Í Mosfellsbæ er gott að búa, stórkostleg náttúra og gott fólk. Leikskólarnir eru til fyrirmyndar, íþróttafólkið okkar stendur sig vel, félagsleg forvarnar- vinna með börn og unglinga er öflug, hvort sem horft er til íþrótta, tónlistar, leiklistar eða annarra tómstunda.
Þegar rýnt er í málin kemur þó fljótt í ljós að þrátt fyrir allt það góða er margt sem þarf að laga. Á bak við glansmynd- ina er eru vandamál af þeirri stærðargráðu að ráðast þarf í meiriháttar breytingar á stjórnarháttum í Mosfellsbæ.
Íþróttamannvirki við Varmá
Á íbúafundi Aftureldingar um íþróttamál í Hlégarði 15. maí kom skýrt fram að málum er lítt fylgt eftir og vinnu- brögð ómarkviss og ófagleg hjá bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ. Þrátt fyrir að framkvæmdastjóri og yfirstjórn Aftureldingar hafi ítrekað fundað með bæjarstjóra og embættismönnum var upplýsingum um slæmt ástand íþrótta- mannvirkja við Varmá ekki miðlað áfram til kjörinna full- trúa. Þetta er auðvitað ólíðandi. Bæjarstjórnin getur ekki starfað markvisst, brugðist við og gripið til aðgerða ef set- ið er á upplýsingum. Öll málefni sem varða hagsmuni Mosfellinga og félaga sem starfa hér í þeirra þágu á að ræða opinskátt í nefndum og ráðum sveitarfélagsins. Það hefur sjaldan verið augljósara en á íbúafundi Aftureldingar hve upplýsingagjöf innan stjórnkerfis Mosfellsbæjar er ábóta- vant. Í þessu tilviki hefur fjárhagsleg afkoma Afturelding- ar skaðast og íþróttaiðkendur beðið heilsutjón á meðan beðið er eftir aðgerðum.
Skipulagsmál
Heildræn sýn í skipulagsmálum í samvinnu við íbúa í Mosfellsbæ er heldur ekki til staðar. Bæjarstjórnin tekur ekki skipulagsvald sitt alvarlega og leyfir breytingar á skipulagi lóð fyrir lóð. Byggingafélög fá leyfi til að byggja á ákveðnum svæðum og er síðan heimilað að breyta skipulaginu.
Uppbygging í miðbænum á milli nýja Bónuss og Fram- haldsskólans ber þess vitni en þar var gert ráð fyrir 52 í- búðum í upphaflegu deiliskipulagi en nú er verið að byggja 145 íbúðir á þeim reit. Í þessum miklu breytingum frá upphaflegu deiliskipulagi hefur ekki verið hugað að þörfinni fyrir aukið skólahúsnæði og ekki vitað hvar þau börn eigi að ganga í skóla sem þangað flytja. Það er ekki að ástæðulausu að Í-listinn vill heildræna sýn í skipulags- málum bæjarfélagsins. Hagsmunum allra Mosfellinga má ekki fórna fyrir sérhagsmuni eða skammtímagróða!
Félagslegt húsnæði
Í Mosfellsbæ eru 31 félagsleg íbúð í eigu sveitarfélagsins og hefur félagslegum íbúðum einungis fjölgað um eina frá 2002. Sveitarfélagið er því ekki að sinna samfélagslegri skyldu sinni hvað félagslegt húsnæði varðar. Þetta er ekki ásættanlegt. Hlutfallslega er fjöldi félagslegra íbúða í Mosfellsbæ miklu minni en í Reykjavík. Í Mosfellsbæ eru 325 manns um hverja félagslega íbúð en í Reykjavíkur eru það 50 manns. Það er vel þekkt að fólk flytjist úr bænum vegna húsnæðisskorts.
Í Mosfellsbæ eiga allir að geta búið og við eigum sem samfélag að sinna skyldum okkar við þá sem þurfa aðstoð við að koma sér upp heimili. Það er það minnsta sem við getum gert! Vöntun er einnig á húsnæði fyrir ungt og tekjulægra fólk en engin stefna hefur verið tekin í þessum mikilvæga málaflokki. Erlendis eru sveitarfélög að vinna markvisst í þessum málum með byggingu blandaðra hverfa. Þau leyfa jafnvel ekki byggingu svæða án þess að hluti þeirra séu leiguíbúðir, íbúðir fyrir tekjulægra fólk eða félagslegar íbúðir. Unnið er eftir skýrri framtíðarstefnu um framtíðaruppbyggingu svæða með það mark- miði að skapa gott samfélag fyrir alla.
Skólamál
Skólamálin eru í ólestri og eru mörg vandamál sem hafa þar áhrif á. Eitt af því sem er hvað alvarlegast er vaxandi kvíði og vanlíðan nemenda samkvæmt könnunum. Einelti er einnig stórt vandamál í sumum skólum sem við verðum að vera virk í að vinna gegn. Faglega aðstoð vantar einnig fyrir börn með fjölþætt vandamál, þar á meðal hegðunar- vandamál.
Starfsumhverfi kennara er einnig ábótavant. Varmárskóli sem var þekktur fyrir að vera einn af bestu skólum landsins hefur misst frá sér fjölda kennara. Einn þeirra hafði fengið verðlaun fyrir að vera besti kennari landsins á sínu sviði. Í-listinn telur að taka þurfi á vandamálum fræðslu- og skólamála með festu, styrkja grunnstarfið og gera raunsæja framtíðarstefnu sem tekur mið af áskorunum nútímasamfélags og fjölgun íbúa í Mosfellsbæ. Forgangs- atriði er að starfsumhverfi barna okkar og kennara sé til fyrirmyndar svo faglegt starf fyrir öll börn geti farið þar fram.
Stjórnsýsla
Mörg önnur dæmi væri hægt að nefna hér máli okkar til stuðnings en lykilatriðið er að einkenni markvissrar stjórn- sýslu eru fagmennska, góð upplýsingagjöf og gegnsæi. Við í Íbúahreyfingunni og Pírötum viljum ráða ópólitískan bæjarstjóra á næsta kjörtímabili sem tengir starfsmenn bæjarins og kjörna fulltrúa á faglegan hátt svo stjórnkerfi Mosfellsbæjar þjóni íbúum betur. Markmiðið er að tryggja að hagsmunir og velferð Mosfellinga séu höfð að leiðar- ljósi í allri stjórnsýslu. Upplýsingum sé miðlað og reglum framfylgt svo kjörnir fulltrúar nái að sinna hlutverki sínu gagnvart íbúum sveitarfélagsins. Við þurfum að taka á vandamálum með festu og heiðarleika og þurfum að gæta fagmennsku í hvívetna.
Höfundur er í 2. sæti á Í-lista Íbúahreyfingarinnar og Pírata.