Þegar mannkynssagan er lesin, þarf ekki mikla gleggni til að sjá að konur eru þar oft og gjarnan víðs fjarri eða eins og segir í kvæðinu „kvenmannslaus í kulda og trekki kúrir saga vor...“. Lesendur hugsa þá sumir, eðlilega - konur þurfa náttúrulega að hafa gert eitthvað merkilegt til að komast á hin svokölluðu spjöld sögunnar! Við getum svo rökrætt endalaust um hvað er merkilegt og hvað ekki? Hvers saga á að vera sögð og hvers ekki? Hvaða sjónarmið ráða ferðinni þegar sögubækur eru skrifaðar? Allt eru þetta sjálfsagðar spurningar – en samt ekki svo algengar. Það sem hins vegar liggur fyrir er að konur hafa verið skrifaðar útúr sögunni, að því er virðist kerfisbundið. Allt frá sjókonum á Íslandi til listakvenna í Flórens. Frá vinnuframlagi bændakvenna til uppgötvana vísindakvenna. Frá stríðskonum til fræðikvenna. Ef nemendur lesa ekki um konur í sögubókum, þá komum við ekki bara í veg fyrir að stúlkur fái fyrirmyndir í bókum og geti speglað sig í sögunni heldur sendum við skilaboð til allra kynja að karlar skipti meira máli en konur og ölum þannig á kvenfyrirlitningu.
Í gegnum tíðina hafa konur átt stuðningsfólk af öllum kynjum í baráttu sinni fyrir jafnrétti. Hér er öllu því fólki þakkað. Það verður þó að segjast eins og er að þungi baráttunnar hefur hvílt á herðum kvenna sjálfra. Stjórnmálaflokkar hafa komið og farið, flestir með femínískar áherslur í dag en enginn hefur haft það að skilyrðislausu leiðarljósi að efla hag kvenna í öllum sínum störfum – að undanskildum kvennaframboðum. Konur hafa í gegnum alla söguna, verið gerendur í eigin lífi, háð baráttu fyrir réttlæti, en staðið frammi fyrir stöðugu andstreymi við umhverfi sitt um viðurkenningu. Hvort sem það var rétturinn til náms eða embætta, kjörgengi eða kynfrelsis – öllu hefur þurft að berjast fyrir – ekkert hefur komið án baráttu. Enn er staðan sú að kynjajafnrétti hefur ekki verið náð. Enn þurfa konur að berjast fyrir mannréttindum sínum. Klámvæðing og kvenfyrirlitning er svo normalíseruð í okkar daglega lífi að fullyrða má að meiri áskorun er að vera 18 ára í dag en fyrir 30 árum. Þessari þróun þarf að snúa við. Við breytum ekki heiminum án aðkomu menntakerfisins. Jafnréttisvæðum skólakerfið.
Höfundur er í 4. Sæti á lista Kvennahreyfingarinnar.