Nýverið las ég frétt um að nakinn maður hefði drepið fjórar manneskjur í vöffluhúsi í Nashville í Tennessee. Einnig að hestar muna eftir mönnum. Og að skordýr eiga undir högg að sækja vegna eiturefnanotkunar manna. Fjöldaaldauði blasir við mörgum dýrategundum. Höfin eru að fyllast af plasti.
Þá ber svo við að þær fregnir berast hér á Fróni að Kristján Loftsson vill enn og aftur drepa langreyðar. Þetta er gaurinn sem nýverið seldi hlut sinn í Granda fyrir tugi milljarða. Svona sirkabát 1.000 milljónir sinnum tuttugu og eitthvað plús. Eða Guð má vita hvað. Kannski á Kristján Loftsson þrjátíu þúsund milljónir. Auðlegð sem enginn venjulegur Íslendingur kann minnstu skil á. Allur hagnaður þessa vesalings er tilkominn vegna þess að hann hefur getað mjólkað helstu auðlind okkar Íslendinga um áraraðir. Í nafni „stjórnvalda“.
Og nú vill Kristján Loftsson halda aftur til hafs til að drepa hvali. Nánar tiltekið langreyðar. Það eru vitaskuld merkilegar skepnur. Það er þaulsannað að hinir lítillátu höfrungar, sem eru spendýr og náskyldir langreyðum, nefna hver annan með hljóðmerkjum. Höfrungar bera sumsé nöfn. Hvalir gæta afkvæma sinna með miklu ástríki og syngja söngva sem berast um úthöfin þver og endilöng. Þetta eru stærstu spendýr sem hafa verið uppi. Sumar hvalategundir eru með vinsældalista sem spanna þúsundir kílómetra. Og söngvar þeirra eru breytilegir milli ára.
En Kristján Loftsson vill sumsé drepa hvali. Og okkur er gert ljóst að hann eigi inneign frá síðasta ári til að sprengja enn fleiri langreyðar, henti það honum. Þessi mannleysa gæti étið styrjukavíar (styrjur hafa jú verið í útrýmingarhættu) í hvert mál ef honum sýnist svo, allt þar til hann gefur upp öndina, án þess að það sjái högg á vatni auðæfa hans. En erindi hans er allt annað. Hann er að hugsa um velferð mannkyns. Honum er svona rosalega hugað um fæðubótarefni. Þið lásuð rétt: fæðubótarefni!
Það er augljóslega ekki góð viðskiptahugmynd að sprengja hvali til að framleiða fæðubótarefni. Það eru til ógrynni af fæðubótarefnum. Þúsundum sinnum fleiri en það eru til hvalir. Líklega 30 þúsund milljón sinnum fleiri. Og vísindasamfélagið hefur hafnað þeim sem bábilju. En af því að ég geri ráð fyrir því að Kristján Loftsson vilji nú græða á því að drepa hvalina, þá vil ég benda þessum kvótagreifa á að hann getur hagnast svo langtum betur á því að gera hvalasláturstöð sína að safni. Hann gæti gert út allan skipaflota sinn út í hvalaskoðunarferðir. Það væri einstakt tækifæri á heimsvísu! Kristján Loftsson gæti auðgast um fullt af milljónum. En því miður duga slíkar ráðleggingar um aukinn gróða ekki neitt, því honum er skítsama. Hann á skítnóg af seðlum!
Kristján Loftsson milljarðamæringur vill skjóta hvalina með sprengiskutlum. Til að breyta þeim í fæðubótarefni. Með sprengiskutlum! Þegar skutullinn lendir í spendýrinu þá springur hann. Þetta er ekkert annað en villimannsleg og viðurstyggileg aðferð til að bana spendýri. Hvaða bjánar telja réttlætanlegt að skjóta spendýr með sprengjum? Hvaða veiðimaður myndi stæra sig af því að skjóta hreindýr með sprengjuskutli? Kristjáni Loftssyni er einfaldlega skítsama. Hann á ógrynni af seðlum. Hann vill bara sprengja hvali. Sprengja þá í tætlur fyrir „fæðubótarefni“.
Vitanlega er viðbúið að einhverjir örvasa íslenskir vitleysingar haldi fram mikilvægi þess að gæða sér á hvalkjöti, sérstaklega ef þeir geta hreykt sér frammi fyrir útlendingum meðan þeir gadda í sig þveistið með æluna í kokinu í þorrablótum, glottandi framan í skelfingu lostna útlendinga. Það er jafnan gefið að slíkir bjánar hafi sig mikið í frammi. Þessir sömu þjóðernisræknu „Íslendingar“ hafa ríkulegan aðgang að t.d. svínakjöti eða kjöti nauta eða kjúklinga eða bara rollunnar. Nú eða bara kengúrukjöt frá Ástralíu! En það virðist ekki duga þeim. Samt eru þeir allir með grill. Hver og einn og einasti þeirra.
Það sem vekur hins vegar mesta furðu er að núverandi ríkisstjórn leggi samþykki sitt við þennan hjákátlega gjörning milljarðamæringsins Kristjáns Loftssonar. Sérstaklega ef að til þess er horft að í forsæti er hin brosmilda Katrín Jakobsdóttir. Jafnaðarmennsku hennar og umhyggju fyrir umhverfinu er hér nokkuð viðbrugðið. Vinstri grænir gefa sig jú út fyrir að vera, tja grænir. Eins og í „umhverfisvænir“. Maður gæti eins ætlað að núverandi umhverfisráðherra þyki vænna um viðgang skógræktar heldur en að amast við því að spendýr séu sprengd til að vinna úr þeim fæðubótarefni.
Þar fyrir utan er algerlega makalaust hvað hið svokallaða „vísindasamfélag“ þegir þunnu hljóði yfir þessari ósvinnu. Prófessorar og doktorar í líffræði halda bara kjafti þó að þeir viti betur. Og þeir eru æði margir. Þeir vilja ekki rugga bátnum, vesalingarnir. Þeir gætu misst af einhverjum sporslum.
Síðan eru líka til svokallaðir „vísindamenn“ hjá Hafró sem hafa sífellt haldið því fram að þetta snúist um eitthvað ímyndað „jafnvægi“ í hafinu, en það byggja þeir á svonefndu „fjölstofnalíkani“, sem er augljóslega innantóm vitleysa. Sumir þar halda að ef þeir geti sett saman fábrotið algrím byggt á ranghugmyndum, þá sé bara hið besta mál að drepa hvali. Þessir „vísindamenn“ hjá Hafró hafa jú fengið tugmilljónir, ef ekki hundruðir milljóna frá stjórnvöldum fyrir það eitt að halda því fram að það sé allt í lagi að drepa hvali. Kannski þessir vísindamenn geti líka sannfært okkur um mikilvægi fæðubótarefna, sem eru unnin úr sundursprengdum hvölum.
Hver veit nema Kristján Loftsson muni leggja þeim liðsinni. Hann á jú sand af seðlum!