Amma mín og nafna fetaði síðustu árin sín veg sem mörg okkar kvíða, braut heilabilunar og minnistaps. Hún greindist með Alzheimer sjúkdóminn og fengum við fjölskyldan þar með innsýn notenda félags- og heilbrigðisþjónustu sem við höfðum áður kynnst sem starfsfólk, pabbi sem læknir, mamma sem hjúkrunarfræðingur og ég sem sjúkraþjálfari.
Forvarnir þar til lækning finnst
Nýlega bárust fréttir af því að Íslendingar muni leika lykilhlutverk í rannsókn á nýju lyfi við Alzheimer. Því miður hafa læknavísindin enn ekki komist mikið lengra en svo að halda í horfinu þegar þessi sjúkdómur er annars vegar, en vonandi horfir þar til batnaðar. Þangað til verðum við að hafa aðgang að öllum þeim forvörnum sem hugsast geta til að stemma stigu við framgangi einkenna. Meðal þess sem þar um ræðir er heilsueflandi líkamsþjálfun og dagleg virkni í starfi og leik. Með þetta fyrir augum gekkst ég fyrir því á síðasta ári að Hafnarfjörður gengi til samninga við dr. Janus Guðlaugsson um heilsueflingu eldri borgara, sem ég er þakklát fyrir að hafa séð verða að veruleika.
Sjálfstæð búseta í kunnuglegu umhverfi
Eitt af því sem hjálpar fólki með heilabilun er að lifa og hrærast í kunnuglegu umhverfi. Allt rask á einkahögum getur valdið tímabundinni versnun einkenna og aukið áhættu á fylgikvillum. Því er mikilvægt að styðja eldra fólk til sjálfstæðrar búsetu, meðal annars með því að létta á gjöldum vegna húsnæðis. Því er ég stolt af þeirri verulegu lækkun fasteignaskatta til elli- og örorkulífeyrisþega sem orðin er að veruleika í Hafnarfirði og er með því besta sem gerist. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut.
Félagsleg virkni og samvera
Öflugt starf félags eldri borgara er mikilvæg auðlind í hverju sveitarfélagi og það hefur verið frábært að fylgjast með eflingu þess með hverju árinu sem líður. Í raun er það lúxusvandi að félagsstarfið skuli sífellt sprengja af sér húsnæði, það er bara jákvætt að sjá það stækka. Ég er þess líka fullviss að áðurnefnd heilsurækt sem 160 eldri Hafnfirðingar stunda þessi misserin mun styðja við félagsleg tengsl, enda hittast þátttakendur oft í viku á ólíkum vettvangi. Þessu vil ég vinna að áfram.
Heimaþjónusta
Hækkandi aldri fylgir oft þörf fyrir aðstoð í daglegu lífi. Félagsleg heimaþjónusta og heimahjúkrun þarf að starfa vel saman. Mér finnst að félagsþjónustan eigi að halda utan um einstaklingana í þessu tilliti í nánu samstarfi við heimahjúkrun þegar svo ber undir. Á kjörtímabilinu höfum við í fjölskylduráði átt gott samstarf við Öldungaráð Hafnarfjarðar við stefnumótun í þessum málaflokki. Þjónustuþarfir eldri borgara breytast samfara hækkandi aldri þjóðarinnar og við verðum að fylgja vel eftir hvað aðstoðina varðar.
Vinnuvikan okkar allra
Samfélagið er allt of oft á hraðspóli og lítill tími til samveru. Þessu þurfum við öll að breyta með samstilltu átaki. Bættar samgöngur, styttri vinnudagur og lifandi bæjarmynd eru allt þættir sem efla daglega samveru fjölskyldna. Aldraðir sem glíma við minnistap þurfa mjög á sínum nánustu að halda og kynslóðirnar græða án efa á auknum samskiptum. Fólk sem hefur kynnst Alzheimer veit hvað tíminn skiptir miklu máli, bæði að nota hann vel til að skapa minningar saman og að þjónusta sé til staðar til að létta undir með fjölskyldunum.
Dagþjálfun minnissjúkra
Í Hafnarfirði starfrækja Alzheimer-samtökin með miklum sóma dagþjálfun í Drafnarhúsi. Bærinn mun áfram styðja við það starf. Ég vil sjá aðra slíka einingu verða að veruleika í bænum eins fljótt og unnt er, en alltof margir bíða eftir þessu úrræði. Sólvangur gengur nú í gegnum endurnýjun lífdaga og að mínu mati kæmi vel til greina að staðsetja viðbótareiningu í gamla húsinu, gjarnan í samstarfi við Alzheimer-samtökin.
Hjúkrunarrými
Meginmarkmið samfélagsins ætti að vera að tryggja eins og unnt er sjálfstæða búsetu með góðum stuðningi í kunnuglegu umhverfi, enda hefur hún forvarnargildi þegar heilabilun er annars vegar. Hins vegar verður alltaf til staðar þörf fyrir hjúkrunarrými, sem brýnt er að mæta. Nýbygging á Sólvangsreit verður tekin í notkun í haust og þá skapast færi á því að endurgera gamla húsið að hluta og ná þannig allt að 33 viðbótarrýmum við þau 60 sem opna í haust. Ég hef tekið virkan þátt í samtali við þá þrjá heilbrigðisráðherra sem starfað hafa á kjörtímabilinu með það í huga að ná samkomulagi um endurbætur á gamla Sólvangi. Nýjustu fréttir úr þeim viðræðum lofa góðu og við verðum að halda áfram að þrýsta á um að þessi viðbót verði að veruleika.
Lífsgæðasetur í St. Jósefsspítala
Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í glímu Hafnarfjarðarbæjar við ríkið um framtíðarnýtingu húsnæðis St. Jósefsspítala, svo ekki sé meira sagt. Henni lauk loks með því að bærinn keypti húsið og lét vinna tillögur að nýtingu í nánu samráði við bæjarbúa. Nýlega var ráðinn verkefnisstjóri til hússins, til að framfylgja áætlunum um stofnun lífsgæðaseturs innan veggja þess og auglýst hefur verið eftir áhugasömum rekstraraðilum. Starfsemin mun tengjast heilsu og sköpun af ýmsu tagi og hillir nú loks undir að Hafnfirðingar geti aftur lagt leið sína í þetta fallega og góða hús til að rækta sál og líkama.
Ömmur eru gull
Amma mín kenndi mér svo ótalmargt um lífið og tilveruna. Hjá henni æfði ég mig að prjóna og sögur frá fyrri tíð runnu niður með smurðu brauði við undirleik útvarpsins. Synir mínir eiga yndislega afa og ömmur sem halda vel utan um þá og okkur öll. Ég vil gjarnan leggja mitt af mörkum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar áfram til að stuðla að því að samvera kynslóðanna styrkist. Að fjölskyldur geti notið sín sem börn, foreldrar, ömmur og afar og að stuðningur þegar á bjátar sé til staðar. Og þegar fram líða stundir og minn heili bilar kannski, vil ég að við séum komin lengra í forvörnum og stuðningi.
Ég er stolt af þeim framförum í þjónustu við eldri borgara sem ég hef fengið að taka þátt í undanfarin fjögur ár sem bæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs og býð mig fram til að halda áfram að gera gott betra.
Höfundur er oddviti Bæjarlistans Hafnarfirði.