Íslenska Þjóðfylkingin hefur sem markmið að Reykvíkingar eigi kost á húsnæði, hvort sem er til leigu eða eignar, á kostnaðarverði. Þetta, þýðir að ekki verður pláss fyrir hagnaðardrifin húsaleigufélög í Reykjavík. Þessi skilaboð ætlum við að senda í klárum texta, sem enginn getur misskilið. Við í Íslensku Þjóðfylkingunni þekkjum til fjárhags- og skuldastöðu borgarinnar og getum lofað mjög takmörkuðum fjárfestingum úr borgarsjóði á næstunni. Þess vegna viljum við ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.
Markaður stjórnast af þrem meginþáttum: Eftirspurn, framboði og kaupgetu. Til viðbótar geta aðilar markaðarins komið sér upp forréttindaaðstöðu eins og t.d. skortstöðu og neyð, sem réttlætir samfélagslegar niðurgreiðslur, óháð arði þeirra sem njóta skortstöðunnar.
Fyrst viljum við gera atlögu að eftirspurninni.
Við viljum opna eina félagsþjónustu við Reykvíkinga í Eystrasaltslandi, Póllandi, Litháen, eða Lettlandi. Gera samning um heilbrigðisþjónustu þar. Síðan að bjóða Reykvíkingum, sem ekki tengjast vinnumarkaði að flytja tímabundið frá Reykjavík til þess staðar sem verður fyrir valinu. En halda þeim húsnæðisbótum sem þeir höfðu hér fyrstu tvö árin. Þetta mun bæta lífskjör þeirra sem geta. Við reiknum með að geta minnkað eftirspurn eftir um þúsund íbúðum tímabundið. Þetta kostar ekkert, en sendir klár skilaboð, hvert við viljum og hverjum við þjónum.
Næst gerum við atlögu að kaupgetunni, eða samkeppnishæfninni.
Mörg hverfi Reykjavíkur eru að verða að sumarbústaðahverfum. Þessi hverfi voru skipulögð sem íbúðahverfi og eiga ekki að nýtast til atvinnurekstrar. Við viljum "banna" útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðaþjónustu. En við erum á móti bönnum, þess vegna verður hægt að fá leyfi til þess. En leyfið á að kosta meðalútsvar í Reykjavík, miðað við fasteignamat íbúðarinnar. En ef útsvarsgreiðandi býr í íbúðinni, kostar það að sjálfsögðu ekki neitt. Þannig jöfnum við samkeppnisaðstöðu þeirra sem eru húsnæðisleitandi, gegn kaupgetu þeirra sem leigja íbúðir yfir skamman tíma í tómstundum. Það eru meira en þrjú þúsund íbúðir í útleigu til ferðamanna í Reykjavík. Margir munu velja að leigja frekar útsvarsgreiðendum, við reiknum með eitt þúsund íbúðum inn á leigumarkað Reykvíkinga.
Svona viljum við í Íslensku Þjóðfylkingunni breyta hlutföllunum á húsnæðismarkaði um tvö þúsund íbúðir, án þess að byggja á kostnað borgarsjóðs.
Þá fyrst ætlum við að byrja að byggja.
Við ætlum ekki að byrja á að byggja fyrir tekjulága, við erum búin að skapa rými fyrir þá með því sem við þegar höfum gert. Við ætlum að byggja fyrir þá sem geta og vilja byggja sjálfir. Við ætlum ekki bara að leggja út lóðir, heldur klár byggingasamvinnufélög, fyrir áhugasama, sem geta byggt. Byggingasamvinnufélög, sem verða leyst upp, þegar íbúðir verða afhentar. En við viljum byggja hratt, ódýrar litlar íbúðir fyrir þá sömu, sem hægt er að fá leigt á byggingartímanum. Forða fólki úr fátæktargildru okurleigu, á meðan það byggir sér heimili. Hver slík íbúð, sem nýtist á þennan hátt, mun skila af sér annarri á tveggja ára fresti. Afrakstur án útgjalda fyrir borgarsjóð. Sem til viðbótar mun enn auka framboð íbúðarhúsnæðis og lækka verð.
Við munum halda áfram að selja verktökum lóðir á uppsprengdu verði.
Þið, kjósendur, skuluð vera viss um að við í Íslensku Þjóðfylkingunni þorum að temja folann. Við sjáum ekkert laust pláss fyrir hagnaðardrifin leigufélög í Reykjavík. Í Reykjavík á að vera dreifð eignaraðild að íbúðarhúsnæði og leigufélög eiga að vera á samfélagslegum forsendum. Íbúðarhúsnæði er grunnþörf og á að vera aðgengilegt á húsbyggingaverði.
Jens G. Jensson skipar 3. sæti á lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavík.