Þegar Celine Dion drap staðalímyndir og Ísland sigraði besta leikmann í heimi
Íslenska landsliðið er gott í fótbolta, kvikmyndagerðarmenn geta varið víti frá snillingum, leigubílstjórar með áferð leigumorðingja geta búið yfir mýkri hlið, Moskva er stórkostleg og Rússar eru bæði vinalegir og hamingjusamir. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans fór á HM.
Öll mín mynd af Rússlandi hafði litast af bíómyndum og erlendum fréttum í vestrænum fjölmiðlum. Ég ímyndaði mér glundroða, gráma, fábreytni, Lödur, hermenn á hverju horni, oligarka í pelsum með kórónur að naga gullstangir á víðavangi og alþýðu að líða sýnilegan skort.
Þegar ég steig út af alþjóðaflugvellinum í Moskvu skömmu eftir miðnætti á föstudag þá sýndist mér að ég myndi fá þessa fordóma að einhverju leyti staðfesta. Reyndar var raunverulegur bíll límdur á hlið á litríkt auglýsingaspjald beint við innganginn, eins og hann væri að keyra upp vegginn, sem gaf til kynna að alþjóðavæðingin og fjölbreytnin væri dýpri en maður ætlaði. En úti, í baráttunni um samgöngutæki, gilti frumskógarlögmálið. Hinir hæfustu myndu lifa af. Eða, þið vitið, komast frá flugvellinum inn í Moskvu.
Hinn grimmi Ingvar E.
Við reyndumst hæfir að lokum. Að minnsta kosti nægilega hæfir til að ná að tryggja okkur leigubíl. Til að halda áfram opinberun fordóma þá var ég með ákveðna fyrirframgefna hugmynd að allir Rússar væru útgáfa af Rússanum sem Ingvar E. Sigurðsson lék í agalegu kafbátamyndinni hér um árið.
Og þannig var leigubílstjórinn okkar. Grimmur á svipinn, stórir upphandleggsvöðvar, harðir kjálkar, hermannaklipping og of þröngur pólóbolur. Einu samskiptin þurftu að eiga sér stað í gegnum app sem þýddi rússnesku yfir á ensku og gengu samt frekar illa. Okkar maður var ítrekað að reyna að öskra heimilisfangið á hótelinu inn í skjá milli sætanna með litlum árangri, og til að bæta gráu ofan á svart var slys á hraðbrautinni sem tafði ferðina af flugvellinum umtalsvert. Já, og það var mið nótt. Þannig að ég var búinn að sleggja manninn algjörlega og fékk nett kvíðakast í hvert skipti sem við keyrðum fram hjá skóglendi sem gæti hentað til að drepa okkur farþegana hljóðlega og án mikillar fyrirhafnar.
Eftir að heimilisfangið komst til skila róaðist Ingvar E. aðeins og hækkaði í Monte Carlo FM, sem hlýtur að vera besta útvarpsstöð í alheimi. Nær allir leigubílstjórar og Úber-ar spiluðu nær ekkert annað en þessa lofdýrkun til tónlistar tíunda áratugarins. Monte Carlo FM ætti að vera hljóðrás lífs allra.
Eftir um klukkutímakeyrslu gerðist það sem átti eftir að breyta allri ferðinni og allri okkar skynjun á Rússlandi og Rússum. Hinir mjúku og epísku tónar í „My Heart Will Go On“ heyrðust, Ingvar E. hækkaði örlítið, snéri sér að okkur, brosti, gaf okkur þumal og sagði: „Celine Dion!“.
Velkomnir til Moskvu ársins 2018.
„Stalín dó 1953“
Við búum auðvitað á merkilegum tímum. Alþjóðlega er hvítt eiginlega orðið svart. Forseti Bandaríkjanna er farinn að tala miklu hlýlegra um menn eins og Pútín, Duterte og Kim Jong Un – sem eru allir staðfestir raðmannréttindabrjótar – á sama tíma og hann ræðst harkalega á helstu sögulegu bandamenn þjóðarinnar samhliða því að hann reynir sitt besta til að brjóta niður þau kerfi sem hafa tryggt frið og aukna velmegun í stórum hluta heimsins frá lokum seinna stríðs. Á slíkum tímum er HM sem haldið er í landi sem maður veit lítið um frábær áminning um um það sem hægt er að gera til að tengja heiminn saman.
Moskva eins og hún birtist okkur gestunum, er hreint út sagt frábær borg. Falleg, söguleg, vel skipulögð og hefur upp á allt að bjóða sem aðrar stórborgir Evrópu hafa. Fólkið sem ég hitti virkaði jákvætt, nokkuð frjálslynt, ánægt, ofsalega vinalegt og með mikla þjónustulund. Í fimm tíma göngutúr um borgina með gædinum Viktoríu, sem fæddist hálfu ári áður en Sovétríkin féllu, fengum við góða innsýn inn í rússneskt fæðingarorlof, crash-kúrs í húsnæðismarkaðinum í Moskvu, frelsið sem fylgir því að geta ferðast og að sjá holdgervingu þess sem alþjóðavæðingin skiptir marga Rússa þegar hún fór með okkur á fyrsta McDonalds-staðinn sem opnaði í Moskvu. Hann er eins og safn og inni á honum eru myndir af rúmlega fimm kílómetra löngu röðinni sem var fyrir utan hann fyrstu vikurnar og mánuðina eftir að hann opnaði. Íbúarnir vildu bragða frelsið í formi hamborgara. Viktoría átti æskuminningar úr þessari röð.
Þegar ferðafélagi minn sagði henni að sú mynd sem við fáum af Rússlandi í fréttum sé að landið sé nokkurs konar einræði þá nánast hló hún og sagði rólega: „Stalín dó 1953.“ Þar með var það afgreitt.
Það þarf nýtt naratív
En þessi pistill fjallar um fótbolta. Í þeim bresku hlaðvörpum sem eru að fjalla daglega um HM þessa daganna gætir nokkurs konar þreytu gagnvart klisjunum um Ísland. Og með réttu. Það þarf að finna nýtt naratív fyrir þetta lið. Sagan um fámennustu þjóðina sem komist hefur á lokamót, að þjálfarinn sé tómstundatannlæknir, að leikmennirnir hafi einhvern tímann eða hafi núna venjulega vinnu, hin ónákvæma saga um að liðið sé „knattspyrnuhallarkynslóðin“ (fæstir þeirra náðu að spila í íslensku höllunum af einhverju marki) og að íslenska landsliðið sé einhver Öskubuskusaga heldur ekkert lengur. Íslenska landsliðið er búið að vera það lengi í þessu partíi – eftir að hafa næstum komist á HM 2014, unnið EM 2016 án þess að vinna það beint og unnið einn sterkasta Evrópuriðillinn til að komast til Rússlands – að það má með réttu kalla þá fastagesti. Það er eiginlega vanvirðing að vera alltaf að gefa í skyn að liðið sé með einhverskonar súkkulaði-gestapassa. Íslenska landsliðið er á HM vegna þess að þeir eru á meðal bestu fótboltaliða í heimi. Punktur.
Það er ótrúlegt að segja það upphátt, til að slá á enn eina stereótýpuna – þessa um að Rússar séu óforbetranlegir drykkjurútar – sem maður er með, en Rússunum tókst mjög vel að hemja alla drykkju á áfengi í aðdraganda leikjanna. Það var ekkert til sölu í upphitunarpartíinu hjá íslensku stuðningsmönnunum og Budweiserinn sem seldur var á vellinum var kynntur sem alkóhóllaus. Ég er reyndar ekkert viss um að það hafi verið alveg þannig. Þessir sjö sem ég drakk skildu að minnsta kosti eftir áferð áhrifa. En kannski var það bara blanda af taugaáfallinu/geðshræringunni, sólbrunanum og vökvatapinu sem frammistaða liðsins og stemmningin á vellinum framkallaði.
Tilbúnir og yfirvegaðir
Í Frakklandi fyrir tveimur árum þá skynjaði maður að spennustigið var hátt. Að umfang viðburðarins – að vera að spila gegn Ronaldo og Portúgal á stórmóti – yxi einhverjum leikmönnum í augum. Og þar vorum við heppnir. En sá leikur lagði grunninn að öllu hinu sem fylgdi.
Nú var staðan önnur. Það sást strax á liðinu í upphitun að þeir voru alveg ævintýralega tilbúnir í verkefnið. Leikmennirnir voru afslappaðir og undirbúnir. Það sást líkast til best á atgervi Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða, sem er búinn að vera meiddur í sjö vikur og þótti tæpur að ná leiknum, þegar hann var að gantast við mann í hjólastól sem hann var að keyra inn á völlinn.
Úr stúkunni skynjaði maður þetta. Minn hópur var búinn að vera duglegur að vara Argentínumennina við að leikurinn myndi fara 1-1 áður en bolta var sparkað. Það var bara skrifað í skýin einhvern veginn. Flestir þeirra hlógu góðlátlega. Þeir hættu því fljótlega. Og urðu pirraðir þegar þeir voru minntir á það.
Hér er reyndar mikilvægt að nefna að FIFA tók okkur miðalega, svo það sé orðað gróflega, í gat. Það voru örugglega 30 þúsund Argentínumenn á leiknum en í mesta lagi fimm þúsund Íslendingar. Og þeim var dreift víða. Það blasir við að KSÍ þarf að krefjast almennilegra skýringa á þessu og í raun óskiljanlegt að sambandið hafi ekki gengið harðar fram við að útvega Íslendingum fleiri miða í ljósi þess að áhuginn var þannig að að minnsta kosti helmingi fleiri hefðu verið til í að koma, en komust.
En að leiknum. Hér er staðreynd: Ísland er búið að spila sex leiki á lokamóti. Liðið hefur tapað einum. Hér er önnur staðreynd: Af þeim fimm liðum sem oftast eru nefnd sem líklegustu heimsmeistarar (Þýskaland, Spánn, Brasilía, Argentína og Belgía) þá eru fjögur þegar búin að spila. Ekkert þeirra fjögurra er með fleiri stig en Ísland eftir fyrsta leik.
Það var tvennt sem var feikilega ánægjulegt við leik íslenska liðsins. Í fyrsta lagi hversu nákvæmlega það var búið að lesa leik Argentínumanna og voru þar af leiðandi 100 prósent taktískt undirbúnir. Í öðru lagi að liðið var langt frá sínu besta sóknarlega en átti samt hættulegri færi en Argentína og á fullt inni fyrir næstu leiki.
Já, og kannski í þriðja lagi, til að hamra þann punkt inn, þá skein úr andliti hvers einasta leikmanni liðsins að þeir áttu skilið að vera á þessum vettvangi.
Paula Abdul og heimsmeistaratitillinn
Þegar Lionel Messi fékk boltann þá var hann eins afmælisbarn í miðju hringsins í leiknum „Í grænni lautu“. Þar sem allir afmælisgestirnir sem mynduðu hringinn í kringum hann voru 20 sentimetrum stærri en hann. Það tókst nánast fullkomlega að stinga besta leikmanni heims, og mögulega sögunnar, í rassvasann. Og þar með voru Argentínumenn bitlausir.
Hápunktarnir eru auðvitað augljósir: fyrsta mark Íslands á HM frá upphafi og sérstaklega fagnið hjá Alfreð Finnbogasyni, sem lét eins og hann hefði aldrei gert annað en að skora mörk á þessu sviði, og svo auðvitað „the hand of cod“ þegar Hannes át Leo. Fyrir aðdáendur tæmingarfótbolta, þar sem liði tekst að drekka alla sóknarorku úr andstæðingum, þá var þessi leikur líka að mörgu leyti ákveðin fullkomnun.
Það sem var líka ótrúlega eftirtektarvert í kjölfar leiksins var hversu einbeittir og afslappaðir allir leikmenn sem komu í viðtöl voru. Þeir voru ekki búnir að toppa og þeir voru strax farnir að hugsa um næsta leik. Gylfi Sigurðsson var næstum pirraður yfir því hversu lítið liðið gerði sóknarlega í síðari hálfleiknum, sem sýnir hver metnaðurinn og trúin á eigin getu er mikill í þessu liði.
Það vinnur með Íslandi að það er langt í næsta leik. Hver dagur sem Aron Einar fær til að byggja upp formið, hver dagur sem gömlu miðverðirnir í liðinu fá í hvíld, hver dagur sem greiningarteymið fær til að kortleggja Nígeríu og hver dagur sem Jóhann Berg fær til að reyna að jafna sig á meiðslunum skiptir öllu.
Þegar ég sat í Úbernum á leiðinni út á flugvöll og aftur heim í íslenskt vont veður, með Monte Carlo FM að bjóða upp á Paulu Abdul frá níunda áratugnum sem má ekki rugla saman við American Idol-útgáfuna, þá sat eftir að það eina sem við vitum fyrir víst er að þetta er rétt að byrja. Rússíbaninn á eftir að fara í marga hringi. Ekkert er ómögulegt. Moskva er frábær og ég sá bara þrjár Lödur á fjórum dögum. Og það eru alls ekkert útilokað að Ísland verði heimsmeistari í fótbolta.