Umræða um náttúru- og umhverfisvernd virðist oft á tíðum staðna við flokkun sorps. Þó flokkun sé góðra gjalda verða, þá er hún hreinlega ekki nóg, við þurfum líka að ráðast að rót vandans, hinu kapítalíska ofneyslusamfélagi. Hún er löngu þekkt fullyrðingin að ótakmarkaður hagvöxtur sé ómögulegur á takmarkaðri jörð. Þó mætta halda að hið gagnstæða sé undirstaða neysluhegðunar í vestrænum samfélögum.
Ef Reykjavík á að verða græn þurfum við að fara í margþættar og róttækar aðgerðir, bæði til þess að minnka kolefnisfótsporið en einnig til að draga úr sóun og tryggja að við spillum ekki umhverfinu á annan hátt með mengun og gjörnýtingu auðlinda.
Við þurfum að tryggja að öllum borgarbúum sé mögulegt að taka upp vistvæna samgöngumáta. Gera þarf fólki kleift að lifa bíllausum eða bíllitlum lífstíl, m.a. með uppbyggingu borgarlínu og með því að byggja upp hjólastíga, en við þurfum einnig að tryggja að þeir sem kjósa bílinn geti gert það á umhverfisvænan hátt með því að tryggja að allir borgarbúar hafi aðgang að rafhleðslu, bæði í nýrri byggð og í grónum hverfum.
Grænir valkostir
En mikilvægast er samt að vinda ofan af einnotahugsun og draga úr óumhverfisvænni neyslu og rækta með okkur sjálfum hugsunarhátt endurnýtingar og endurvinnslu. Og hér getur borgin stutt við bakið á borgarbúum.
Við þurfum að styðja við verkefni sem auka möguleika borgarbúa á því að tileinka sér ný neyslumynstur. Matjurtargarðar Reykjavíkurborgar eru gott dæmi þetta og það er Góðir Hirðirinn einnig. Borgin getur stutt við frekari borgarlandbúnað og matjurtarækt, t.d. með því að nota þann mannauð sem er á umhverfisdeild borgarinnar til ráðgjafarþjónustu við borgarbúa sem vilja stunda matjurtarækt í grenndargörðum eða í eigin görðum. Við þurfum að fjölga grenndargörðum og jafnvel nýta affallsvatn frá stórum byggingum í eigu borgarinnar til þess að hita upp gróðurhús.
Fræðsla um uppruna matvæla og möguleiki á að taka þátt í henni eykur virðingu okkar fyrir afurðum jarðarinnar og kennir fólki að gera réttmætar kröfur um gæði þeirra, að ljóta grænmetið sem ratar ekki í búðir er nákvæmlega jafn gott og hollt og það fallega.
Borgin gæti líka komið að rekstri á aðstöðu að fyrirmynd Restart, þar sem sjálfboðaliðar með þekkingu á raf- og rafeindatækjum aðstoða fólk við að gera við minni raftæki. Það er ótrúlegt hversu auðvelt það er að gera við marga hluti sem við annars hendum.
Græn lífsgæði
Það virðist þó oft vera eins og það að leggja til nýtni leggist illa í fólk. Svona eins og að með því að vera nýtin þá séum við að takmarka líf okkar, gera það óáhugavert og litlaust. En hið gagnstæða er satt. Með nýtni hættum að vera undir hælnum á kapítalískri neyslumenningu sem rekur okkur til að kaupa og kaupa, neyta og neyta, sóa og sóa. Við hægjum á, finnum nautn í því að skapa sjálf, elda kartöflur sem við settum sjálf niður og gera við hlutina þegar þeir bila. Við komumst aftur í snertingu við það hvernig hlutirnir verða til og hvernig þeir virka.
René Biasone, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og skipar 5 sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar
Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, fulltrúi VG í Stjórnkerfis og lýðræðisráði og skipar 6 sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar.