Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) hafur lagt til að umhverfi Drangajökuls auk virkjanasvæða Hvalár- og Austurgilsvirkjunar verði sett í svokallaðan B-hluta náttúruminjaskrár sem lýsir forgangsverkefnum um friðlýsingu svæða næstu fimm ár. Hægt er að sjá yfirlit yfir öll svæðin á kortasjá.
Ef svæðið „Drangajökull“ er valið í kortasjánni má nálgast svokallaða „Staðreyndasíðu“ sem er rökstuðningur stofnunarinnar fyrir tillögunni um að leggja til að svæðið verði friðað.
Ljóst er hinsvegar að öll lýsingin og rökstuðningur með tillögunni á eingöngu við nyrðri hluta svæðisins þ.e.a.s. umhverfis Drangajökul suður að virkjanasvæðunum. Nyrðri hluti svæðisins er reyndar sama svæði og Umhverfisstofnun hafði lagt til að yrði friðlýst á árinu 2003 í Náttúruverndaráætlun 2004–2008 sjá meðfylgjandi mynd:
Á myndinni eru suðurmörk tillögu að friðunarsvæði við norðurmörk virkjanasvæðanna, norðan Skjaldfannardals og Eyvindarfjarðarár. Í nýju tillögunni hefur virkjanasvæðunum hinsvegar verið bætt við. Í rökstuðningi með tillögunni eru einu uppgefnu heimildirnar nýlegar skýrslur um Drangajökul og þ.e.a.s. doktorsritgerð Skafta Brynjólfssonar og stórt rannsóknarverkefni um veðurfar fyrri alda (sjö heimildir).
Nýja stækkaða svæðið er samt nefnt „Drangajökull. Landmótun jökla, fornloftslag og umhverfissaga.“
Í tillögunni segir:
„Forsendur fyrir verndun -
Vísindalegt gildi er talsvert eða mikið. Nokkrar nýlegar jarðfræðirannsóknir frá svæðinu benda til talsverðs vísindalegs gildis svæðisins, sérstaklega fyrir jöklunarsögu, fornloftlagssögu og umhverfissögu landsins. Óvenju margir vel varðveittir fornir jökulgarðar finnast á láglendi í Grunnavíkurhreppi. Gott aðgengi að mjög virku og nokkuð sérstöku landmótunarumhverfi í Kaldalóni, beintengt skriðjökli í Kaldalóni. Mikil víðernisupplifun og svæðið nær óraskað.“
Það verður öllum ljóst sem skoða rökstuðninginn að hann á eingöngu við nyrðri hlutann sem lagt var til að yrði friðaður 2003. Virkjanasvæðin eru gjörólík nyðri hlutanum umhverfis Drangajökul. Á virkjanasvæðinu eru engir skriðjöklar, engir jökulgarðar eða neinar jarðmyndanir eða jökulminjar með sérstakt verndargildi. Hvergi þykkur jarðvegur eða set, eða neitt af því sem lýst er í tillögunni að æskilegt sé að friða, og hvergi er minnst á fossa. Enda hafa tvær rammaáætlunarefndir (2 og 3) á vegum opinberra aðila komist að þeirri niðurstöðu að virkjanasvæðin henti vel til virkjunar, frekar en verndar.
Miklar umhverfisrannsóknir voru gerðar á virkjanasvæðunum á árunum 2015 til 2017, af fjölda rannsóknaaðila, vegna rammaáætlunar og mats á umhverfisáhrifum, t.d. fornleifaskráning, fuglalíf, gróður, og vatnalíf á vegum Náttúrustofu Vestfjarða og Náttúrufræðistofu Kópavogs. Engar af þeim fjölmörgu rannsóknaskýrslum um syðra svæðið sem bætt er við, er getið í heimildarskrá NÍ um þau gögn sem friðunin byggir á. Náttúrufræðistofnun var umsagnaaðili Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats Hvalárvirkjunar og skilaði umsögn dagsettri 12 ágúst 2016. Þar voru engar alvarlegar athugasemdir gerðar við mat virkjunaraðilans um tiltölulega lítil umhverfisáhrif virkjunarinnar, eða minnst á víðtækar friðunarhugmyndir, hvorki þar, í athugasemdum við rammaáætlin 3, á svipuðum tíma eða við skipulagsbreytingar sem sveitarfélagið hefur unnið að allt fram til dagsins í dag.
Þó ótrúlegt sé lítur þetta þannig út að gripið hafi verið inn í á síðustu stundu og friðunarsvæðið sem tillaga er gerð um stækkað þannig að það næði líka yfir virkjanasvæðið en ekki hafi unnist tími til að breyta texta tillögunnar nema á fáeinum stöðum. Engin breyting er gerð á megintexta eða heimildum fyrr en kemur að undirfyrirsögninni „ógnir“ og þar búin til málsgrein með einni tiltölulega óskýrri setningu:
„Möguleg virkjun Vatnsfalla getur haft talsverð áhrif á víðerni og ásýnd svæðis auk þess að mögulega raska ákveðnum jarðminjum.“ (leturbreyting höfundar)
Það er ljóst að óháð því hvaða skoðanir menn hafa á friðun virkjanasvæðanna, þá verður að gera þá kröfu til opinberrar stofnunar að hún rökstyðji mál sitt þegar hún leggur til gerbreytingu á fyrri ákvörðun stjórnvalda sem kann að leiða til milljarða króna skaðabótakrafna á hendur ríkisins, auk þess að setja mögulega framtíðaruppbyggingu heils landshluta í orku og atvinnumálum í uppnám.
Í náttúrverndarlögum segir að „ákvarðanir stjórnvalda sem varða náttúruna skulu eins og kostur er byggjast á vísindalegri þekkingu á verndarstöðu og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu vistgerða og vistkerfa og jarðfræði landsins“. Hvað segir „fagráð náttúruminjaskrár“ um vinnubrögð NÍ, en fagráðið, sem í sitja 8 einstaklingar, „skal vera NÍ til ráðgjafar um gerð tillögu um minjar á náttúruminjaskrá“ ? Eru allir starfsmenn Náttúrufræðistofnunar sáttir við vinnubrögð sem líta svona út?
NÍ heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra sem er fyrrum framkvæmdastjóri Landverndar. En Landvernd nánast kynnti þessar tillögur NÍ í fréttum áður en þeir sem unnið hafa að nýtingu svæðisins vissu neitt af þeim. Ráðherra hlýtur að teljast vanhæfur til að fjalla um þetta mál enda þegar búinn að lýsa því yfir í sjónvarpsfréttum (26. júní) að þessi tillaga sé byggð á nýjustu vísindalegum greinum um þetta svæði, þó honum mætti vera ljóst af greinarheitunum einum saman að allar þessar sjö greinar fjalla eingöngu um Drangajökul og alnæsta nágrenni hans, en ekkert um virkjanasvæðið sem var til umræðu í viðtalinu. Fáir myndu væntanlega setja sig upp á móti friðlýsingu svæðisins umhverfis Drangajökul eins og það var skilgreint 2003, nema kannski landeigendur.
Það er grafalvarlegt mál þegar ríkisstofnun setur fram tillögu sem hefði mikil áhrif og kostnað í för með sér án þess að rökstyðja mál sitt með svo miklu sem einni setningu. Þetta kallar á skýringar og jafnvel rannsókn til að fá allar upplýsingar upp á borðið, um hvernig mikilvæg mál geta fengið svona illa grundaðan framgang í stjórnkerfinu.