„Það er ekki nema von að menn og konur spyrji sig þessarar gríðarlega mikilvægu spurningar nú þegar líður að kosningum og kvennahreyfingin er eitt þeirra milljón þúsund afla sem bjóða fram krafta sína í borgarstjórn.
Spurningin er samt frekar heimskuleg, eiginlega bara mjög heimskuleg. En það er allt í lagi að spyrja heimskulegra spurninga stundum, það sagði afi minn alltaf. Ég spyr mig til dæmis stundum: Af hverju er ekki hægt að kaupa malakoff í kubbum, eins og ost? En ég veit alveg sjálf að það er næstum ómögulegt að brýna ostaskera.
Það er ekki fruma í líkama mínum sem trúir því ekki að Bríet Bjarnhéðins hafi snúið sér í gröfinni þegar við skiluðum inn meðmælendaskránni. Hún hefur örugglega staðið í þeirri trú að þegar árið 2018 rynni upp værum við komin á sjálfstýrða svifbíla, ekki nokkurri mannsekju dytti lengur í hug að leggja sér hrútspunga til munns og að framlag kvenna á vinnumarkaði væri metið til jafns við framlag karla.
Auðvitað er kvennaframboð tímaskekkja. Það er motherfokkin 2018 og við ættum ekki að þurfa á því að halda. Við ættum að vera komin miklu lengra en þetta, en við höfum hjakkað í sama farinu undanfarna áratugi, eins og Sunnlendingur að reyna að losa bílinn sinn úr snjóskafli. Okkur sem samfélagi hefur mistekist og nú þurfum við að gjöra svo vel að éta það ofan í okkur, horfast í augu við snjóinn og biðja nágrannana að hjálpa okkur að ýta bílnum (ég reyndi að finna skútu-líkingu því það hefði verið svo gaman að hafa svona þjóðarskútu reffa hérna, en það meikar ekkert sense að ýta skútu).
Ég er stödd í Edinborg eins og er og það eru tveir hlutir sem Skotinn veit um Ísland: Við áttum epískt bankahrun og við mælumst meðal efstu þjóða þegar kemur að jafnrétti. Vitiði hvað er fokkin vandræðalegt að þurfa alltaf að leiðrétta þetta, segja þeim frá Vigdísar effectinu og öllum virkilega hræðilegu #metoo sögunum? Segja þeim að í landinu mínu séu konur fastar í ofbeldissamböndum því þjóðfélagið sé þannig byggt upp að þær geti ekki staðið á eigin fótum fjárhagslega með börnin sín?
Að strákar megi ekki leika sér með bleikt dót og stelpur sem taki stjórnina séu frekjur. Að konur sem bendi á kynferðislega áreitni séu viðkvæmar og „kunni bara ekki að taka viðreynslu.” Konur sem bendi á óréttlætið og vilji breyta því séu að „fórnarlambavæða allar konur” og karlar sem gráti séu aumingjar.
Ef einhver dirfist að benda á að á Íslandi grósseri nauðgunarmenning er alltaf einhver tilbúinn að benda á að ástandið sé verra einhvers staðarannars staðar. Ástandið er vissulega verra sums staðar en það er líka betra sums staðar. Viljum við ekki lengur vera með þeim bestu, á það bara við um fótboltann? Ég nenni ekki að búa í þannig samfélagi lengur, nennir þú því?
Kvennahreyfingin ætti ekki að þurfa að vera til. Ég er alveg innilega hjartanlega sammála því, en hér erum við nú samt. Vegna þess að þau málefni sem við stöndum fyrir eru málefni sem við sem samfélag höfum ekki verið að sinna nógu vel. Konur eru enn undirokaðar á mörgum sviðum og kynbundið ofbeldi er vandamál sem við ættum öll að vera orðin mjög þreytt á að ræða, vandamál sem hefur verið til staðar allt of lengi og við ættum að vera löngu búin að uppræta.
Gerum það núna. Plís. Annars gubba ég.
Höfundur er í 12 sæti á lista Kvennahreyfingarinnar.