690 þúsund rúmmetrar.
630 milljón kíló.
Þetta gæti verið lýsing á stórri byggingu. Byggingu sem væri þreföld Harpa, og því stærri en nokkur í Reykjavík og þó víða væri leitað. Þetta undur veraldar er þó ekki nein bygging heldur öll sú umfram mjólkurframleiðsla sem bandaríska ríkisstjórnin er að kaupa í ár. Ekki í neinum öðrum tilgangi en að tryggja að hægt sé að framleiða jafnmikið af mjólk og ávallt.
Maður gæti spurt sig hvers vegna flokkur sem kennir sig við frjálsa verslun eins og repúblikanar standa í slíku. Svarið væri að þetta er bændaflokkur, en það skýrir samt ekki af hverju demókratar gerðu slíkt hið sama. Af hverju t.d. Obama samþykkti að láta ríkissjóð kaupa hálfan milljarð mjólkurlítra árið 2016. Svarið er kannski að þannig hefur það alltaf verið. Mjólkin skal flæða, jafnvel þó hún flæði bara í ræsin.
Markmiðið er að sögn markaðsstöðugleiki. Svo að verðið á mjólk hrynji ekki og rísi heldur ekki of hátt. En þarna eins og víða annars staðar er ekki verið að svara mest aðkallandi spurningum dagsins. Hvernig á t.d. að bregðast við loftslagsbreytingum af manna og kúa völdum? Nautgriparækt er plássfrek og skilur eftir sig gríðarlegt vistspor sem annars konar landbúnaður gerir ekki. Er réttlætanlegt á tímum þegar hitastig jarðar hækkar ört að framleidd sé mjólk sem enginn drekkur?
Mjólkursala getur verið misgóð eftir árum og ekki skapast alltaf jafnhá fjöll.
Þessi aðferð Bandaríkjamanna er alls ekki einsdæmi. Mjólkurmarkaðurinn er nánast hvergi alfrjáls heldur bundinn ákveðnu verðlagi, kvótum og inngripum hjá hverri þjóð. Hér um bil allar mjókurframleiðsluþjóðir heimsins stefna á útflutning, en standa allar frammi fyrir sama vandamáli annars staðar. Í öllum hinum mjólkurneytandi ríkjunum er innlenda mjólkurframleiðslan vernduð og markaðarnir ekki opnir.
Þetta kerfi leiðir oft að býsna galinni niðurstöðu. Með þessum bandarísku ostum væri hægt að byggja tvær, þrjár Hörpur en verður sennilega ekkert gert. Á sama tíma er einum iðnaði haldið uppi þannig að ekki skapist pláss fyrir aðra, sem hugsanlega væru vistvænni og arðbærari. Það er ekki sjálfsagt á tímum þar sem loftslag jarðar er að taka stökk um nokkrar gráður að metangas-framleiðandi starfsemi sé haldið gangandi á kostnað annars konar landbúnaðar og ræktunar. Jafnvel á svæðum sem henta engan veginn undir slíkt. Það hlýtur að vera hægt að nýta auðlindir jarðar með ábyrgari hætti, sem væri bæði vistvænn og neytendavænn. Sanngjarn gagnvart öllum hliðum.
Í bókinni Collapse eftir Jared Diamond skrifar bandaríski vistfræðingurinn um samfélög sem þrjóskast við lifnaðarhætti sem ljóst er að munu leiða til tortímingar þeirra. Hann vísar til ótal dæma frá miðameríku, Páskaeyjunum og Grænlandi þar sem einangruð samfélög með ofnýtingu á landi og skógum vegna matarvenja sem ekki hentuðu landinu leiddu til hörmunga. Grænland er nærtækt dæmi, þar þrjóskuðust norrænir menn við nautgriparækt á nyrsta hjara veraldar við upphaf ör-ísaldar. Diamond leiðir líkur að því að með því að einblína á fiskveiðar og geitarækt hefðu landnemar á Grænlandi geta lifað til dagsins í dag en þess í stað þurrkuðust þeir út með mjólkurkúnum sínum. Þar sem við komum úr sama menningarheim náum við eflaust að skilja þrjóskuna, Íslendingar til forna vildu helst allt nema lepja dauðann úr skel.
Diamond lýkur bók sinni á varnaðarorðum, dæmin sem hann hefur tekið lýsa einangruðum heimum sem ofnýta auðlindir sínar en núna er veröldin öll orðin ein eyja. Eyja sem framleiðir meira en hún nýtir af því hún hefur alltaf gert það og þrjóskast við að halda áfram uppteknum hætti af því svona hefur það alltaf verið. En í dag mun sú hegðun ekki leiða til hruns afmarkaðra útnára heldur stórfelldra hörmunga fyrir mannkynið allt. Við erum nú þegar farinn að sjá fyrsta vísinn af straumi loftslagsflóttamanna.
Í annarri og talsvert þekktari bók, Auðlegð þjóðanna, eftir Adam Smith veltir fyrsti eiginlegi hagfræðingurinn fyrir sér hvað geri eina þjóð auðuga og aðra fátæka, hvernig stórborgir eins og París tryggi sér nægilegan mat og önnur hráefni til að virka og hvaða ályktanir megi draga af því. Sú niðurstaða sem hann kemst að er að þjóðir heimsins græði mest á að sérhæfa sig í því sem þær eru góðar í og selja öðrum þær vörur. Þarna er grunnurinn að ekki bara nútímahagfræði lagður heldur jafnvel verslunarnetinu sem hið frjálslynda alþjóðaskipulag byggir á. Það er með því að fylgja þessum ráðum sem smáar þjóðir geta orðið ríkar og keppt við hinar stærri.
Nú kynni einhver að spyrja hvort ekki sé líka talsvert vistspor í flutningi á þjónustu og vörum milli landa. Svarið er hiklaust, já. Já, en mögulega er hægt að finna lausnir sem tryggja framtíðar velsæld okkar allra. Gætu bíla og skipaflotar framtíðarinnar orðið rafknúnir? Mögulega. Til þess að þróa ný samgöngukerfi þarf hinsvegar pólitískan vilja og skilning á því að við munum öll tapa miklu ef við gerum það ekki. Hinn kosturinn er að smám saman einangrist þjóðir og það er sérstaklega slæm niðurstaða fyrir þær allraminnstu meðal þeirra.
Við myndum aldrei þrjóskast við að rækta kaffi og vín í gróðurhúsum á Íslandi. Rétt eins og á sömu átjándu öld og þegar Adam Smith var uppi munum við flytja það inn, og ef við búum hér enn í lok 21. aldar munum við vonandi hafa efni á að halda því áfram. Samt erum við á því mjólkurostar séu grunnstoð í efnahagslífi okkar þótt allt bendi til að sú framleiðsla sé sóun á vinnuafli, tíma og líkast til að skilja eftir sig stærra vistspor en hún er virði. Á sama tíma virðist engum frumkvöðli hafa dottið í hug að í landi þar sem milljón rollur ráfa um hálendið mætti nýta ær til að framleiða osta líkt og gert er í Frakklandi. Það er af því okkar kerfi byggir á því að framleiða alltaf það sama, alltaf jafnmikið óháð eftirspurn, í stað þess að hvetja fólk til að spyrja sig: „Hvað vill fólk og hvað gæti ég orðið góður í?“
Framtíðarkynslóðir munu klóra sér á kollinum yfir landbúnaðarkerfum nútímans. Af hverju létu Bandaríkjamenn það viðgangast að hundruð milljónir lítra færu til spillis árlega á kostnað almennings á meðan heilbrigðisþjónusta handa sama almenningi var ekki niðurgreidd? Af hverju vildu Íslendingar ekki bara leyfa öðrum þjóðum að framleiða handa sér ost í skiptum fyrir fisk og íslenskt hugvit? Þessu munu kannski hagfræðingar eins og Adam Smith og vistfræðingar eins og Jared Diamond eiga erfitt með að svara. Mögulega er frekar þörf á sálfræðing.