Stundum hefur hjúkrun verið líkt við hjarta heilbrigðisþjónustunnar. Það er nærtæk samlíking, nú þegar Landspítali hefur kunngert að bráðaþjónusta Hjartagáttar flytjist á bráðadeild í Fossvogi í 4 vikur í sumar vegna manneklu í hjúkrun.
Mannekla í hjúkrun er alvarlegt vandamál
Opnum sjúkrarýmum á Landspítala fækkar stöðugt, einkum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Um mánaðarmótin maí-júní 2018 voru 49 sjúkrarými lokuð og eiga þá sumarlokanir eftir að koma til framkvæmda. Nýliðun hjúkrunarfræðinga á Landspítala hefur ekki haldið í við aukna eftirspurn eftir starfskröftum þeirra. Án hjúkrunarfræðinga getur Landspítali ekki sinnt hlutverki þjóðarsjúkrahúss sem þarf að geta brugðist við bráðatilfellum frá öllu landinu allan sólarhringinn, allan ársins hring.
6. júlí til 3. ágúst mun Hjartagátt Landspítala loka og bráðadeild í Fossvogi taka yfir þá þjónustu. Hjartagátt er sérhæfð bráðaþjónusta fyrir hjartasjúklinga. Bráðadeildin í Fossvogi er þegar yfirfull og staðsett fjær annarri sérhæfðri þjónustu við hjartasjúklinga á Hringbraut.
Þessar ráðstafanir vegna manneklu í hjúkrun eru þó aðeins eitt einkenni víðtækara ástands sem skapar áhættu fyrir notendur heilbrigðiskerfisins. Viðvarandi álag og undirmönnun hefur áhrif á líðan og starfsþrek og eykur hættu á kulnun, mistökum og brottfalli úr starfi. Þennan vítahring getur reynst erfitt að rjúfa.
Hjúkrun skiptir máli
Hjúkrunarfræðingar eru fjölmennasta heilbrigðisstéttin sem sinnir störfum sínum af fagmennsku, ávallt með sjúklinginn og öryggi hans í öndvegi. Nálgun hjúkrunarfræðinga er heildræn, þeir starfa náið með sjúklingum og aðstandendum þeirra. Hjúkrunarfræðingar hafa góða menntun og þjálfun til að veita fjölbreytilegum samfélagshópum framúrskarandi þjónustu við misjafnar aðstæður. Þá annast hjúkrunarfræðingar kennslu heilbrigðisstarfsfólks og nema auk þess að leiða margvísleg gæða- og umbótaverkefni.
Rannsóknir hafa sýnt fram á fylgni milli mönnunar hjúkrunarfræðinga og afdrifa sjúklinga. Fækkun hjúkrunarfræðinga leiðir af sér aukna áhættu fyrir sjúklinginn. Þar sem mönnun hjúkrunarfræðinga er ábótavant eykst dánartíðni og endurinnlagnir verða tíðari.
Hjúkrunarfræðingar á Landspítala vilja veita góða og árangurríka hjúkrun. Stjórnendur Landspítala og annað starfsfólk hefur lagt mikla vinnu í að bæta starfsumhverfi og aðstæður hjúkrunarfræðinga en betur má ef duga skal.
Landspítali þarf að vera samkeppnisfær við aðra atvinnurekendur sem kunna að meta færni hjúkrunarfræðinga. Stjórnvöld á Íslandi hafa lýst því yfir að þau vilji standa með heilbrigðiskerfinu. Nú er brýnt að þau standi við orð sín og geri það sem í þeirra valdi stendur til að bæta stöðu hjúkrunar á Landspítala.
Svo að hjartað megi áfram slá.
Höfundar eru formaður og varaformaður hjúkrunarráðs Landspítala.
Ályktun stjórnar hjúkrunarráðs um mönnunarvanda hjúkrunar á Landspítala og áhrif á öryggi sjúklinga frá 15. júní:
Hjúkrunarráð Landspítala lýsir yfir þungum áhyggjum af skorti á hjúkrunarfræðingum og þeim margvíslegum afleiðingum sem hann hefur í för með sér!
Opnum sjúkrarúmum á Landspítala fækkar stöðugt og hefur það víðtæk áhrif, einkum á öryggi sjúklinga og þjónustu. Um mánaðarmótin, maí-júní voru til að mynda 49 sjúkrarými lokuð á Landspítala vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.
Í sumar verður m.a. gripið til þeirra ráðstafanna að loka einu sérhæfðu bráðamóttöku landsins fyrir hjartasjúklinga, í fjórar vikur, og verður starfsemin flutt í Fossvog. Ástæðan er skortur á hjúkrunarfræðingum.
Öryggi sjúklinga er ógnað þegar skortur er á hjúkrunarfræðingum.
Rannsóknir hafa sýnt að fylgni er milli mönnunar hjúkrunarfræðinga og afdrifa sjúklinga. Þar sem mönnun er ábótavant eykst tíðni endurinnlagna sem og dánartíðni sjúklinga.
Viðvarandi álag og undirmönnun hefur áhrif á líðan og starfsþrek hjúkrunarfræðinga og eykur hættu á kulnun, mistökum og brottfalli úr starfi.
Stjórnendur Landspítala og annað starfsfólk hefur lagt mikla vinnu í að bæta starfsumhverfi og aðstæður hjúkrunarfræðinga en betur má ef duga skal.
Landspítali þarf að vera samkeppnisfær við aðra atvinnurekendur sem kunna að meta færni hjúkrunarfræðinga.
Stjórnvöld á Íslandi hafa lýst því yfir að þau vilji standa með heilbrigðiskerfinu, nú er tími til að standa við yfirlýsingarnar. Án hjúkrunar er ekkert heilbrigðiskerfi.
Hjúkrunarráð Landspítala vill brýna við ráðamenn til að standa við orð sín og gera allt það sem í þeirra valdi stendur til að bæta stöðu hjúkrunar á Landspítala!
Hjúkrun skiptir máli fyrir okkur öll.