Garðabær hefur um langt skeið staðið að valfrelsi foreldra og barna um þann skóla sem börn sækja innan sveitarfélagsins óháð búsetu. Samhliða því hefur Garðabær einnig staðið með fjölbreyttu rekstrarformi á leik- og grunnskólastigi til þess m.a. að auka fjölbreytni og stuðla að nýsköpun í fagstarfi skóla. Garðabæjarlistinn styður þessa sýn heilshugar en leggur um leið á það áherslu að tekið sé utan um þá þætti sem snúa að þeim neikvæðu áhrifum sem valfrelsið eitt og sér getur haft.
Valfrelsi og velferð
Valfrelsið má aldrei verða til þess að ýta undir þá hegðun okkar að flýja það óþægilega eða þann vanda sem upp kemur í til að mynda skólasamfélaginu eða þeim fjölbreytileika sem skólasamfélag býr yfir þar sem einstaklingar með alls kyns þarfir eiga að fá að njóta sín. Fötluð börn og ungmenni eru þar ekki undanskilin né heldur samskiptavandamál sem eiga sína verstu birtingarmynd í því sem einelti er.
Garðabæjarlistinn leggur áherslu á og ætlar að taka ábyrgð þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki sem menntun og velferð er og gerir kröfum um að valfrelsi hafi jákvæð áhrif fyrir alla ekki bara suma. Til þess að svo megi verða er ekki hægt að horfa fram hjá velferðarþjónustunni, þjónustu við börn og ungmenni með sérþarfir af hvaða tagi sem er. Garðabæjarlistinn ætlar að styðja við snemmtæka íhlutun þannig að bregðast megi hratt og örugglega við þeim aðstæðum sem upp koma þar sem tekið er af ábyrgð á þeim verkefnum sem þarf að leysa innan hvers skólasamfélags. Hvort heldur sem það varðar námslegan eða félagslegan stuðning, vegna staðbundinna ástæðna eða langvarandi aðstæðna eins og fötlunar.
Forgangsröðun og framtíðarsýn
Garðabæjarlistinn hefur þá sýn að þessir þættir verði einfaldlega að vinna saman til þess að ná megi alvöru árangri. Valfrelsið eitt og sér gefur okkur alltaf minni árangur eins og í flestum tilvikum þegar hlekkur í mikilvægri keðju er tekinn í burtu.
Það þarf að gefa í og gera betur í allri þjónustu er varðar velferð barna og ungmenna. Skólakerfið er sú grunnstoð þar sem þjónustan er veitt og því viljum við í Garðabæjarlistanum tryggja að samspil þessara þátta verði sem mest og afkoman meiri gæði fyrir alla. Þess vegna viljum við forgangsraða í þágu velferðar með því að leggja af stað í stefnumótunarvinnu um menntun án aðgreiningar og framkvæmdaráætlun í samráði við þá sem að málefnum barna og ungmenna koma.
Gerum bara betur. Rekstrartölur eru mikilvægar og svo á einnig um líf og lífsgæði íbúa.
Mennskuna upp á borð og látum alla skipta máli í Garðabæ.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Garðabæ.