Það er útlit fyrir að það hægi á þeim ævintýralega vexti sem hefur einkennt síðustu ár í ferðaþjónustunni. Það er hins vegar deginum ljósara að ferðaþjónustan er orðin ein mikilvægasta útflutningsatvinnugrein okkar Íslendinga. Um leið er ferðaþjónustan orðin ein mikilvægasta atvinnugrein höfuðborgarsvæðisins.
Fjölgun ferðamanna hefur ekki aðeins auðgað mannlíf borgarinnar heldur hefur hún einnig skotið mikilvægum stoðum undir atvinnulífið. Þúsundir Reykvíkinga hafa atvinnu af ferðaþjónustu. Það er því brýnt að borgin móti sér mjög skýra sýn um hvernig hún vilji sjá ferðaþjónustuna þróast á komandi árum.
Ferðaþjónusta í sátt við íbúa og mannlíf
Mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að tryggja að ferðaþjónustan þróist í sátt við íbúa. Vöxtur hennar á aldrei að verða á kostnað félagsauðs hverfanna. Það er ekki bara náttúran sem laðar ferðamenn hingað heldur líka mannlífið og gestrisni heimamanna og það eru verðmæti sem við verðum að fara vel með.
Um það þarf að ríkja sátt og samstaða og því er mikilvægt að vera í nánu samstarfi við aðila ferðaþjónustunnar og íbúa borgarinnar.
Reykjavík byggi á styrkleikum sínum
Við Vinstri græn leggjum áherslu á að borgin byggi á styrkleikum sínum í markaðssetningu svo ferðaþjónustan í borginni fái að blómstra. Áhersla á menningu og menningartengda starfsemi,fjölbreytt mannlíf og einstaka náttúrufegurð Reykjavíkur eiga að vera í forgrunni en líka þarf að móta stefnu og leggja áherslu á umhverfisvæna ferðaþjónustu.
Við þurfum að lyfta sögunni meira upp í borgarlandinu. Ekki bara með upplýsingaskiltum heldur með sögusýningum og viðhaldi gamalla húsa. Söfn borgarinnar ættu líka að bjóða upp á námskeið fyrir borgarleiðsögumenn í sögu borgarinnar. Slíkt samstarf milli safna og Reykjavíkurborgar annars vegar og leiðsögumanna hins vegar er öllum til góða og myndi auðga upplifun ferðamanna af borginni.
Reykjavík á sérstaklega að styðja við bakið á hinsegin og femínískri ferðaþjónustu og vinna með ferðaþjónustufyrirtækjum að markaðssetningu borgarinnar sem viðkomustaðar fyrir hinsegin ferðamenn. Til þess þarf borgin bæði að gera hinsegin menningu og listum hærra undir höfði, ekki aðeins í tengslum við Gleðigönguna og hinsegin daga heldur allt árið um kring.
Reykjavíkur-gullhringur
Reykjavík er eitt fegursta bæjarstæði landsins. Fjallasýnin, eyjarnar og útsýnið á sundin, Esjan, Elliðaárnar, Rauðhólar og Heiðmörk. Við eigum að standa vörð um þessi náttúrugæði og um leið gera þau aðgengilegri bæði fyrir íbúa og ferðamenn. Hér stendur ferðaþjónustan frammi fyrir svipuðum vandamálum og víða um land: Það vantar betri göngustíga, upplýsingaskilti, útsýnisskífur og almenningsklósett.
Reykjavíkurborg þarf að móta sér stefnu um útivistarsvæði borgarinnar sem tekur mið af vexti ferðaþjónustunnar. Við Vinstri græn höfum talað fyrir því að svæðum sem njóta verndar innan borgarinnar verði fjölgað og þau tengd saman í borgargarð sem teygir sig frá heiðum til sunda. Friðun Akureyjar, stækkun verndarsvæðisins í Elliðaárdal og samstarf við nágrannasveitarfélögin um tengingu við Bláfjallafólkvang og Reykjanesfólkvang gæti orðið grunnur fyrir öfluga umhverfisvæna ferðaþjónustu í borginni. Um leið þurfum við að sjá til þess að ferðamenn geti notað almenningssamgöngur til að njóta útivistar innan borgarinnar.
Samvinna við ferðaþjónustuna
Framtíðarvöxtur ferðaþjónustunnar þarf að byggjast á fjölbreytileika, sjálfbærni og samráði. Við Vinstri græn ætlum að leggjum áherslu á þessi atriði því þannig náum við markmiðum um öfluga ferðaþjónustu sem styður ekki aðeins áfram við atvinnulíf borgarinnar heldur heldur auðgar fjölbreytta menningu og mannlíf borgarinnar.
Höfundar eru á framboðslista Vinstri grænna fyrir borgarstjórnarkosningarnar.