Messi Ísland

Þegar Celine Dion drap staðalímyndir og Ísland sigraði besta leikmann í heimi

Íslenska landsliðið er gott í fótbolta, kvikmyndagerðarmenn geta varið víti frá snillingum, leigubílstjórar með áferð leigumorðingja geta búið yfir mýkri hlið, Moskva er stórkostleg og Rússar eru bæði vinalegir og hamingjusamir. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans fór á HM.

Öll mín mynd af Rúss­landi hafði lit­ast af bíó­myndum og erlendum fréttum í vest­rænum fjöl­miðl­um. Ég ímynd­aði mér glund­roða, gráma, fábreytni, Löd­ur, her­menn á hverju horni, olig­arka í pelsum með kór­ónur að naga gull­stangir á víða­vangi og alþýðu að líða sýni­legan skort.

Þegar ég steig út af alþjóða­flug­vell­inum í Moskvu skömmu eftir mið­nætti á föstu­dag þá sýnd­ist mér að ég myndi fá þessa for­dóma að ein­hverju leyti stað­festa. Reyndar var raun­veru­legur bíll límdur á hlið á lit­ríkt aug­lýs­inga­spjald beint við inn­gang­inn, eins og hann væri að keyra upp vegg­inn, sem gaf til kynna að alþjóða­væð­ingin og fjöl­breytnin væri dýpri en maður ætl­aði. En úti, í bar­átt­unni um sam­göngu­tæki, gilti frum­skóg­ar­lög­mál­ið. Hinir hæf­ustu myndu lifa af. Eða, þið vit­ið, kom­ast frá flug­vell­inum inn í Moskvu.

Hinn grimmi Ingvar E.

Við reynd­umst hæfir að lok­um. Að minnsta kosti nægi­lega hæfir til að ná að tryggja okkur leigu­bíl. Til að halda áfram opin­berun for­dóma þá var ég með ákveðna fyr­ir­fram­gefna hug­mynd að allir Rússar væru útgáfa af Rúss­anum sem Ingvar E. Sig­urðs­son lék í aga­legu kaf­báta­mynd­inni hér um árið.

Og þannig var leigu­bíl­stjór­inn okk­ar. Grimmur á svip­inn, stórir upp­hand­leggsvöðvar, harðir kjálkar, her­manna­klipp­ing og of þröngur póló­bol­ur. Einu sam­skiptin þurftu að eiga sér stað í gegnum app sem þýddi rúss­nesku yfir á ensku og gengu samt frekar illa. Okkar maður var ítrekað að reyna að öskra heim­il­is­fangið á hót­el­inu inn í skjá milli sæt­anna með litlum árangri, og til að bæta gráu ofan á svart var slys á hrað­braut­inni sem tafði ferð­ina af flug­vell­inum umtals­vert. Já, og það var mið nótt. Þannig að ég var búinn að sleggja mann­inn algjör­lega og fékk nett kvíða­kast í hvert skipti sem við keyrðum fram hjá skóg­lendi sem gæti hentað til að drepa okkur far­þeg­ana hljóð­lega og án mik­illar fyr­ir­hafn­ar.

Ingvar E. Sigurðsson er lengst til vinstri á myndinni. Sem er stilla úr K-19: The Widowmaker.
Mynd: Skjáskot

Eftir að heim­il­is­fangið komst til skila róað­ist Ingvar E. aðeins og hækk­aði í Monte Carlo FM, sem hlýtur að vera besta útvarps­stöð í alheimi. Nær allir leigu­bíl­stjórar og Úber-ar spil­uðu nær ekk­ert annað en þessa lof­dýrkun til tón­listar tíunda ára­tug­ar­ins. Monte Carlo FM ætti að vera hljóðrás lífs allra.

Eftir um klukku­tíma­keyrslu gerð­ist það sem átti eftir að breyta allri ferð­inni og allri okkar skynjun á Rúss­landi og Rúss­um. Hinir mjúku og epísku tónar í „My Heart Will Go On“ heyrðust, Ingvar E. hækk­aði örlít­ið, snéri sér að okk­ur, brosti, gaf okkur þumal og sagði: „Celine Dion!“.

Vel­komnir til Moskvu árs­ins 2018.

„Sta­lín dó 1953“

Við búum auð­vitað á merki­legum tím­um. Alþjóð­lega er hvítt eig­in­lega orðið svart. For­seti Banda­ríkj­anna er far­inn að tala miklu hlý­legra um menn eins og Pútín, Duterte og Kim Jong Un – sem eru allir stað­festir raðmann­rétt­inda­brjótar – á sama tíma og hann ræðst harka­lega á helstu sögu­legu banda­menn þjóð­ar­innar sam­hliða því að hann reynir sitt besta til að brjóta niður þau kerfi sem hafa tryggt frið og aukna vel­megun í stórum hluta heims­ins frá lokum seinna stríðs. Á slíkum tímum er HM sem haldið er í landi sem maður veit lítið um frá­bær áminn­ing um um það sem hægt er að gera til að tengja heim­inn sam­an.

Moskva eins og hún birt­ist okkur gest­un­um, er hreint út sagt frá­bær borg. Fal­leg, sögu­leg, vel skipu­lögð og hefur upp á allt að bjóða sem aðrar stór­borgir Evr­ópu hafa. Fólkið sem ég hitti virk­aði jákvætt, nokkuð frjáls­lynt, ánægt, ofsa­lega vina­legt og með mikla þjón­ustu­lund. Í fimm tíma göngutúr um borg­ina með gæd­inum Vikt­or­íu, sem fædd­ist hálfu ári áður en Sov­ét­ríkin féllu, fengum við góða inn­sýn inn í rúss­neskt fæð­ing­ar­or­lof, cras­h-kúrs í hús­næð­is­mark­að­inum í Moskvu, frelsið sem fylgir því að geta ferð­ast og að sjá hold­gerv­ingu þess sem alþjóða­væð­ingin skiptir marga Rússa þegar hún fór með okkur á fyrsta McDon­alds-­stað­inn sem opn­aði í Moskvu. Hann er eins og safn og inni á honum eru myndir af rúm­lega fimm kíló­metra löngu röð­inni sem var fyrir utan hann fyrstu vik­urnar og mán­uð­ina eftir að hann opn­aði. Íbú­arnir vildu bragða frelsið í formi ham­borg­ara. Vikt­oría átti æskuminn­ingar úr þessari röð.

Þegar ferða­fé­lagi minn sagði henni að sú mynd sem við fáum af Rúss­landi í fréttum sé að landið sé nokk­urs konar ein­ræði þá nán­ast hló hún og sagði rólega: „Sta­lín dó 1953.“ Þar með var það afgreitt.

Það þarf nýtt nara­tív

En þessi pist­ill fjallar um fót­bolta. Í þeim bresku hlað­vörpum sem eru að fjalla dag­lega um HM þessa dag­anna gætir nokk­urs konar þreytu gagn­vart klisj­unum um Ísland. Og með réttu. Það þarf að finna nýtt nara­tív fyrir þetta lið. Sagan um fámenn­ustu þjóð­ina sem kom­ist hefur á loka­mót, að þjálf­ar­inn sé tóm­stunda­tann­lækn­ir, að leik­menn­irnir hafi ein­hvern tím­ann eða hafi núna venju­lega vinnu, hin óná­kvæma saga um að liðið sé „knatt­spyrnu­hall­ar­kyn­slóð­in“ (fæstir þeirra náðu að spila í íslensku höll­unum af ein­hverju marki) og að íslenska lands­liðið sé ein­hver Ösku­busku­saga heldur ekk­ert leng­ur. Íslenska lands­liðið er búið að vera það lengi í þessu partíi – eftir að hafa næstum kom­ist á HM 2014, unnið EM 2016 án þess að vinna það beint og unnið einn sterkasta Evr­ópurið­ill­inn til að kom­ast til Rúss­lands – að það má með réttu kalla þá fasta­gesti. Það er eig­in­lega van­virð­ing að vera alltaf að gefa í skyn að liðið sé með ein­hvers­konar súkkulað­i-­gestapassa. Íslenska lands­liðið er á HM vegna þess að þeir eru á meðal bestu fót­boltaliða í heimi. Punkt­ur.

Það er ótrú­legt að segja það upp­hátt, til að slá á enn eina ster­eótýpuna – þessa um að Rússar séu ófor­betr­an­legir drykkju­rútar – sem maður er með, en Rúss­unum tókst mjög vel að hemja alla drykkju á áfengi í aðdrag­anda leikj­anna. Það var ekk­ert til sölu í upp­hit­un­arpar­tí­inu hjá íslensku stuðn­ings­mönn­unum og Bud­weis­er­inn sem seldur var á vell­inum var kynntur sem alkó­hól­laus. Ég er reyndar ekk­ert viss um að það hafi verið alveg þannig. Þessir sjö sem ég drakk skildu að minnsta kosti eftir áferð áhrifa. En kannski var það bara blanda af tauga­á­fall­in­u/­geðs­hrær­ing­unni, sól­brun­anum og vökva­tap­inu sem frammi­staða liðs­ins og stemmn­ingin á vell­inum fram­kall­aði.

Til­búnir og yfir­veg­aðir

Í Frakk­landi fyrir tveimur árum þá skynj­aði maður að spennustigið var hátt. Að umfang við­burð­ar­ins – að vera að spila gegn Ron­aldo og Portú­gal á stór­móti – yxi ein­hverjum leik­mönnum í aug­um. Og þar vorum við heppn­ir. En sá leikur lagði grunn­inn að öllu hinu sem fylgdi.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, leiðir liðið inn á völlinn í Moskvu á laugardag.
Mynd: EPA

Nú var staðan önn­ur. Það sást strax á lið­inu í upp­hitun að þeir voru alveg ævin­týra­lega til­búnir í verk­efn­ið. Leik­menn­irnir voru afslapp­aðir og und­ir­bún­ir. Það sást lík­ast til best á atgervi Arons Ein­ars Gunn­ars­sonar fyr­ir­liða, sem er búinn að vera meiddur í sjö vikur og þótti tæpur að ná leikn­um, þegar hann var að gant­ast við mann í hjóla­stól sem hann var að keyra inn á völl­inn.

Úr stúkunni skynj­aði maður þetta. Minn hópur var búinn að vera dug­legur að vara Argent­ínu­menn­ina við að leik­ur­inn myndi fara 1-1 áður en bolta var spark­að. Það var bara skrifað í skýin ein­hvern veg­inn. Flestir þeirra hlógu góð­lát­lega. Þeir hættu því fljót­lega. Og urðu pirraðir þegar þeir voru minntir á það.

Hér er reyndar mik­il­vægt að nefna að FIFA tók okkur miða­lega, svo það sé orðað gróf­lega, í gat. Það voru örugg­lega 30 þús­und Argent­ínu­menn á leiknum en í mesta lagi fimm þús­und Íslend­ing­ar. Og þeim var dreift víða. Það blasir við að KSÍ þarf að krefj­ast almenni­legra skýr­inga á þessu og í raun óskilj­an­legt að sam­bandið hafi ekki gengið harðar fram við að útvega Íslend­ingum fleiri miða í ljósi þess að áhug­inn var þannig að að minnsta kosti helm­ingi fleiri hefðu verið til í að koma, en komust.

En að leikn­um. Hér er stað­reynd: Ísland er búið að spila sex leiki á loka­móti. Liðið hefur tapað ein­um. Hér er önnur stað­reynd: Af þeim fimm liðum sem oft­ast eru nefnd sem lík­leg­ustu heims­meist­arar (Þýska­land, Spánn, Brasil­ía, Argent­ína og Belgía) þá eru fjögur þegar búin að spila. Ekk­ert þeirra fjög­urra er með fleiri stig en Ísland eftir fyrsta leik.

Það var tvennt sem var feiki­lega ánægju­legt við leik íslenska liðs­ins. Í fyrsta lagi hversu nákvæm­lega það var búið að lesa leik Argent­ínu­manna og voru þar af leið­andi 100 pró­sent taktískt und­ir­bún­ir. Í öðru lagi að liðið var langt frá sínu besta sókn­ar­lega en átti samt hættu­legri færi en Argent­ína og á fullt inni fyrir næstu leiki.

Já, og kannski í þriðja lagi, til að hamra þann punkt inn, þá skein úr and­liti hvers ein­asta leik­manni liðs­ins að þeir áttu skilið að vera á þessum vett­vangi.

Paula Abdul og heims­meist­ara­tit­ill­inn

Þegar Lionel Messi fékk bolt­ann þá var hann eins afmæl­is­barn í miðju hrings­ins í leiknum „Í grænni laut­u“. Þar sem allir afmæl­is­gest­irnir sem mynd­uðu hring­inn í kringum hann voru 20 senti­metrum stærri en hann. Það tókst nán­ast full­kom­lega að stinga besta leik­manni heims, og mögu­lega sög­unn­ar, í rassvas­ann. Og þar með voru Argent­ínu­menn bit­laus­ir.

Hápunkt­arnir eru auð­vitað aug­ljós­ir: fyrsta mark Íslands á HM frá upp­hafi og sér­stak­lega fagnið hjá Alfreð Finn­boga­syni, sem lét eins og hann hefði aldrei gert annað en að skora mörk á þessu sviði, og svo auð­vitað „the hand of cod“ þegar Hannes át Leo. Fyrir aðdá­endur tæm­ing­ar­fót­bolta, þar sem liði tekst að drekka alla sókn­ar­orku úr and­stæð­ing­um, þá var þessi leikur líka að mörgu leyti ákveðin full­komn­un.

Það sem var líka ótrú­lega eft­ir­tekt­ar­vert í kjöl­far leiks­ins var hversu ein­beittir og afslapp­aðir allir leik­menn sem komu í við­töl voru. Þeir voru ekki búnir að toppa og þeir voru strax farnir að hugsa um næsta leik. Gylfi Sig­urðs­son var næstum pirr­aður yfir því hversu lítið liðið gerði sókn­ar­lega í síð­ari hálf­leikn­um, sem sýnir hver metn­að­ur­inn og trúin á eigin getu er mik­ill í þessu liði.

Ein af þremur Lödum sem greinarhöfundur sá í Moskvu.
Mynd: Þórður Snær Júlíusson

Það vinnur með Íslandi að það er langt í næsta leik. Hver dagur sem Aron Einar fær til að byggja upp form­ið, hver dagur sem gömlu mið­verð­irnir í lið­inu fá í hvíld, hver dagur sem grein­ing­arteymið fær til að kort­leggja Nígeríu og hver dagur sem Jóhann Berg fær til að reyna að jafna sig á meiðsl­unum skiptir öllu.

Þegar ég sat í Úbernum á leið­inni út á flug­völl og aftur heim í íslenskt vont veð­ur, með Monte Carlo FM að bjóða upp á Paulu Abdul frá níunda ára­tugnum sem má ekki rugla saman við Amer­ican Idol-­út­gáf­una, þá sat eftir að það eina sem við vitum fyrir víst er að þetta er rétt að byrja. Rús­sí­ban­inn á eftir að fara í marga hringi. Ekk­ert er ómögu­legt. Moskva er frá­bær og ég sá bara þrjár Lödur á fjórum dög­um. Og það eru alls ekk­ert úti­lokað að Ísland verði heims­meist­ari í fót­bolta.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit