Fjölskyldugerðir eru margskonar og má þar meðal annars nefna kjarnafjölskyldur, einstæða foreldra, stjúpfjölskyldur eða fósturfjölskyldur. Að tilheyra fjölskyldu getur þýtt að þú hafir fjölbreytilegar skyldur en sumir eru svo heppnir að eiga börn og aðrir eiga ömmur og afa eða aldraða foreldra. Stundum eru nánustu vinir einnig ígildi fjölskyldu. Við fögnum margbreytilegum fjölskyldugerðum í borgarsamfélagi nútímans.
Kerfi sem léttir undir
Við getum gefið okkur það að öll viljum við fjölskyldum okkar og vinum vel en í hröðu samfélag nútímans, vinnuálags og áreitis er bakið ekki alltaf nógu breitt til að sinna öllu sem við myndum helst vilja gera. Því verðum við einnig að geta treyst á opinbert kerfi og þær lögformlegu skyldur sem kerfinu ber að sinna. Kerfi sem grípur okkur þegar við þurfum á að halda, kerfi sem léttir undir með fjölskyldunni og jafnvel styður við okkur til að geta sinnt þessum ólíku störfum og skyldum sem við höfum öll, mismiklar og misþungar eftir aldursskeiðum.
Aukum stuðninginn
Við í Samfylkingunni viljum auka enn frekar stuðning við fjölskyldur og sérstaklega fjölskyldur í vanda þannig að við komum til móts við fólkið í borginni á öllum aldursskeiðum. Það yrði gert meðal annars með því bjóða upp á fjölskyldumeðferðir og börnum upp á sálfræðiþjónustu. Þá þykir okkur mikilvægt að efla stuðning við börn í námserfiðleikum ásamt því að efla stuðning við börn með raskanir eða fatlanir og fjölskyldur þeirra. Þar ætlum við að bjóða upp á þjónustu þverfaglegra teyma og stuðningsaðila. Með því móti eiga börn að geta notið styrkleika sinna í skóla, frístunda- eða tómstundastarfi og fjölskyldurnar fá stuðning til að auka líkur á að svo verði.
Menningar- og heilsukort
Reykjavík er aldursvæn borg og hefur Samfylkingin unnið ötullega að málefnum aldraðra í samvinnu við öldrunarráð. Þar leggjum við til að borgarbúar fái boð, þegar þeir hafa náð 70 ára aldri, um heilsueflandi heimsókn þar sem menningar- og heilsukort borgarinnar er kynnt ásamt því starfi sem er í boði fyrir eldri borgara í hverfinu þeirra. Við leggjum einnig til að allir íbúar 70 ára og eldri fái heimsókn frá starfsfólki félagsþjónustunnar þar sem farið er yfir öryggisþætti heimilisins með tilliti til forvarna.
Þá ætlum við einnig að koma á fót álíka korti fyrir fatlað fólk í Reykjavík, sem veitir gjaldfrjálsan aðgang að bókasöfnum og öðrum söfnum á vegum borgarinnar, sem og í sundlaugar. Fatlað fólk mun einnig fá boð um heilsueflandi heimsókn þar sem kortið er kynnt og farið er yfir hvað er í boði í nærumhverfinu sem tengist kortinu. Með þessum kynningum og heimsóknum þar sem boðið er upp á leiðbeiningar og aðstoð erum við mögulega að létta á álaginu hjá fjölskyldum og aðstandendum.
Aðgengilegri þjónusta
Þjónusta og sjálfsafgreiðsla á vegum borgarinnar á að verða aðgengileg öllum á netinu þegar unnt er og þá eiga borgarbúar að geta leitað til þjónustumiðstöðva eða þjónustuvers borgarinnar til að fá aðstoð eða leiðbeiningar vegna sjálfsafgreiðslu. Við stefnum á að bæta aðgengi að öllu húsnæði þar sem þjónusta Reykjavíkurborgar.
Vinna gegn fátækt
Við ætlum að vinna gegn fátækt í borginni en Samfylkingin mun ekki leggja til skilyrta fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð til framfærslu er neyðaraðstoð þar sem við leggjum áherslu á að fólki sé mætt með vinsemd og virðingu. Þá skal stuðningurinn til þeirra sem fá fjárhagsaðstoð miðaður að valdeflingu einstaklingsins og fjölskyldunnar. Stuðningur við sálfélagslega þætti er mikilvægur og við munum leggja áherslu á stuðning til að komast út úr erfiðum aðstæðum.
Við viljum að borgarkerfið – hvort sem um er að ræða þjónustu, skipulag eða samgöngur – sé gert til að mæta þörfum fólksins í borginni og að fjölskyldur finni til þess að hægt sé að leita eftir stuðningi og aðstoð hjá Reykjavíkurborg við þau margvíslegu verkefni og skyldur sem mæta þeim á ólíkum aldursskeiðum lífsins.
Áfram Reykjavík fyrir allar fjölskyldur!
Ellen Calmon skipar 10. sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík til borgarstjórnarkosninga