Ég fylgist með leið 1 keyra eftir Gömlu-Hringbraut í vesturátt. Strætóinn stoppar við Landsspítala. Út kemur skeggjaður nemi með tónlist í eyrunum. Hann gengur aftur fyrir vagninn og út á gangbrautina. Grár jepplingur kemur aðvífandi úr hinni áttinni og fram hjá strætónum. Neminn, sem er á leið út í Læknagarð, hægir á sér á miðeyjunni, jepplingurinn nánast strýkur honum um hnéskeljarnar.
Ef þetta væri ekki nýtvítugur læknastúdent heldur hvatvíst barn á hraðferð, þá væri þetta ekki nærri-því-slys heldur alvarlegt slys. Það hefði verið skráð í slysagrunn samgöngustofu með orðunum:
„Ekið á gangandi vegfaranda (7 ára karl) sem gengur skyndilega inn á gangbraut.”
Svona er viðhorfið stundum. Gangandi vegfarendur á 5 km hraða ganga skyndilega inn á gangbrautir. Til að fyrirbyggja það að börn gangi út á gangbrautir of skyndilega eru sendar litlar sögubækur heim til þeirra þar sem þau eru vöruð við að ganga of skyndilega út á götu og lögreglan fer í skóla og brýnir fyrir börnum að fara með gát í kringum strætóstöðvar.
Án efa er það skynsamlegt en fræðsla ein og sér er sjaldan næg forvörn. Það þarf að búa til borgarumhverfi þar sem bílar keyra ekki of hratt og þurfa að taka tillit til gangandi og hjólandi vegfarenda. Þrengingar líkar þeim á Birkimelnum hindra það að bílar fari fram úr eða fram hjá kyrrstæðum strætó og keyri á gangandi vegfarendur sem fara yfir götuna á sama tíma.
Vel má vera að hægt sé að ná svipuðum áhrifum með mismunandi útfærslum, en aðalmálið er samt að tilgangur breytinga á stöðum sem þessum hlýtur alltaf að vera að bæta upplifun og öryggi þeir sem labba eða hjóla frekar en að stuðla að því að akandi vegfarendur geti komist tafarlaust og án truflunar í gegnum þéttbýl íbúahverfi.
Höfundur situr í 2. sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík.