Kvennahreyfingin var stofnuð í apríl síðastliðnum sem viðbrögð við því að hin hefðbundnu stjórnmálaöfl virtust ekki ætla að ræða jafnréttismál þrátt fyrir að samfélagið væri statt í miðri #metoo byltingu. Búið var að stilla kosningunum upp sem baráttu „tveggja turna“ (ég læt fallíska myndmálið liggja á milli hluta) og helsta málið átti að vera borgarlína (aftur...). Þetta fannst okkur ekki boðlegt og lítil huggun í því að allt stefndi í að konur yrðu í meirihluta í borgarstjórninni ef femínísk málefni áttu ekki að fá pláss.
Áhrifin létu ekki á sér standa. Sum stjórnmálaaflanna gáfu jafnréttismálunum sérlega mikla þyngd í málefnapökkum sínum, framboð með karlkyns oddvita gerðu efstu konum hátt undir höfði og greinum um jafnréttismál fór að rigna inn á fjölmiðlana. Vissulega voru jafnréttismál nú þegar á stefnuskrá sumra flokkanna en með tilvist okkar fengu þau meiri pláss. Frambjóðendur fóru jafnvel að skrifa greinar um mál sem ekki voru á stefnuskrá flokksins fyrir kosningarnar og þar með augljóslega ekki meðal atriða sem flokkurinn ætlaði að leggja áherslu á. Af þeim greinum þykir mér sérstaklega vænt um grein Hildar Björnsdóttur um launamun kynjanna og kvennastéttir sem birt var 10. maí. Umræðan breyttist og síðustu tvær vikurnar fyrir kosningarnar heyrðist nánast ekkert um borgarlínu en þeim mun meira um laun kvennastétta og leikskólamálin.
Nú eftir kosningarnar virðast tveir meirihlutar vera mögulegir: Annars vegar Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn, Miðflokkur og Flokkur Fólksins. Hins vegar Samfylking, VG, Sósíalistar, Píratar og Viðreisn. Sama hvor meirihlutinn verður myndaður þá er Viðreisn í oddastöðu og því með öll spil í hendi sér að fá sín stefnimál í gegn, þ.e. að laun kvennastétta verði hækkuð, börn fái leikskólavist frá 12 mánaða og að skóli og frístund verði sameinuð, sem allt yrðu mjög kærkomnar breytingar.
Kvennahreyfingin komst ekki inn í borgarstjórn en tókst megin ætlunarverkið: Að færa umræðuna yfir á jafnréttismálin. Nú er bara að vona að jafnréttismálin fái það vægi sem þau eiga skilið í meirihlutaviðræðunum og í áherslum nýrrar borgarstjórnar á næsta kjörtímabili. Borgarstjórnin þarf að bregðast merkjanlega við #metoo byltingunni, jafnréttisvæða skólakerfið í gegnum Jafnréttisskólann, fræða starfsfólk um kynjaða vinnustaðamenningu og stórhækka framlög til verkefna tengdum ofbeldi, þá sérstaklega Bjarkarhlíðar.
Við í Kvennahreyfingunni óskum öllum konum borgarstjórnar til hamingju með kjörið og munum fylgjast spenntar með afrekum þeirra. Þá sérstaklega Sönnu, sem tryggði sér sæti í borgarstjórn svo listilega síðastliðinn föstudag. Sjáumst í baráttunni.
Höfundur var í framboði fyrir Kvennahreyfinguna í borgarstjórnarkosningunum um helgina.