Klukkan er að verða fjögur að nóttu. Mér gefst færi í fyrsta sinn í 12 tíma til að líta á símann minn og í því hringir hann. Í símanum er maðurinn minn augljóslega nývaknaður og hvíslar hásri röddu: „Hvar ertu – er ekki allt í lagi?” „Jú allt í lagi, fer alveg að koma heim. Ég komst ekki heim af vaktinni, var svo brjálað að gera en ég er að klára hérna.“ Hann er svo sem vanur þessu, ekki í fyrsta sinn og ekki í síðasta sinn sem ég kemst ekki heim úr vinnu. Vaktin átti að klárast hálf tólf en þegar þú sinnir fæðingarþjónustu er ekki alltaf hægt að fara eftir klukkunni, náttúrunni er nokk sama hvað hún slær. Ég er nefnilega ljósmóðir.
Um morguninn hafði ég kvatt börnin okkar þrjú þegar þau fóru í sína leik- og grunnskóla. Ég var farin í vinnu þegar þau komu heim. Börnin mín þola ekki kvöldvaktir. „Hvernig vakt ertu á í dag mamma?” er algeng spurning á okkar heimili. Þegar ég kem heim upp úr fjögur laumast ég inn í herbergin þeirra og lít á þau sofandi og sæl. Ég neyðist til að fara í sturtu, ég er búin að fá yfir mig mikið af legvatni og blóði sem ég náði bara að kattarþvo af mér í vinnunni. Mér er illt. Illt alls staðar. Mig verkjar í fæturna, axlirnar, hendurnar, allur líkaminn er úrvinda og þreytuverkirnir eru þannig að ég tek eina bólgueyðandi verkjatöflu svo ég geti sofið fyrir verkjunum. Ég er líka með höfuðverk vegna hungurs. Tennurnar á mér eru með þykka sykurskán þar sem ég náði ekkert að borða á vaktinni en brá á það ráð þegar ég var farin að skjálfa af hungri að sjúga nokkra sykurmola á hlaupum til að ná blóðsykrinum upp.
Ég fæ mér að borða, bursta tennur og leggst loksins á koddann örþreytt klukkan rúmlega fimm. Heilinn er ekki tilbúinn að fara að sofa, hann þarf að fara yfir og vinna úr því sem gerðist á vaktinni. Ég þerraði tár, ég þreif ælu, ég gaf lyf, ég hughreysti, ég hvatti, ég nuddaði, ég hélt í hendur, ég huggaði, ég tók myndir, ég tók á móti barni, ég veitti hamingjuóskir, ég saumaði, ég skráði í skýrslur og fylgdi nýju fjölskyldunni á sængurlegudeildina. Ég skipti um föt og ég tók við annarri konu.
Ég þerraði tár að nýju, ég tók erfiðar ákvarðanir, ég bað um annað álit, ég óskaði eftir lækni, ég fylgdi konunni á skurðstofu í bráðakeisaraskurð. Ég hélt í hendur, ég þerraði fleiri tár, ég hughreysti, ég hvatti, ég róaði pabbann. Læknirinn lagði barnið í dauðhreinsaða vöggu sem ég tók við og flutti barnið svo á barnaborðið. Barnið var sprækt mér og lækninum, sem brugðumst rétt við, sé lof. Ég sótti pabbann, hann snyrti naflastrenginn og ég hvatti hann til að tala við nýfædda barnið sitt. Nýburar þekkja rödd foreldra sinna og róast við heyra hana þegar þau koma í birtuna utan móðurkviðar. Saman vöfðum við krílinu inn og hann fór með það til mömmunnar sem lá enn á skurðarborðinu. Allir grétu. Þetta var falleg stund.
Vinnan mín er erfið en hún er líka gefandi. Heilinn minn er að klára að fara yfir vaktina. Var nokkuð sem ég gleymdi að gera? Nei, ég held ekki. Ef ég gleymdi einhverju verður að hafa það. Börnin og mæðurnar eru örugg og hraust og það skiptir mestu máli. Ég vona bara að fólkið sem ég sinnti hafi ekki fundið hvað það var mikið að gera. Ég hefði viljað sinna þeim betur. Ég er alveg að sofna.
Þegar ég valdi mér starfsvettvang langaði mig að vinna við eitthvað þar sem ég gæti látið gott af mér leiða, helst við að meðhöndla fólk og hjálpa því. Ég vissi að launin væru lág en unga, bjartsýna og kannski aðeins barnalega ég vonaði að það myndi breytast. Ég hef alltaf verið góður námsmaður og hefði getað farið í hvaða háskólanám sem er. Ég hefði getað valið að mennta mig í greinum þar sem launin eru mun hærri. Laun þar sem unnið er með peninga eru til dæmis almennt hærri en þar sem unnið er með fólk. Mér hefur alltaf fundist það svo skrýtið, stórundarlegt jafnvel. Ef ég hefði valið mér starf þar sem ég bæri ábyrgð á peningum, en ekki móður og barni, væri ég sennilega ekki í harðri kjarabaráttu. Þá er ég ekki að gera lítið úr vinnu þeirra sem bera ábyrgð á peningum. Mér finnst bara undarlegt að slík ábyrgð sé almennt metin meira virði en ábyrgð á mannslífum, jafnvel þó launagreiðandinn sé sá sami eða Ríkissjóður Íslands.
Mér þykir ótækt, miðað við menntun mína og ábyrgð í starfi, að ég ætti erfitt með að sjá fyrir börnunum mínum væri ég einstæð móðir. Til þess þyrfti ég að vinna enn fleiri yfirvinnutíma og næturvaktir á kostnað heilsunnar til að það gengi upp með góðu móti.
Grunnlaun nýútskrifaðrar ljósmóður eru 460.000 krónur á mánuði. Launin hækka hægt og þakið er lágt. Snúið hefur verið út úr þessum upphæðum með uppreiknuðum tölum sem engin ljósmóðir á gólfinu kannast við. Stjórnvöld virðast ekki, þrátt fyrir fögur loforð, ætla að gera neitt til að breyta þessu. Á meðan harðnar kjarabaráttan og raunveruleg hætta er á að þjónustan við fólk í barneignarferli skerðist. Þjónusta sem hefur verið á heimsmælikvarða, best í heimi reyndar, virðist vera stjórnvöldum einskis virði. Foreldrum, nýburum og öllum sem sinna barneignarþjónustu er sent langt nef með lítilsvirðingunni sem ljósmóðurstarfinu er sýnd.