Á síðastliðnum árum hafa stjórnvöld, að frumkvæði Nasdaq Iceland og annarra hagaðila, náð góðum árangri í að aðlaga innlenda löggjöf svo markaðir eins og Nasdaq First North geti betur þjónað hlutverki sínu, sem er að vera öflugur fjármögnunarvettvangur fyrir smærri fyrirtæki. Má þar helst nefna auknar heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta á Nasdaq First North og rýmkaðar undanþáguheimildir frá gerð lýsinga við almenn útboð (þ.e. hlutabréfaútboð til almennings).
Þrátt fyrir fjölgun fyrirtækja og ört vaxandi áhuga virðist Nasdaq First North engu að síður glíma við ákveðinn ímyndarvanda. Rangar staðhæfingar um markaðinn hafa verið endurteknar í sífellu og fyrir vikið öðlast sjálfstætt líf, sem einhverskonar „staðreyndir“. Telur undirritaður ástæðu til þess að staldra við og leiðrétta nokkrar þeirra.
Rangfærsla 1: „Markaðurinn er bara fyrir stór fyrirtæki“.
Staðreyndin er sú að markaðsvirði 41% þeirra fyrirtækja sem skráð voru á Nasdaq First North á Norðurlöndunum í lok ársins 2017 var undir 2 ma. kr. Markaðsvirði 29% þeirra var á bilinu 2 – 5 ma. kr. Einungis 13% þeirra var yfir 10 ma. kr. virði. Helmingur þeirra fyrirtækja sem komu ný inn á First North á árinu 2017 voru með 19 stöðugildi eða færri. Um þriðjungur þeirra var með færri en 10 stöðugildi og einungis fjórðungur með yfir 50 stöðugildi.
Rangfærsla 2: „Fyrirtæki þurfa að skila hagnaði áður en þau fara á markað“.
Staðreyndin er sú að 70% þeirra fyrirtækja sem komu ný inn á Nasdaq First North á árinu 2017 skiluðu tapi árið áður. Miðgildi hagnaðar þeirra var tap að fjárhæð 71 m. kr. Miðgildi árstekna þeirra var 115 m. kr. og um 48% þeirra voru með undir 100 m. kr. í árstekjur. Þetta eru því fyrirtæki sem stefna á að vaxa og bjóða almenningi að taka þátt í þeirri vegferð með sér.
Rangfærsla 3: „Almenn útboð henta ekki litlum fyrirtækjum“.
Staðreyndin er sú að einstaklingar eru ríkjandi í viðskiptum á Nasdaq First North. Stórir alþjóðlegir bankar og fagfjárfestar eru aftur á móti ríkjandi í viðskiptum með hlutabréf stórfyrirtækja. Þessu til stuðnings má benda á að tvö umfangsmestu fjármálafyrirtækin í viðskiptum á Nasdaq First North á Norðurlöndunum, sem sameiginlega eru með um 50% markaðshlutdeild, gera nær einungis út á viðskipti einstaklinga. Hlutdeild þessara sömu fjármálafyrirtækja í viðskiptum með stórfyrirtæki er undir 5%. M.ö.o. lítil fyrirtæki reiða sig á litla fjárfesta og eru almenn útboð því kjörin við fjármögnun slíkra fyrirtækja.
Rangfærsla 4. „Markaður fyrir lítil fyrirtæki getur aldrei þrifist á Íslandi“.
Staðreyndin er sú að miðgildi veltuhraða smærri fyrirtækja á hlutabréfamarkaði Nasdaq Iceland var 70% árið 2017, í samanburði við 19 – 38% á hinum kauphöllum Nasdaq Nordic og Oslo Børs. Með öðrum orðum virðast vera betri forsendur fyrir viðskiptum með lítil fyrirtæki á Íslandi heldur en á hinum Norðurlöndunum, sem þó teljast nokkuð góð á þennan mælikvarða.
Fjölga þarf litlum fyrirtækjum á Nasdaq First North á Íslandi. Fyrirtækjum sem gætu jafnvel átt meira erindi við almenning en fagfjárfesta og standa frammi fyrir spennandi tækifærum til vaxtar. Til þess að hjálpa þeim að grípa slík tækifæri hefur Nasdaq Iceland nú hrint í framkvæmd verkefninu „Nasdaq First North – næsta skref“, sem miðar að því að aðstoða fyrirtæki við að undirbúa sig undir frekari vöxt og mögulega skráningu á markað, þeim að kostnaðarlausu. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Íslandsbanka, KPMG, Logos og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Stefnir í afar góða þátttöku og verður því spennandi að fylgjast með framhaldinu.