Sameinuðu þjóðirnar fylgjast grannt með ástandinu í Palestínu. Til er skýrsla – satt að segja sláandi lesning – gefin út af Sameinuðu þjóðunum í júlí 2017. Hún ber yfirskriftina: „Gaza tíu árum síðar.“ Útgefandi er Landsteymi Sameinuðu þjóðanna fyrir hernumdu svæðin í Palestínu. Undir inngang skýrslunnar skrifar Robert Piper, sem af hálfu Sameinuðu þjóðanna sér um samræmda mannúðaraðstoð og þróunarsamvinnu á hernumdu svæðunum í Palestínu.
Eftirfarandi umfjöllun byggir alfarið á efni framangreindrar skýrslu. Hvatinn að greininni, hér og nú, er ástandið á Gaza, á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem. Einnig sú mikla umræða sem orðið hefur í samfélaginu eftir að framlag Ísraels sigraði Eurovision um liðna helgi, auk áskorunar tugþúsunda Íslendinga til RÚV í framhaldinu.
Í seinni tíð hefur Ísraelsher reist háa múra sem skipta Palestínu upp í fjölmarga hluta. Ferðalög eru takmörkuð milli þessara hluta. Einn hlutinn hefur þó sérstöðu að ýmsu leyti: Gazasvæðið, sem er á stærð við sveitarfélagið Reykjavík auk helmings af Mosfellsbæ. Efni þessarar greinar afmarkast eingöngu við umfjöllun skýrslu SÞ um Gazasvæðið, þær aðstæður sem íbúar þess búa við og Sameinuðu þjóðirnar hafa skráð. Hér er ekkert fjallað um Vesturbakkann eða Austur-Jerúsalem, þó ærið tilefni sé til.
Mengað vatn skammtað
Eina vatnsból Gaza er á strandsvæðinu. Aðstæður og brýn þörf fyrir vatn hafa leitt til þess að meira af grunnvatni hefur verið dælt úr vatnsbólinu en náttúruleg hringrás þolir. Vatnið er þó skammtað til íbúa á 2–4 daga fresti, 8 klst. í senn.
Um árabil hafa 4,5 milljónir lítra af óhreinsuðu skolpi flætt á hverri klukkustund í sjóinn með fram allri Gazaströndinni. Frá árinu 2012 hefur magnið farið stigvaxandi. Skolpmengaður sjór rennur nú ofan í grunnvatnskerfið.
Tvær milljónir manna hafa eingöngu mengað vatn til heimilisnota í dag. Það er brimsalt því meiri hluti þess er skolpmengaður sjór.
Vatnsbólið spillist
Sameinuðu þjóðirnar telja að árið 2020 verði svo komið að náttúrulegt gangverk vatnsbólsins spillist með óafturkræfum hætti. Þá verður ekki hægt að snúa þróuninni við og vatnsbólið verður mengað um alla framtíð. Ekki einn einasti íbúi Gazasvæðisins í Palestínu mun hafa aðgang að drykkjarhæfu rennandi vatni árið 2020.
Mögulegt er að kaupa innflutt vatn í flöskum. Hverjir eru kaupendur vatnsins? 40% íbúa Gaza lifa undir fátæktarmörkum SÞ, atvinnuleysi er 42% en allt að 60% hjá ungu fólki og 64% hjá konum.
Rafmagn er skammtað
Rafmagnsleysi varir allt að 20 stundum á dag og innan við helmingi af daglegri raforkuþörf samfélagsins er mætt. Slíkt rafmagnsleysi hefur grundvallaráhrif á lífsskilyrði fólks, kælingu á mat og drykk, þvott á fatnaði, aðgang að samskiptamiðlum, loftkælingu á sumrin, o.s.frv. Aðstæður hafa farið versnandi. Í inngangi skýrslu SÞ kemur fram að augljósustu áhrifin á versnandi lífskjör á Gaza eru af völdum rafmagnsskorts. 11 ára börn á Gaza hafa aldrei upplifað að rafmagn væri á heimilum þeirra í meira en 12 klukkustundir, ekki einn einasta dag.
Fólk innlyksa í herkví
Síðustu 11 árin, frá sumrinu 2007, hefur tveimur milljónum manna á Gazasvæðinu í Palestínu verið haldið í herkví. Með herkví er átt við að her loki fólk inni. Ísraelsher stýrir loftrýminu, hafsvæðinu og mörkum á landi. Gazaflugvelli var lokað árið 2000, tveimur árum eftir að byggingu hans var lokið.
Fjórar hliðar eru á herkvínni á Gazasvæðinu í Palestínu. Ýmislegt vekur athygli í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, ekki síst afleiðingar af herkví Ísraelshers.
Vesturhliðin – strandlengjan að Miðjarðarhafi
Mikilvægasti nytjastofninn við strendur Gaza eru sardínur. Í nóvember 2012 takmarkaði Ísraelsher fiskveiðisvæðið við sex mílur frá strandlengjunni. Það þýðir að veiðar eru afmarkaðar við viðkvæmar uppvaxtarstöðvar sardínunnar – sem við strönd Gaza er jafnframt mengaðasti hluti hafsins. Á fiskveiðisvæðinu framfylgir Ísraelsher ýmsum takmörkunum og bönnum. Sjómenn hafa verið handteknir; skotvopnum og sprengjum beitt. Fiskibátar hafa verið gerðir upptækir, skemmdir eða þeim sökkt ásamt búnaði.
Suðurhliðin og Egyptaland
Á suðurhlið Gaza eru landamærin að Egyptalandi. Eina hliðið þar, Rafah, hefur verið lokað að mestu frá 2014 vegna óstöðugleika á Sínaískaga.
Austurhliðin – langhliðin sem liggur að Ísrael
Fjórum hliðum á austurhlið Gaza hefur verið lokað. Hið síðasta var Sufa sem var lokað í apríl 2011. Síðan eru liðin sjö ár. Landbúnaðarsvæði eru flest á austurhlið Gaza. Ísraelsher ruddi 7.600 hekturum í burtu með fram austurhlið Gaza árið 2007, alls 35% ræktarlands á Gaza. Tilgangurinn var að búa til 100−500 metra breitt bannsvæði sem teygir sig út að gaddavírsgirðingu hersins. Girðingin hafði þá staðið í rúman áratug. Öryggissvæðið nær allt að 1.000 metra til viðbótar inn í ræktarlöndin.
Gaddavírsgirðingin með varðturnum liggur með fram endilangri austurhlið Gaza. Út á bannsvæðið má enginn fara – heldur ekki bændurnir sem yrkja akrana þar nærri. Breidd bannsvæðisins hefur tekið sífelldum breytingum á liðnum árum án þess að íbúar séu alltaf upplýstir um það eða átti sig á því. Þannig hafa 389 þeirra sem fóru inn á bannsvæðið sl. 10 ár, m.a. bændur, verið skotin til bana af ísraelskum hersveitum. Þar á meðal eru 60 börn. Inni á breytilegu bannsvæðinu hafa enn fleiri slasast og særst á sama tímabili eða 2.829 manns, þar af 401 barn. Tölurnar miðast við útgáfutíma skýrslunnar og eru væntanlega enn hærri í dag.
Norðurhliðin – að Ísrael
Einungis eitt hlið, Erez, er opið á múrnum sem er á norðurenda Gaza. Þetta er eina leiðin inn og út af Gaza. Íbúarnir mega ekki ferðast út úr herkvínni nema undir ströngum skilyrðum. Síðustu 25 árin hefur þurft ferðaleyfi frá ísraelskum stjórnvöldum til að komast út af Gazasvæðinu. Ferðir takmarkast í raun við starfsfólk alþjóðlegra stofnana, sjúklinga og fólk í viðskiptaerindum. Vöruflutningur er takmarkaður á sama hátt. Útflutningur frá Gaza er 20% af því sem var fyrir árið 2007.
Jafngildir hóprefsingu
Efnahagslífið á Gaza er í lamasessi, grunnþjónusta er veikburða, lífskjör hafa stöðugt versnað og 1,2 milljónir íbúa þurfa á neyðar- og mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna að halda.
Svo vitnað sé beint til orða skýrslu Sameinuðu þjóðanna stríða margar af þeim aðgerðum sem Ísraelsher hefur staðið fyrir gegn alþjóðalögum. Tveimur milljónum manna er í raun refsað – óháð ábyrgð – sem jafngildir hóprefsingu sem er bönnuð samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum. Herkvíin hefur haft alvarleg áhrif á mannréttindi íbúa Gaza, sérstaklega ferðafrelsi en jafnframt á efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi – auk þess að grafa undan lífskjörum fólks.
Tvö og hálft ár eru til ársins 2020 – þar til Gaza verður ólífvænlegt að mati Sameinuðu þjóðanna.
ALLAR framangreindar upplýsingar byggja á skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá júlí 2017. Þar er staðfest spá Sameinuðu þjóðanna um ólífvænlegt Gazasvæði árið 2020, en hún var fyrst sett fram í skýrslu SÞ árið 2012.
Höfundur er formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.