Alaskalúpína er falleg og áberandi jurt, hvort heldur græn, blá eða brún, og eykur fjölbreytni landsins að sjá hana hér og þar. En þegar óvíða verður hægt að horfa út um bílrúðu án þess að sjá lúpínu mun mörgum finnast of langt gengið – en þá verður allt of seint að hafa þar áhrif á.
Margir eru ánægðir með lúpínuna og benda á að hún muni á endanum hörfa. Jú, ekkert varir að eilífu, en þótt hún hörfi (verði gisnari) hér og þar er útbreiðslan margfalt örari og svo verður næstu áratugi og líklega í meira en öld. Útsýnið af vegum landsins verður einhæfara.
Má bjóða þér í útsýnisferð?
Förum nú bíltúr í sumarfríinu í júlí, þegar lúpínan er hvað mest áberandi, og virðum fyrir okkur landið. Hvar sjáum við lúpínu – og hvar ekki?
Þjóðvegur 1 austur fyrir fjall að Jökulsárlóni
Lúpína er um allt höfuðborgarsvæðið, en þó ekki þar sem slegið er – og ekki á malbiki. Hún er víða í Reykjavík og mikið af henni alveg austur fyrir Lögbergsbrekku. Svo er lítið um lúpínu austur að Bláfjallavegi, síðan strjálningur með fram svifflugvellinum, en stórar breiður við afleggjarann í Jósefsdal ( sáð ca. 2010).
Mjög lítið er í Svínahrauni og á Hellisheiði, frá Litlu kaffistofunni og niður Kamba.
Litlar breiður á stangli frá Kömbum að Selfossi.
Lítið í Flóanum nema austur undir Þjórsárbrú. Myndi kosta fáein dagsverk á ári að halda því svæði lúpínulausu sé gripið í taumana strax.
Lítið milli Þjórsár og Ytri-Rangár, enda vel gróið landbúnaðarsvæði. Svo er mikil lúpína á Rangárvöllum, milli Rangánna. Lítið með þjóðvegi 1 á Hvolsvelli og V-Landeyjum.
Mikið í A-Landeyjum, á Markarfljótsaurum og víðar. Lítið undir Eyjafjöllum þar til komið er að Skógum, en stórar lúpínubreiður sem varla sér útyfir með veginum um Skógasand og Sólheimasand austur fyrir Jökulsá. Mikil lúpína í Vík og geysimikil á Mýrdalssandi. Á þessum foksöndum hefur hún, ásamt melgresi, unnið mikið gagn við að hefta sandfok sem m.a. eyðilagði lakk á bílum.
Grasmóar og valllendi austan við Mýrdalssand og að Kúðafljóti hafa verið lúpínulausir en lúpína er nú að stinga sér víða niður þar. Væri enn hægt að stöðva. Talsverð lúpína við Þjóðveg 1 austan við brúna á Kúðafljót og strjálningur með þjóðvegi 1 um Eldhraun, greinilega nokkra ára gömul sáning. Þar hafa sjálfboðaliðar slitið upp síðustu ár, enda mikið í húfi því lúpínan á auðvelt með að leggja undir sig Eldhraunið (þó sumir meini annað).
Blessunarlega lítið er um lúpínu við Þjóðveg 1 á Síðu og alveg austur um Skeiðarársand sem er að gróa upp af sjálfsdáðum, m.a. með birki. Í Öræfum eru geysimiklar breiður við veginn, með eyðum þó.
Þeir sem aka um Suðurlandsundirlendið geta enn sem komið er hvílt augun frá því að sjá þessa áberandi jurt, en þeim hvíldarstöðum fer fækkandi.
Um Reykjanesskagann, anddyri Íslands
Mikið er af lúpínu með vegum milli Hafna og Sandgerðis en heldur minna við Garð. Mikið milli Garðs og Reykjanesbæjar.
Reykjanesbær er allur að klæðast lúpínu nema þar sem slegið er. Leiðin til Hafna er öll innrömmuð af lúpínu.
Sáð hefur verið lúpínu með mestöllum Grindavíkurvegi, þéttist hún ár frá ári og breiðist út í mosagróið hraunið. Lúpína er víða í Grindavík og allar götur að Ísólfsskála. Lúpínulaust er með Suðurstrandarveginum milli Ísólfsskála og Vogsósa. Mikið hefur verið grætt upp beggja vegna vegarins um Krýsuvíkurheiði – án þess að nota lúpínu. Mikil lúpína er við Vogsósa og með fram byggðinni í Selvogi, en lúpínulausir kaflar austur undir Þorlákshöfn. Við Þorlákshöfn er lúpína með öllum vegum en lítið við Eyrarbakka og að Selfossi, enda votlent.
Með Reykjanesbraut er lúpína nær samfellt frá Flugstöðinni austur fyrir Vogaafleggjara, sums staðar beggja vegna brautarinnar og jafnvel í miðjunni, hún breiðist víða út í lægðinni milli akbrautanna. Austan við Vogaafleggjara er nær lúpínulausir 3 km. Þá kemur 1 km (í dálítill lægð) með mikilli lúpínu beggja vegna brautar.
Þá tekur við svæði alveg frá Strandarheiði að Straumsvík með frekar lítilli lúpínu (þökk sé sérvitrum sjálfboðaliðum) nema talsvert í sumarbústaðahverfinu við Hvassahraun. Á þessum kafla hefur þó greinilega verið sáð á nokkrum blettum fyrir nokkrum árum.
Lúpínustöðum með Reykjanesbraut fjölgar ár frá ári og flestir stækka og þéttast.
Krýsuvíkurvegur milli Hafnarfjarðar og Suðurstrandarvegar.
Ef keyrt er frá Hafnarfirið til Krýsuvíkur er lúpína fyrir augum alla leið, ört vaxandi við Kleifarvatn.
Þar hefur verið sáð lúpínu fyrir tæpum áratug, allar götur frá Hafnarfirði um Vatnsskarð og með fram Kleifarvatni. Þá taka við u.þ.b. 2 km rétt suður fyrir Seltún án lúpínu, nema hvað miklu hefur verið sáð í Bleikhól, ekki síst baka til. Þar hafa Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd reynt að halda aftur að henni svo hún leggi ekki undir sig allan Bleikhóll (svo hann megi áfram bera réttnefni). Stefnir í að báðir höfðarnir við Kleifarvatn, þar sem margir stoppa, verði þaktir lúpínu, væri þó hægt að stöðva að hluta ef gripið verður strax inn í.
Við Krýsuvíkurbæinn og Krýsuvíkurskóla er mikil lúpína og hefur lengi verið. Vonandi kemst hún ekki upp með að leggja undir sig hið vinsæla hverasvæði við Seltún.
Vigdísarvallarvegur. Með fram honum sést engin lúpína lengur, en hún vex þó þar á fáeinum stöðum og sjá sjálfboðaliðar um að halda henni niðri, fara þar um 1-2 sinnum á ári. Erfiðasti staðurinn er við eina leiðina í Hrútagjá, en sést ennþá lítið frá veginum.
Allur Vigdísarvallavegur og meirihluti Krýsuvíkurvegar er innan Reykjanesfólkvangs. Stjórn fólkvangsins ályktaði fyrir 3 árum að engin lúpína skuli vera á því friðaða svæði sem fólkvangurinn er, en sú ósk er óraunhæf. Þó er hægt að halda þar stórum svæðum lúpínulausum með árlegri vöktun.
Skjótumst til Akureyrar
Lúpína blasir við hvar sem maður er staddur í Mosfellsbæ, allt upp í Esjuhlíðar við Mógilsá, ásamt Skógarkerfli. Nokkuð er um lúpínu við Akrafjall og mjög stór svæði undir Hafnarfjalli. Þó minna er nálgast Borgarnes. Lúpína af og til með stuttu millibili frá Borgarnesi að Bröttubrekku, víða mikið.
Engin lúpína sjáanleg með Þjóðvegi 1 alveg frá vegamótum Bröttubrekku og Norður í Hrútafjörð - ekki einu sinni í miklum skógræktarsvæðum í Norðurárdal.
Lítið er um lúpínu með þjóðvegi 1 í Húnavantssýslum og Skagafirði. Við Silfrastaði og upp í Norðurárdal er nær samfelld skógrækt í hlíðinni með þjóðvegi 1 á um 8 km kafla en enga lúpínu að sjá þar. Lítið af henni með þjóðvegi 1 í Öxnadal og Hörgárdal og kringum Akureyri. Talsvert í Svarfaðardal og mikið á áraurunum í Skíðadal og ógnar þar víðáttumiklum breiðum af eyrarrós.
Með fáfarnari vegum
Mikið er um lúpínu á utanverðum Skaga. Enn meira í Fljótum og Siglufirði.
Lítið á Ströndum nema helst kringum Hólmavík þar sem berjaland nærst bænum eyðist.
Lítið í Dölum, Saurbæ og kringum Króksfjarðarnes og á Þröskuldaleiðinni.
Hún er að eyðileggja öll berjalönd í Patreksfirði og einhver hefur plantað henni með fram veginum í Vattarfirði þar sem hún mun eyðileggja mikil og góð berjalönd.
Sé ekið frá Bíldudal yfir Hálfdán (fjallveg í ca 3oo metra hæð) og til Tálknafjarðar er engin lúpína með fram vegarköntum (sem er orðið fátítt hér á landi). Engin lúpína er á Dynjandisheiði. en í Önundarfirði og þar fyrir norðan eru víða lúpínubreiður.
Í Vestmannaeyjum er mikið um lúpínu á Heimaey, ekki síst í Eldhrauninu og kringum Helgafell.
Lúpínu er víða að finna við fjölfarna staði á hálendinu. Til dæmis sleit fólk á göngu á Gamla-Kjalvegi upp talsvert af lúpínu við Þverbrekknamúla í fyrra. Landverðir og sjálfboðaliðar leggja hart að sér að halda aftur af útbreiðslu lúpínu á náttúruperlum landsins.
Horfum fram á veginn
Alaskalúpína er falleg planta og gagnleg á réttum stöðum og í hófi. En hún er stórvaxin og gríðar áberandi, stelur athyglinni jafnvel þótt hún klæði ekki allt landið sem fyrir augu ber. Hún yfirskyggir og eyðir lágvöxnum gróðri sem fyrir henni verður.
Ef keyrt er frá Flugstöðinni gegnum höfuðborgarsvæðið og austur í Jökulsárlón hefur fólk nú þegar lúpínu fyrir augunum u.þ.b. hálfa leiðina! Á eftir að aukast mjög mikið verði ekkert að gert.
Þeim svæðum með fjölförnum þjóðvegum þar sem enn er lítið um lúpínu er hægt að halda hreinum með vöktun og vinnu á hverju ári og réttu skipulagi. Verkefnið tvöfaldast á hverju ári sem ekkert er aðhafst. Það er til mikils að vinna því útbreiðsla lúpínu á Íslandi er rétt að byrja. Hún þekur nú þegar nærri 0,5% af landinu öllu, ef marka má kortlagningu Náttúrufræðistofnunar.
Það verða með hverju árinu sem líður forréttindi að geta horft út um bílrúðu og sjá eitthvað annað en þessa einu áberandi jurt, alaskalúpínu.
Vegagerðin hefur hin síðari ár lagt sig í líma við að ganga snyrtilega frá vegaframkvæmdum og víða gert fallega áningarstaði til að auka ánægju og upplifun þeirra sem um vegina fara. Nú vaknar sú spurning hvort þeirri ágætu stofnun renni ekki líka blóðið til skyldunnar að vernda náttúrufegurð með vegum landsins, þó ekki væri nema á veghelgunarsvæðum og við helstu áningarstaði.
Höfundur er líffræðingur og náttúruunnandi.