Árið 2012 kom út skýrsla á vegum Viðskiptaráðs um stöðu íslenska efnahagskerfisins og framtíðarmöguleika sem unnin var af ráðgjafafyrirtækinu McKinsey. Í skýrslunni var sett fram sú framtíðarsýn að Íslendingar yrðu að auka útflutning um 1000 milljarða fram til 2030 til að tryggja þrjú prósent hagvöxt að meðaltali á ári og viðhalda samkeppnishæfni landsins.
Í skýrslunni segir jafnframt að eiginleg auðlindanýting Íslendinga ætti sér náttúruleg vaxtarmörk og því yrði umfram allt að efla rannsóknir og þróun, alþjóðageirann og þekkingariðnaðinn almennt, ættu markmið um hagvöxt og samkeppnishæfni að nást.
Niðurstöður McKinsey voru forsendur ályktunnar Alþingis um stefnu um nýfjárfestingar árið 2015. Þar segir að lögð skuli áhersla á fjárfestingu og uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á nýrri þekkingu, skapar verðmætari störf, er umhverfisvæn og styður við það atvinnulíf sem fyrir er svo eitthvað sé nefnt.
En þrátt fyrir þessa leiðsögn McKinsey, og sem felst í ályktun Alþingis, hafa leiðirnar að markinu ekki enn verið varðaðar.
Bensín og bremsu kenningin
Ráðandi viðhorf innan stjórnkerfisins hafa til þessa fyrst og fremst byggst á kenningu sem ég kýs að kalla bensín og bremsu kenninguna. Þegar vel árar höllum við okkur aftur á bak og segjum „er þetta ekki bara orðið ágætt?“ En í niðursveiflu er bensínið stigið í botn til að reyna að draga úr neikvæðum áhrifum hennar.
Vandinn við þessa aðferð er sá að við getum ekki kveikt og slökkt á erlendri fjárfestingu eftir þörfum. Ferlið frá því Ísland er fyrst skoðað sem fjárfestingarmöguleiki og þar til framkvæmdir hefjast getur hlaupið á árum. Við gætum því allt eins verið að vinna með sveiflunum eins og gegn þeim. Skortur á samfellu og úthaldi veikir almennt samkeppnisstöðu okkar eins og allir sem sinnt hafa markaðsmálum þekkja vel.
Langtímastefnumótun um áherslur í atvinnuuppbyggingu er verkefni allra hagaðila og hagsmunasamtaka, jafnt atvinnulífs, stofnana og stjórnvalda. Það veldur hins vegar áhyggjum hversu hægt gengur að koma langtímastefnumótun og afleiddum aðgerðum í framkvæmd eða farveg þrátt fyrir ákall um aðgerðir og yfirlýsingar úr öllum áttum um mikilvægi þess að feta þá slóð.
Samkeppni um verkefni
Íslenskt hagkerfi er tiltölulega opið, en að sama skapi einsleitt og að miklu leyti auðlindadrifið. Íslandsstofa, ásamt Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði og Samtökum iðnaðarins, hefur ítrekað bent stjórnvöldum á að bein erlend fjárfesting er eitt mikilvægasta tækið við atvinnuuppbyggingu þjóðar sem býr við slík skilyrði. Það sýnir reynsla okkar helstu samkeppnislanda, ekki síst Norðurlandanna, sem hafa lagt áherslu á vel útfærða stefnu og aðgerðir til að laða til sín erlenda fjárfestingu á þeim sviðum þar sem þau eru samkeppnishæf.
Mikil og vaxandi samkeppni er á milli landa og svæða um að ná til sín alþjóðlegum fjárfestingaverkefnum. Flest ríki heims reyna vekja athygli á kostum þess að fjárfesta í viðkomandi landi. Þar að auki starfa svæðisbundnar skrifstofur í sýslum og borgum svo tug þúsundum skiptir um heim allan, í þeim sama tilgangi – að laða alþjóðleg fjárfestingaverkefni inn á viðkomandi svæði.
Á Íslandi er málaflokkinn erlendar fjárfestingar hins vegar hvergi að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands eða fjármálaáætlun hennar til næstu 5 ára. Reyndar er afar lítið að finna um mótun atvinnustefnu til lengri tíma og áherslur og aðgerðir þessu tengt.
Hverju skilar erlend fjárfesting?
Á Íslandi er öflugt frumkvöðlasamfélag þar sem nýsköpun hefur þrifist þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Nýsköpunarfyrirtæki búa við sveiflukennt gengi krónunnar, erfitt fjármögnunarumhverfi og til skamms tíma, takmarkaðar heimildir til að ráða erlenda sérfræðinga með sérhæfða þekkingu. Það er eðlilegt að spyrja af hverju við ættum að hafa svona mikinn áhuga á að laða til okkar erlend fyrirtæki og erlenda fjárfestingu?
Það eru nokkrar ástæður sem hægt er að telja til fyrir því:
- Erlend fyrirtæki innleiða nýja þekkingu á Íslandi
- Erlend fjárfesting skapar tækifæri sem ella væru ekki fyrir hendi – oft á tíðum er um fjárfreka og áhættusama nýfjárfestingu að ræða eða á svið þar sem þekking er einfaldlega ekki til staðar þó svo samkeppnishæfnin gæti verið fyrir hendi ef út í slíkar fjárfestingar væri farið.
- Erlend fjárfesting getur skapað verðmæt störf og oft verðmætari störf en eru fyrir hendi í hagkerfinu ef rétt er á málum haldið
- Erlend fjárfesting minnkar rekstrarlega áhættu innanlands þar sem hinn erlendi fjárfestir er beinn þátttakandi í verkefninu
- Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að erlend fjárfesting eykur framleiðini
- Í mörgum tilfellum er um að ræða alþjóðlega nýsköpun og ber að líta á sem hliðstæðu innlendrar nýsköpunar.
- Erlend fjárfesting byggir oftast á markaðsaðgengi og þekkingu sem er til staðar hjá hinum erlenda fjárfesti – sem er oft á tíðum mikilvægasta forsenda þess að nýsköpunarverkefni heppnist.
- Erlend fjárfesting skapar óteljandi samstarfsmöguleika milli þeirra og fyrirtækja sem fyrir eru hér á landi.
Bein erlend nýsköpun
Hjá Íslandsstofu hefur undanfarin ár verið unnið að því að greina samkeppnisfærni landsins og að kynna þá möguleika sem í boði eru fyrir erlendum fyrirtækjum sem líkleg eru til að sjá tækifæri í því sem landið hefur upp á að bjóða. Þetta eru meðal annars fyrirtæki sem hafa hag af því að nýta þá fjölmörgu möguleika sem jarðvarminn býður upp á og minnka þar með sótspor sitt, fyrirtæki í sérhæfðum verkefnum í líftækni, gagnaver og samstarf milli íslenskra og erlendra fjárfesta í ferðaþjónustu svo dæmi séu tekin.
Samkeppnisstaða Íslands hefur batnað og breytast á undanförnum árum. Erlend fjárfestingaverkefni eru ekki lengur eingöngu svokölluð stóriðjuverkefni sem byggja eingöngu á aðgengi að ódýrri orku heldur margbreytileg þekkingarverkefni sem byggja ekki síður á aðgengi að menntuðu vinnuafli, þróuðum innviðum og þekkingarumhverfi.
Fyrirtæki á borð við Algalíf á Suðurnesjum og Algaennovation sem brátt er að taka til starfa hér á landi við framleiðslu smáþörunga. Carbon Recycling sem framleiðir methanol með umhverfisvænum hætti og hyggur á alþjóðlega útrás byggt á samstarfi íslenskra og erlendra fjárfesta og vísindamanna, uppbygging gagnaveranna Advania, Verna Global, Borealis og fleiri sem hér eru að undirbúa starfrækslu og verkefni í ferðaþjónustu á borð við 5 stjörnu hótel Marriot við Hörpu, eru allt dæmi um vel heppnaða erlenda fjárfestingu hér á landi, sem skapar bæði ný störf og nýja þekkingu.
Hvað þarf að bæta?
Þrátt fyrir augljósan ávinning þá hefur þessu málaflokkur að mestu legið óafskiptur af hálfu hins opinbera. Afleiðingar þess birtast víða.
Brýn þörf er á endurskoðun á lagaumgjörð málaflokksins á mikilvægum sviðum, ekki síst sá hluti löggjafarinnar sem snýr eignarétti og leigurétti erlendra aðila sem hingað koma til að setja upp atvinnustarfsemi.
Málaflokkurinn erlendar fjárfestingar er ekki til í stjórnarsáttmála eða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Engin áform eru því samkvæmt þessum plöggum, um að horfa sérstaklega til slíkra tækifæra. Ný lög um Íslandsstofu sem nú eru til umfjöllunar á hinu háa Alþingi gefa þó vísbendingu um að breytingar gætu verið í vændum og kem ég nánar að því hér á eftir.
Þekking erlendra fjárfesta, jafnvel í greinum þar sem samkeppnishæfni Íslands er borðleggjandi er afar takmörkuð, enda fjármunir til kynningar og markaðsmála langt undir þeim viðmiðum sem okkar helstu samkeppnislönd svo sem Írland, Malta (sem er eyríki með um 400 þúsund íbúum) og sum norðurlandanna verja til markaðs-og kynningarstarfs
Þekkja ekki Ísland
Í könnun sem erlent ráðgjafafyrirtæki vann fyrir fjárfestingasvið Íslandsstofu um viðhorf erlendra fjárfesta til Íslands kom í ljós að aðeins 10% þeirra sem könnunin tók til, töldu sig þekkja nóg til að aðstæðna hér á landi til að geta myndað sér skoðun og svarað könnuninni. Þetta er um helmingi lægra hlutfall en meðal helstu samkeppnislanda okkar þar á meðal Norðurlanda og Eystrasaltslandanna.
Þetta eru óviðunandi niðurstöður, ekki síst með hliðsjón af því að valdir höfðu verið fjárfestar úr atvinnugreinum sem samkeppnisgreiningar staðfesta að hefðu talsverðan ávinning af staðsetningu á Íslandi.
Staðfesting á þýðingu orðspors, ímyndar og þekkingar fjárfestanna birtist svo ekki síst í þeirri staðreynd að hjá þeim 10% aðspurðra sem treystu sér til að svara var línuleg fylgni milli þekkingar og jákvæðra viðhorfa. Því betur sem svarendur þekktu til Íslands, því jákvæðari voru þeir.
Ljós við enda ganganna?
En hlutirnir eru ekki eingöngu svart-hvítir. Rekstrarumhverfið hefur verið að færast til betri vegar á mörgum sviðum fyrir erlenda fjárfesta í tilteknum atvinnugreinum. Má þar til dæmis nefna ný lög um erlenda sérfræðinga sem eru hluti af núverandi útlendingalöggjöf og sem fela í sér hraða afgreiðslu atvinnu-og dvalarleyfa auk skattaívilnana. Þetta er gífurlega mikilvægt fyrir öll fyrirtæki í nýsköpunar og þekkingariðnaði sem hér starfa, þar sem aðgengi að innlendum sérfræðingum er oft á tíðum takmarkað.
Þá má nefna fyrirheit núverandi ríkisstjórnar um að afnema þak á frádrátt kostnaðar við rannsóknir og þróun sem bætir verulega samkeppnisstöðu Íslands við að ná hingað til lands áhugaverðum fyrirtækjum á afmörkuðum sviðum líftækni svo eitthvað sé nefnt.
Utanríkisráðherra hefur tilkynnt um áform sín um að efla viðskiptaþjónustu í sendiráðunum á völdum mörkuðum en það mun stórauka skilvirkni og möguleika okkar sem sinnum markaðs-og kynningarmálum til að vinna með beinskeyttari hætti úti á mörkuðunum.
Þá hefur verið boðuð stofnun útflutnings-og markaðsráðs sem verði stefnumótandi fyrir áherslur í sameiginlegum markaðs-og kynningarmálum útflutningsgreinanna samkvæmt nýju frumvarpi um Íslandsstofu sem nú liggur fyrir alþingi.
Það er ekki hlutverk hins opinbera að ráðskast um of með atvinnulífið. Hlutverk þess er að skapa sem best skilyrði svo atvinnulífið vaxi og dafni með hagsæld okkar allra að leiðarljósi. Það er eigi að síður hagsmunamál þjóðarinnar allrar að reyna að lesa sem réttast í framtíðina og þau tækifæri sem bjóðast bæði nútíð og framtíð.
Stjórnvöld og atvinnulíf þurfa því að taka höndum saman við samlestur alþjóðlegrar þróunar og tækifæra fyrir Ísland. Afrakstur þeirrar vinnu þarf að leiða af sér langtímastefnu um markmið og aðgerðir til að hámarka samkeppnishæfni okkar í breytilegum heimi.
Höfundur er forstöðumaður sviðs erlendrar fjárfestingar hjá Íslandsstofu.