Nú ber það til tíðinda varðandi fyrirhuguð dráp Kristjáns Loftssonar milljarðamærings á langreyðum, að skipstjóri í þjónustu hans hátignar stígur fram fyrir skjöldu og segist hvorki missa svefn né hafa slæma samvisku yfir því að skvera upp flotann, rigga til svona tæplega tvö hundruð manns og halda til hafs svo hann og hans nótar geti sent sprengjur á skutli í þessi stórfenglegu spendýr. Enda eru þeir sem betur fer búnir að hvíla sig í tvö ár! Þeir eru sumsé til í tuskið. Allir þessir rosalegu flottu töffarar. Einn fyrir alla og allir fyrir einn!
Hann ber fyrir sig að „mjög góðir vísindamenn hjá Hafró“ hafi jú sýnt fram á að það séu til cirkabát 25.000 svona kvikindi í N–Atlantshafi. Árið 2014 var áætlað að fjöldi fíla næmi um 400.000 í Afríku. Síðan þá hefur þeim fækkað. Umtalsvert. Farleiðir stórhvela snerta lögsögu fjölmargra ríkja. En það eru bara íslenskir „athafnamenn“ sem vilja drepa langreyðar með leyfi „góðra vísindamanna hjá Hafró“.
Nú ætla ég mér ekki þá gustuk að kenna þessum skipper að N – Atlantshaf er töluvert stærra en Afríka. Hann getur kíkt á kort. Ég vil samt benda honum, og einnig öllum hinum staffírugu skipperagaurunum, að þeir eru ekki að skjóta sprengjum í hvali til að hægt sé að tálga úr beinum þeirra ýmis konar skraut, né heldur til að tryggja standpínu fávísra manna, jafn aumkunarvert og það má teljast. Bossinn þeirra ætlar að framleiða fæðubótarefni. Nánar tiltekið járn.
Heyr á endemi! Mætti ég benda á ágæti þess að éta rauðrófur? Hægðirnar þessara skippera yrðu allavega betri.
Þar fyrir utan gæti þessum djarfa „veiðimanni“ verið gagnlegt að vita að dauðastríð þessara grunlausu spendýra getur staðið í tæplegan hálftíma. Það gerist þegar „skyttan“ stendur ekki alveg undir nafni. Það hefur verið skjalfest og skráð að sprengjuskutlar geta eyðilagt heilan rúmmetra af lifandi vefjum spendýrsins. Sprengjuárás með skutlum á vélknúnum farartækjum til að drepa stórfengleg spendýr til að sjóða járnfæðubótargraut úr langreyðum er einfaldlega viðurstyggilegt athæfi. Sem viðskiptahugmynd er þetta vitanlega bara bull! Það þarf ekkert að fjölyrða um það.
Nú kann málum að vera einfaldlega háttað svo að milljarðamæringum sem vita ekki lengur aura sinna tal, né kunna heldur lengur skil á eigin hvötum, þyki best að sjóða stórhveli í fæðubótarefnisgraut.
Vitanlega munu þessir göfugu skipperar uppnefna þá sem amast við þessu rugli „svokallaða mótmælendur“.
Það er kostuleg vörn.
Enda kostuð af milljarðamæringnum Kristjáni Loftssyni.
Sofðu rótt, skipper.