Launamunur kynjanna er lífseigt mein og ekki hjálpar til sú tilhneiging að í stað þess að ræða um muninn í heildarlaunum milli kynja er einatt talað um „leiðréttan mun“, en þá er búið að taka tillit til alls konar þátta, svo sem starfs, vinnutíma, starfsreynslu og menntunar, sem eru þegar nánar er að gáð flestir tengdir hlutverkum kynjanna. Þar skiptir mestu að vinnumarkaðurinn á Íslandi er mjög kynbundinn. Karlar eru fjölmennari í framleiðslugreinunum, konurnar í þjónustunni, og innan hvers geira eru karlarnir almennt hærra settir í stiganum.
Þetta á sér sögulegar skýringar. Þegar konur fóru að vinna greidda vinnu stóðu þeim helst opin þau störf sem líta mátti á sem framlengingu á „náttúrulegu hlutverki“ þeirra, þ.e. umönnun, eldamennsku, þvotta og þrif. Ólíkt kvennastörfunum, sem konur áttu að hafa sérstaka meðfædda hæfni í, voru karlastörfin sem fylgdu iðnbyltingunni hins vegar alveg ný, svo sem iðngreinar ýmis konar, flóknari lækningar, lögfræði og önnur fræðimennska. Og eðlilega fæddust karlarnir ekki með þessa þekkingu heldur þurftu að tileinka sér hana. Og fyrir þann tíma og þá viðleitni þurfti – og þarf enn - að greiða alvöru laun, með aukaálagi vegna ábyrgðarinnar sem fylgir starfinu, áhættunni sem fylgir tækjunum, líkamlega álaginu og subbuskapnum. Við erum enn að kljást við arfleifðar þessara viðhorfa, enn í dag bera konur meginþungann af heimilisstörfum og umönnun niðja og ættingja og enn í dag er meistaragráða í ljósmóðurfræðum minna metin en kandídatspróf í lögfræði.
Tvöföld lítillækkun
Mat á störfum kynjanna er sum sé æði skakkt, eins og birtist líka svo skýrt í vandræðalegri kjaradeilu ríkisins við ljósmæður þessa daganna. Og þegar um er að ræða kvennastétt þá er alltaf um að ræða lítillækkandi skilaboð til tveggja hópa fólks: Annars vegar fær starfsfólkið sem störfin vinnur þau skilaboð að störf þeirra séu lítils metin. Hins vegar fær það fólk sem þjónustuna þarf, hvort sem um er að ræða aðstoð við fæðingu, vistun fyrir börnin eða umönnun sjúkra og aldraðra ættingja, þau skilaboð að hinu opinbera þyki það ekki nógu mikils virði til að tryggja framboð og gæði þjónustunnar.
Eitt skýrt dæmi á sveitarfélagsstiginu er sú síendurtekna pólitíska ákvörðun að forgangsraða öllum öðrum málum fram yfir dagvistunina. Lág laun og of fá stöðugildi leiða af sér að aðeins þriðjungur leikskólastarfsfólks er með leikskólakennaramenntun því þessi menntun er einfaldlega betur metin annars staðar á vinnumarkaði. Af þeim sem eftir eru hefur þar að auki meirihlutinn tekið að sér stjórnun deilda og skóla, svo launin nálgist laun annarra háskólamenntaðra sérfræðinga borgarinnar. Leikskólastarfinu er því haldið uppi af lágmarksfjölda ófaglærðs starfsfólks, sem ekki fær greidd laun í samræmi við álag í starfi, og fer því eðlilega annað um leið og tækifæri gefst. Þar með er viðvarandi mannekla á leikskólunum svo foreldrar þurfa bæði að sætta sig við að fá ekki pláss fyrren seint og um síðir og það að geta ekki treyst því að fá alltaf umsamda vistun. Auk reglubundinna starfsdaga þurfa foreldrar nefnilega alltaf að vera viðbúin því að þurfa að sækja snemma eða missa jafnvel úr heilu daganna vegna manneklu.
Útvistun ábyrgðar
Önnur pólitísk ákvörðun sem tekin hefur verið á hverju ári í Reykjavík er að bjóða út hin og þessi verkefni og hefur þeim fjölgað mjög á undanförnum tveimur áratugum. Að baki liggja hagkvæmnisjónarmið: Það er nefnilega ódýrara fyrir borgina að bjóða út til að mynda ræstingu húsnæðis borgarinnar heldur en að borgin reki sjálf ræstingardeild. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum fær sá aðili verkið sem býður lægst. Þar sem launakostnaðurinn er stærsti kostnaðarliðurinn í þjónustustörfum er besta leiðin fyrir verkseljanda til að fá verkið að greiða starfsfólki sínu lágmarkslaun, sérstaklega þegar um ófaglært starfsfólk er að ræða. Viðkomandi starfsfólk er þar með ekki ráðið beint af Reykjavíkurborg og þá er það ekki heldur borgarinnar að sjá til að réttindi starfsfólksins séu virt, að laun þeirra séu rétt reiknuð og greidd á réttum tíma o.s.frv. Borgin er stikk-frí.
Jafnréttisborgin Reykjavík
Við í Kvennahreyfingunni viljum að hjá Reykjavíkurborg sé allt fólk jafn mikils metið óháð kyni, uppruna og öðrum þáttum. Þess vegna viljum við:
- Hækka laun kvennastétta hjá borginni en einnig að minnka álag með fjölgun starfsfólks og styttri vinnuviku án þjónustuskerðingar.
- Huga að meiri fjölbreytni á leikskólastiginu: Dagvistun í Reykjavík er öll bundin við hinn hefðbundna skrifstofutíma á meðan margar stéttir vinna á vöktum. Það á enginn að þurfa að velja á milli þess að eignast barn eða að þiggja draumastarfið út af því klukkan hvað vinnudagurinn hefst. Við viljum því setja á fót leikskóla að danskri fyrirmynd sem er sérstaklega hannaður fyrir vaktavinnufólk.
- Endurskoða útvistunarstefnuna með kynjagleraugum: Hvaðan kemur hagkvæmnin í útvistuninni? Er útvistunin siðleg? Getur verið að betri niðurstaða fengist í heildina með því að færa viðkomandi verkefni, svo sem ræstinguna, aftur til borgarinnar?
Við erum nefnilega þess virði.
Höfundur skipar sjöunda sæti lista Kvennahreyfingarinnar í Reykjavík.