Nýlega komu fram tillögur um að nota skattkerfisbreytingar til þess að bæta kjör aldraðra og sníða agnúa af lífeyriskerfinu. Tillögurnar hafa fengið talsverða athygli og mörgum þykja þær álitlegar. En ekki er allt sem sýnist.
Ellilífeyrir margfalt hærri í öðrum löndum
Gífurleg óánægja með lífeyriskerfið kraumar meðal aldraðra og þeir telja sig svikna um réttmæta hlutdeild í yfirstandandi góðæri. Gagnrýnin beinist mest að opinbera lífeyriskerfinu, almannatryggingunum. Grunn-ellilífeyrir sé alltof lágur og tekjutengingar alltof brattar þannig að þær éti upp mestallan ávinninginn af því að hafa greitt í lífeyrissjóð á starfsævinni.
Íslenska ríkið ver aðeins 2,6% af vergri landsframleiðslu til lífeyris aldraðra. Á hinum Norðurlöndunum er hlutfallið 5,4% - 11%, og meðaltal OECD landa er 8,2%. Samanlagður lífeyrir aldraðra frá ríki og lífeyrissjóðum svarar til 6,3% af VLF og var í fyrra að meðaltali aðeins 345 þúsund á mánuði fyrir skatt, - minna en helmingur af meðallaunum í landinu.
70% ellilífeyrisþega hafa 305 þús. kr./mán. eða minna til ráðstöfunar eftir skatt, og 30% þeirra hafa innan við 250 þús. eftir skatt. Það er því ekki að undra að aldraðir krefjast kjarabóta og að dregið verði úr tekjutengingum ellilífeyrisins.
Óhjákvæmilegt er að ráðast í róttæka uppstokkun á þessu kerfi og veita til þess stórauknum fjármunum. Sjálfsagt telja flestir rétt að byrja á því bæta kjör þeirra sem minnst hafa nú. Ef hækkun hjá þeim ætti ekki að fara upp allan tekjuskalann, þá yrði um leið að auka tekjutengingarnar, en þar sem óhóflegar tekjutengingar eru nú þegar önnur helsta meinsemd kerfisins ætti aukning þeirra alls ekki að koma til greina. - Að ætla að bæta kjör þeirra verst settu án þess að það gangi til allra, en vilja líka draga úr tekjutengingunum er nefnilega óleysanleg þversögn.
Tillögur Dr. HA - snjallræði eða sjónhverfing
Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur setti nýlega fram tillögur um grundvallarbreytingar í lífeyrismálum aldraðra sem vakið hafa talsverða athygli, og virðast margir telja að þarna gætu verið komnar raunhæfar lausnir á vanda lífeyriskerfisins. Erfitt hefur verið að átta sig til fulls á tillögunum þangað til nýlega að dr. HA birti töflur sem upplýstu nánar um tölulegar forsendur og áhrif tillagnanna.
Megininntak tillagnanna er að leggja af allar tekjutengingar hjá TR en taka í staðinn upp sérstakt skattkerfi eingöngu fyrir lífeyrisþega, gerólíkt núverandi skattkerfi. Stærsta nýjungin varðar persónuafsláttinn, sem yrði tekjutengdur eftir flókinni formúlu. Hann yrði miklu hærri en núverandi persónuafsláttur, eða 168 þús./mán. við lægstu tekjur, myndi fara að að lækka mjög hratt þegar mánaðartekjur færu upp fyrir 180 þús. og vera nánast horfinn við 1 millj. kr. mánaðartekjur (sjá mynd). Álagningarprósenta yrði ein; 42%.
Upphæð grunnlífeyris hjá TR yrði lækkuð í 180 þús./mán., en þar á móti kæmi að ónýttur hluti nýja persónuafsláttarins yrði greiddur út, þannig að ráðstöfunartekjur þeirra sem minnst hafa myndu aukast.
Helstu kostir þessa kerfis eiga að sögn að vera þeir, að það myndi bæta kjör þeirra sem minnst hafa án þess að hækkun gangi upp allan tekjuskalann. Skerðingarreglur og frítekjumörk hjá TR yrðu úr sögunni þannig að öll jöfnun og skattlagning færi fram í skattkerfinu. - Margir virðast raunar halda að þar með væri tekjutengingum og jaðarsköttum útrýmt fyrir fullt og allt en það er mikill misskilningur.
92% jaðarskattur á aldraða!
Meðfylgjandi mynd sýnir ráðstöfunartekjur ellilífeyris¬þega eftir skatt í núverandi kerfi og skv. tillögum dr. HA. Hjá þeim sem engar aðrar tekjur hafa myndu ráðstöfunartekjur hækka um 67 þúsund kr./mán. í 272 þús. Munurinn minnkar hratt niður í 15 þúsund kr. við 200-300 þús. kr. tekjur, vex aftur í tæp 40 þúsund við 550 þús. kr. tekjur en síðan dregur saman með línunum á ný þannig að við 900 þús. kr. tekjur er munurinn óverulegur.
Þegar bláa línan er skoðuð nánar er eftirtektarverðast að ráðstöfunarféð hækkar sáralítið við það að tekjurnar hækki úr 0 kr. í 200 þúsund á mánuði. Fyrstu 100 þúsundin í tekjur auka ráðstöfunarféð aðeins um 8 þúsund og næstu 100 þúsund auka það ekki nema um 20 þúsund til viðbótar!
Þarna eru nefnilega að verki gífurlega háir jaðarskattar, 92% - 80%, sem koma til vegna samanlagðra áhrifa skattprósentunnar og brattrar tekjutengingar persónuafsláttarins. Fyrstu 100 þús. kr. tekjurnar skerða persónuafsláttinn um rúmlega 50 þúsund; 50% af tekjunum, - og þegar sú skerðing leggst við 42% skattinn gerir það 92% jaðarskatt!
Þótt ekki kæmi annað til ættu þessi jaðaráhrif hjá þeim tekjulægstu að nægja til að setja tillögur dr. HA strax út af borðinu. Með þessu væri nánast búið að vekja upp aftur hina illræmdu krónu móti krónu skerðingu, - hún væri bara ekki lengur innbyggð í regluverk Tryggingarstofnunar, heldur hefði hún færst inn í skattkerfið. En þar fyrir utan verður það að teljast ákaflega óraunsæ hugmynd að tekið verði upp fyrir eldri borgara sérstakt skattkerfi, sem ætti nánast ekkert sameiginlegt með skattkerfi annarra landsmanna og væri trúlega einstakt á heimsvísu með þessum tekjutengda persónuafslætti.
Hvað er þá til ráða?
Horfast verður í augu við þær staðreyndir að lífeyrismálunum verður ekki komið í lag nema með auknu fjármagni, og að tekjutengingar hjá TR eru þegar komnar út fyrir öll velsæmismörk og mega ekki aukast. Menn ættu því að hætta að eyða tíma og fyrirhöfn í að leita að töfralausnum með sjónhverfingum eins og tekjutengdum persónuafslætti, en vinda sér í staðinn í það að hækka grunnupphæð ellilífeyrisins. Til dæmis úr núverandi 240 þúsundum á mánuði í 340 þúsund. Það er tæplega 42% hækkun og mætti koma í áföngum. Í síðari áföngum yrði svo ráðist í að draga úr tekjutengingunum.
Að óbreyttum skerðingarreglum myndi þessi hækkun ganga til allra ellilífeyrisþega, en Nota Bene: Sem krónutala en ekki prósenta. Eftir hækkun myndi ellilífeyririnn deyja út við 780 þús. kr. tekjur sem er rétt rúmlega meðallaun í landinu. Aldraðir með tekjur rétt yfir meðallaunum eða meiri myndu því eftir sem áður ekki fá neinn ellilífeyri frá ríkinu. Það er nú allt og sumt og vitnar ekki um neina ofrausn.
Höfundur er arkitekt á eftirlaunum.