Í síðasta mánuði var kynnt skýrsla sem Talnakönnun gerði fyrir Samtök sparifjáreigenda um kjör forstjóra og bónuskerfi þeirra sem verður sífellt blómlegra og ævintýralegra. Höfundar voru þau Katrín Ólafsdóttir lektor í vinnumarkaðshagfræði við HR og Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur og síðasti fjármálaráðherrann sem leitaðist við að halda í skefjum ofsalaunum ríkisforstjóra.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að tíu launahæstu forstjórarnir á almennum markaði eru með sjö milljónir á mánuði. Algeng mánaðarlaun eru fjórar milljónir; forstjóri með tvær milljónir á mánuði er algjör minnipokamaður. Forstjóri Hörpu, sem hefur verið mjög í fréttum að undanförnu út af sínum kjörum – hún er láglaunaforstjóri.
Það verður að teljast vafamál að þessi launakjör endurspegli síaukna verðmætasköpun téðra einstaklinga, enda er hér iðulega um að ræða fyrirtæki sem endurreist voru eftir hrun fyrir fé almennings úr bönkum og lífeyrissjóðum.
Það er slæmt fyrir samfélagið í heild að misskipting sé þar fram úr hófi, samkennd hverfur, innviðir fúna, tortryggni eykst, gagnkvæm andúð tekur við af samhjálp, múrar eru reistir, í lífsháttum og menningu, og svo bókstaflega eins og þar sem verst gegnir. Brauðmolakenningin er ekki bara siðferðislega ámælisverð heldur hefur hún aldrei staðist próf veruleikans.
Forstjórastéttin talar af fyrirlitningu um höfrungahlaup þegar vinnandi fólk vill fá sanngjörn laun fyrir vinnu sína eða reynir að knýja fram betri almenn lífskjör. Sjálfir virðast forstjórarnir telja sig í einhverju allt öðru landi – kannski aflandinu góða – þar sem þeir séu í sínu sérstaka feitufressahlaupi. Það er ekki svo. Launakjör forstjóranna hafa áhrif á kröfugerð annarra stétta – að sjálfsögðu. Hví skyldi kennarinn og hjúkrunarfræðingurinn, smiðurinn og flugvirkinn ekki mæla framlag sitt til samfélagsins við framlag forstjórans? Það eru forstjórarnir sem eru höfrungarnir, þeir knýja áfram launakapphlaupið með launakröfum sínum.