar og þær aðgengilegar börnum en annars staðar eru bókasafn vart fyrir hendi, fáar bækur til og starf á skólasafni lítið og marklaust. Slíkur aðstöðumunur felur í sér brot á jöfnum rétti barna til náms. Börn eru upp á okkur fullorðna fólkið komið þegar kemur að því að nálgast bækur. Sjái foreldrar eða forráðamenn barna ekki til þess að krakkarnir þeirra hafi góðan aðgang að bókum sem hæfa þeirra aldri og endurspegla samtíma þeirra og uppruna verður samfélagið að sjá til þess og auðveldast er að gera það í gegnum skólana. Þeir skólar sem hlúa vel að bókasafninu sínu hafa þó ekki aðgang að nægilega mörgum, áhugaverðum bókum, eins og krakkarnir í Hagaskóla bentu á, því skrifaðar og útgefnar bækur eru einfaldlega of fáar.
Þennan vítahring verður að rjúfa en það verður ekki gert með því einu að styrkja útgefendur. Meira verður að koma til. Sem betur fer má líta til annarra þjóða og óþarfi fyrir okkur að finna upp hjólið. Norðmenn skilgreina tungumálið sitt sem örtungumál í útrýmingarhættu sem beri að styðja og styrkja með ráðum og dáð. Í Noregi er starfrækt sérstakt innkauparáð sem kaupir ákveðinn eintakafjölda af öllum almennilegum norskum barnabókum, þó ekki fleiri en eina frá hverjum höfundi á hverju ári. Bækurnar eru keyptar á föstu verði óháðu markaðsverði (þótt heimilt sé að hækka eða lækka greiðslur þegar ástæða er til). Greiðslan er styrkur sem skiptist á milli útgefandans og höfundarins en í staðinn fær innkaupastofnunin eintök af bókinni sem dreift er á almenningsbókasöfn og söfn grunn- og leikskóla. Norska leiðin tryggir bæði höfundum og útgefendum „sölu“ svo bæði skrifin og útgáfan standa undir sér og síðast en ekki síst, öllum norskum börn greiðan aðgang að nýjum vönduðum og skemmtilegum bókum. Styrkir til íslenskra útgefenda kunna að vera nauðsynlegir en þeir munu hvorki fjölga höfundum né auka aðgengi barna að nýjum, íslenskum bókum. Til þess að fá hjólið til að snúast þarf að horfa á heildarmyndina.
Höfundur er barnabókahöfundur og situr í stjórn Rithöfundasambands Íslands og SÍUNG – Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda