Eitt af því sem sem hefur komið mér mest á óvart við kosningabaráttuna er hversu ótrúlega fátækleg umræðan um skipulagsmál en þó sérstaklega samgöngumál hefur verið. Hversu yfirborsðkenndum nótum hún hefur verið. Sjálfstæðisflokkurinn og ótal fylgihnettir hans á hægrijaðri pólítíska litrófsins hafa keppst við að fordæma borgarlínuna og skipulagsstefnu meirihlutans: Það sé of dýrt og tímafrekt að þétta byggð eða leggja borgarlínu. Þetta sé allt „framtíðarmússík“. Í staðinn eigi að rjúka í byggingu nýrra úthverfa og leggja nýjar hraðbrautir og greiða götu verktaka með því að „ryðja burt hindrunum“.
Allt eru þetta hins vegar skammtímalausnir: Meira verktakaræði, meira af hraðbrautum og mislægum gatnamótum, meira af malbiki.
Meira af því sem sama sem við höfum verið að gera síðustu áratugi. Þessar „lausnir“ gera ekkert til að taka á langtímavandamálunum sem við stöndum frammi fyrir. Bæði vaxandi umferð og lengri ferðatímar, og það sem er alvarlegra: aukinni mengun. Stöðugt meira af landi sem fer undir hraðbrautir og umferðarmannvirki. Það þarf bara að horfa til Bandaríkjanna til að sjá hverskonar ógöngum borgir lenda í þegar þær eru byggðar eftir þessari forskrift.
Langtímahugsun í samgöngumálum
Andstæðingar borgarlínunnar og þéttingar byggðar hafa ekki sett fram raunverulega framtíðarsýn fyrir skipulagsmál borginnar. Þess í stað boða þeir að við höldum áfram á sömu braut og gefa í.
Að vísu virðast sumir átta sig á því að það sé vondur málstaður að verja að vera á móti almenningssamgöngum. Því lofa þeir í öðru orðinu að efla Strætó. Það er hins vegar skrýtið að stilla borgarlínu og Strætó upp sem valkostum: Borgarlínan er einfaldlega sýn á það hvernig við byggjum upp öflugar almenningssamgöngur til langs tíma.
Borgarlínan, þ.e. kerfi séragreina fyrir hraðvagna sem geta flutt fólk hratt og örugglega á milli hverfa er hryggjarstykki framtíðar almenningssamgangnakerfisins: Hún tekur við hlutverki strætisvagnanna sem í dag keyra fólk úr úthverfunum niður í bæ. Fólki mun áfram fjölga á höfuðborgarsvæðinu og það munu bætast við ný úthverfi á næstu 20, 30 og 40 árum. Við þurfum að hanna samgöngukerfi borgarinnar í samræmi við það og sjá til þess að íbúar þessara hverfa hafi raunhæfa valkosti í samgöngum. Öll umferðarmódel sýna að gatnakerfi borgarinnar myndi ella ekki bera alla þá auknu umferð, en líka vegna þess að við getum ekki reiknað með því að allir sem flytjast í þessi hverfi muni vilja eða geta átt bíl. Það hefur t.d. verið byggt mikið af stúdentaíbúðum í Úlfarsárdal. Ungt fólk vill geta valið hraðar vistvænar samgöngur.
Langtímahugsun í skipulagsmálum
Borgarlína, er ein forsenda þess að við getum þétt byggð í Reykjavík. Reykjavík er strjálbýl borg sem er hönnuð út frá því að fólk fari nánast allra ferða akandi. Fyrir vikið neyðast flestir til að eiga bíl, sem er bæði dýrt og mengandi.
Þétting byggðar gengur út á að hverfa af þessari braut, hanna sjálfbær hverfi þar sem þjónusta og menning er í göngufæri og stutt er í almenningssamgöngur. Borg sem er byggð til að mæta þörfum fólks, ekki bíla. Þessi sýn á þróun borgarinnar er ekki bara fallegri en hraðbrauta- og úthverfaborgin sem andstæðingar þéttingar byggðar og borgarlínu sjá fyrir sér, heldur er hún beinlínis lífsnauðsynleg. Framtíð jarðarinnar er í húfi.
Fyrir okkur ungt fólk skiptir máli hvernig borgin mun líta út eftir 20, 30 eða 40 ár. Við viljum ekki skammtímalausnir og meira af því sama, úthverfaborg með hraðbrautum og malbiki. Ég mun beita mér fyrir annarskonar langtímasýn: Borg þar sem fólk býr í sjálfbærum hverfum þar sem þjónusta er í göngufæri og vistvænar samgöngur eru raunverulegur valkostur.
Höfundur skipar 4 sæti á framboðslista Vinstri grænna fyrir borgarstjórnarkosningarnar.