Velmegun Íslands byggir nær alfarið á útflutningi og þjónustuviðskiptum, þar með talið ferðaþjónustu. Við framleiðum sem nemur sex milljón fiskmáltíðum á dag, til dæmis, en annar útflutningur okkar er á áli, vélbúnaði, landbúnaðarafurðum, hugbúnaði, og ótrúlega mörgu öðru.
Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að það er grundvallaratriði að hafa góða fríverslunarsamninga við önnur ríki, svo að tollar, kvótar og annarskonar tækilegar eða formlegar viðskiptahindranir standi ekki í vegi fyrir framgangi íslenskra fyrirtækja.
Ísland er aðili að EES-svæðinu, sem veitir okkur því sem næst óhindraðan aðgang að hagkerfum 30 Evrópuríkja í viðskiptum með vörur og þjónustu, ásamt fjárfestingum, frjálsu flæði á starfskrafti, og ótrúlega margt fleira. EES-samningurinn er almikilvægasti samningur sem Ísland er aðili að.
Þessu til viðbótar erum við með 28 fríverslunarsamninga við 39 lönd í gegnum EFTA-samstarfið, og tvo tvíhliða samninga milli Íslands og Kína annars vegar og Færeyjar hins vegar. Þessir samningar snúa fyrst og fremst að vöruviðskiptum og stundum þjónustuviðskiptum, fjárfestingum og öðru. Þeir eru því ekki jafn umfangsmiklir og EES, en eru engu að síður mikilvægir.
Að gera nýjan fríverslunarsamning felur í sér töluvert umfangsmikla vinnu við greiningu á hagsmunum aðildarlandanna, og sérstaklega að finna út hvaða flokkar viðskipta gagnaðilarnir eru viðkvæmir fyrir. Til að mynda hefur Ísland oftast borið fyrir sig viðkvæmni varðandi landbúnað, þar sem innlend framleiðsla er talin eiga erfitt með að keppa við sum önnur lönd þar sem skilyrði til ræktunar eru betri. Samið er í lotum sem líður mislangt á milli, og getur ferlið staðið yfir í mörg ár.
Á samningatímanum leitast löndin við að kynnast betur, sjá tækifæri hjá hvoru öðru, og nálgast þangað til samningurinn er í höfn. Hluti af því er að sjálfsögðu að skapa ný viðskiptatengsl, en einnig að eiga samtöl sem víðast til að finna hvort verið sé að ganga of nærri einhverjum hagsmunum. Þegar þessu öllu er lokið taka þjóðþingin samninginn til meðferðar, og séu þeir samþykktir taka þeir gildi.
Ísland stendur í ferli af þessu tagi með EFTA löndunum, þ.e. Liechtenstein, Noregi og Sviss, gagnvart fjölmörgum ríkjum. Til að mynda stendur yfir endurnýjun samninga við Kanada og Mexíkó, og verið er að leitast við að gera nýjan samning við Mercosur samtökin sem Brasilía, Argentína, Úrúgvæ og Paragvæ eru aðilar að. Nýlegir samningar við Ekvador, Tyrkland og Filipseyjar bíða nú samþykkis Alþingis.
Alþjóðleg viðskipti eru sífellt að aukast. Aukið traust milli landa og flóknara samspil hagkerfa fylgist jafnframt að: það eru töluvert meiri líkur á friði og velmegun í heimi þar sem allir hafa hagsmuni af því að vinna saman.
Ísland er ekki í miklum viðskiptum við sum þeirra landa sem við erum að semja við, en tækifærin eru stórkostleg ef við kjósum að nýta okkur þau. Ef Íslendingar sýna röggsemi í að elta uppi tækifærin og koma Íslandi betur fyrir í alþjóðlegum virðiskeðjum aukum við hagsældina á Íslandi, dreifum efnahagslegri áhættu og fáum um leið að njóta aðgangs að gæðavörum hvaðanæva að.
Þá ættum við líka að nýta betur tækifærin til fjárfestinga erlendis. Þegar hagkerfi Íslands er jafn sterkt og raunin er, og einkum þegar blikur eru á lofti, þá er tækifæri til að hlúa að stoðunum með góðum fjárfestingum. Lífeyrissjóðir, fagfjárfestar og aðrir ættu að leita út fyrir landsteinanna í meira mæli, ekki í einhverjum fálmkenndum útrásargír, heldur með yfirvegaðri greiningu á stöðunni og skýra framtíðarsýn. Sem dæmi gætu sjávarútvegsfyrirtæki verið að byggja upp útgerðir í þeim löndum þar sem þær eru veikar fyrir, þannig að allir njóti góðs.
Það er skrýtið að tala um tækifæri í núverandi árferði. Mörg lönd sem hafa sögulega verið í framverði frjálsra alþjóðaviðskipta hafa nú snúið sér við og eru markvisst með aðgerðum sínum að grafa undan því kerfi sem hefur skilað heiminum öllum gríðarlegum auði, og það á grundvelli þjóðernishyggju af öllu mögulegu.
Við eigum alls ekki leyfa þessu að gerast athugasemdalaust, en aðgerðir skipta mun meira máli en orð í alþjóðaviðskiptum. Ísland er í verulega góðri stöðu til að standa vörð um alþjóðlegt kerfi frjálslyndrar fríverslunar, að efla þá velmegun sem hlýst af alþjóðaviðskiptum, og njóta í leiðinni góðs af tímabundinni villu sumra stórveldanna.
Höfundur er formaður Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.