Framtíðarbærni ferðamáta þarfnast stöðugrar endurskoðunar

Viðar Freyr Guðmundsson gerir athugasemdir við staðhæfingar borgarstjóra um samgöngumál og veltir fyrir sér framtíð samganga.

Auglýsing

Dagur B. borgarstjóri ritaði um Borgarlínu í vikulegt dreifibréf sitt nýverið. Þar fór hann fögrum orðum um Samgöngustefnu ríkisins sem er í bígerð og taldi að Borgarlínan væri rétt handan við hornið. Það ætti bara eftir að leysa nokkur útfærsluatriði s.s. hver ætti að borga allt saman. En alveg óháð praktískum atriðum ákvað ég að gera athugasemdir við eftirfarandi í pistli borgarstjórans.

„Í blaðinu í morgun sá ég að Íslendingar eru næstmesta bílaþjóð Evrópu, á eftir Lichtenstein. Þessu verðum við að breyta vegna þess að við viljum ekki sitja föst í umferð, við viljum ekki verja stærri hluta borgarlandsins undir bílastæði, það er hollara og betra fyrir alla ef fleiri fara um öðruvísi en á bíl og loks er það betra fyrir loftgæðin í borginni en nú þegar deyja sjö milljónir um allan heim á ári hverju vegna loftmengunar.“ - Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Auglýsing

Ég hef nokkrar athugasemdir við þær fullyrðingar sem þarna eru settar fram:

  1. „Íslendingar eru næstmesta bílaþjóð Evrópu, á eftir Lichtenstein. Þessu verðum við að breyta..“ Bílnotkun eykst með meiri velmegun, bæði milli landa og innan þeirra. Enda hefur bílaeign per 1000 íbúa líka aukist í nærri öllum Evrópulöndum að undanförnu. Er þetta eitthvað sem „við viljum breyta“? Er þetta eitthvað sem við getum breytt? Það virðist allstaðar vera meiri vilji til að fara um á einkavögnum. Enda hefur það ótvíræða kosti í för með sér. Fólk kýs einkabílinn á hverjum degi með lýðræðislegu vali.
  2. „við viljum ekki sitja föst í umferð“ Allstaðar í heiminum tekur lengri tíma að ferðast með almenningssamgöngum en á bíl. Umferðarteppur á Íslandi eru minniháttar miðað við vanda sem hefur verið leystur víða erlendis. Kannski ef Dagur hefði ekki slegið öllum stærri vegaframkvæmdum á frest árið 2012 værum við ekki í eins miklum vanda í dag.
  3. „við viljum ekki verja stærri hluta borgarlandsins undir bílastæði“ Þetta eru stór orð, en innantóm. Innst inni vilja allir fá sitt stæði. Meira að segja Dagur B. Eggertsson, sem keypti hluta af lóðinni við hliðina á húsinu sínu undir bílastæði.
  4. „það er hollara og betra fyrir alla ef fleiri fara um öðruvísi en á bíl“ Þetta er rangt. Margar rannsóknir sýna að það er mikil lífskjaraskerðing að verja lengri tíma í samgöngum. Það tekur víðast tvöfalt lengri tíma að fara með strætó heldur en á einkabíl. Ein rannsókn sýndi að 20 auka mínútur af ferðatíma á dag væri álíka neikvæð áhrif á ánægju fólks eins og 19% launalækkun. Það er ríflega tímamunurinn milli ferðamáta hér í borginni. Skoðanakannanir sýna að það sem veldur mestu stressi hjá farþegum eru: tafir á þjónustu, þrengsli innan um annað fólk og andfélagsleg hegðun annara farþega.
  5. „loks er það betra fyrir loftgæðin í borginni en nú þegar deyja sjö milljónir um allan heim á ári hverju vegna loftmengunar“ Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnun (WHO) er þessi tala reyndar 4,2 milljónir vegna loftmengunar utandyra. 3,8 milljónir til viðbóta deyja árlega vegna loftmengunar innan veggja heimilis, svo sem vegna eldamennsku og húshitunar. Raunar er mengun frá þessum fátæku heimilum líka stór orsök í mengun utandyra í fátækari borgum. En þar koma líka fleiri þættir til: mengun vegna vanbúinna sorphauga, mengandi stóriðja, mengandi raforkuframleiðsla ofl.  Að stilla því upp að bílaumferð sé ráðandi þáttur í þessum dauðsföllum er hrein ósannindi og vanþekking á bágum kjörum flestra þeirra sem létust. Flest af þessu fólki sem dó hafði ekki efni á að vera á bíl.

Stærstan hluta dauðsfalla vegna loftmengunar má rekja til aðstæðna sem þessa.

Tímasóun og óhagræði er mengandi

Í vestrænum samfélögum er bíll mikil lífskjarabót sem sparar einstaklingum dýrmætan tíma. Sparnaði á tíma fólks væri eins hægt að reikna til mengunar því rannsóknir sýna að með lengri ferðatíma: verður heilsa fólks verri/fólk þarf meiri heilbrigðisþjónustu, borðar meira ruslfæði, er með hærri BMI stuðul, hærri blóðþrýsting, upplifir skerta lífsánægju, stendur sig verr í námi, lendir í fleiri illdeilum við annað fólk, er líklegra til að geta illa sinnt fjölskyldu sinni.. svona mætti lengi telja.

Fjöldi rannsókna sýnir að aukið stress sem fylgir löngum daglegum ferðalögum ýtir undir óhollara mataræði.

Allir þessir stress þættir kalla á meiri neyslu og óhagræði í hagkerfinu sem skilar sér að endingu í meiri mengun. Fólk sem er stressað og líður illa framleiðir ekki eins mikið miðað við hversu mikil neysla þeirra er. Það dettur frekar í skyndifæði og skyndilausnir til að fá hluta af tíma sínum til baka. Fólk sem er nýlega búið að kaupa sinn fyrsta bíl er búið að átta sig á hvernig lífsgæðin batna til muna með því að fá tímann sinn til baka. Tíminn er stærsti þátturinn í ferðamátavali fólks. Enda sýnir líka ferðavenjukönnun Gallup fyrir höfuðborgarsvæðið að stærsta ástæðan fyrir því að fólk kýs aðra ferðamáta en strætó er að það er of tímafrekt. Það dylst engum hversu mikil lífskjarabót einkabíllinn er. Ekki einu sinni Degi B. Eggertssyni, sem fer allra sinna ferða á slíku tæki sjálfur. Vitandi að tími er það mikilvægasta sem við eigum.

Stundum er þrengslum í almenningsvögnum lýst sem

Naumhyggja og sjálfsfyrirlitning

Ef þeir sem vilja koma í veg fyrir aukna bílnotkun á íslandi eru raunverulega að því vegna áhyggja af loftslagsmálum, sem mætti lesa úr orðum Dags B, en ekki þó gjörðum hans eða persónulegri ábyrgð. Þá hef ég slæmar fréttir fyrir það fólk: Því hefur verið spáð að bílaeign muni verða meira en 2 milljarðar ökutækja árið 2030. Þar af verði 56% ökutækjanna utan OECD landa sem verður tvöföldun á því hlutfalli síðan 2002. Við stefnum í að efnahagur verður ekki lengur hindrun fyrir því að allir eignist bíl. Raunar er þessi þróun búin að vera mun hraðari en spáð hefur verið. En það eru yfir 1,7 milljarðar skráðra ökutækja nú þegar. Jafnvel þótt við næðum með þvingunarúrræðum borgarstjórans að fækka ökutækjum um nokkur þúsund í Reykjavík, þá er það ekki dropi í hið alþjóðlega haf.

Konur í Sádí Arabíu fengu nýlega ökuréttindi. Það þótti mikið mannréttindamál að konur þar fengju frelsið sem fylgir því að fara um í einkavagni.

Bíll er svo mikil lífskjarabót að það er alþjóðleg og sammannleg þróun að vilja eignast slíkt tæki. Nema hjá örfáum kverúlöntum á. Það væri í sjálfu sér í lagi ef þessir einstaklingar vildu aðeins takmarka eigin bílnotkun, en ekki að koma í veg fyrir bílnotkun annara. Að einhverju leiti tel ég að hér sé um naumhyggju að ræða. Það er sú hugsun að það sé dyggð fólgin í því að neita sér um hluti. Sem getur alveg verið rétt, en sú dyggð gildir ekki um að neita öðrum um hluti og þykjast vita betur hvað sé öðrum fyrir bestu. Það kallast valdsýki og er ekki dyggðug frekar en annað ofbeldi.

Þarna kemur líka inn sjálfsfyrirlitning ákveðinna hópa. Sem virðast líta á mannskepnuna sem synduga og að það beri að refsa fólki og setja því hömlur. Hugmyndafræðin gengur út á að umhverfið eigi alltaf að njóta vafans umfram velferð fólks. Sumir ganga svo langt að lýsa mannfólki sem “krabbameini á plánetunni”. Ég heyrði athyglisvert útvarpsviðtal við íslenskan leikstjóra nýlega þar sem hann lýsti þessari sjálfsfyrirlitningu sem fylgir sumum umhverfisverndarsinnum: hann sagðist einfaldlega ekki treysta sjálfum sér til að gera það sem væri umhverfinu fyrir bestu. Þess vegna vildi hann að ríkið neyddi sig til þess.

Framtíðarbærni uppbyggingar

Eftirspurnin er eftir meiri þægindum og meiri frítíma. Fyrirséð er að almenningsvagnar geta ekki keppt við einkavagna hvað þetta varðar. Tækniþróun í umferðarmannvirkjum og sjálfstýrðum vögnum mun auka bilið enn meira í ferðatíma milli einkavagna og almenningsvagna og gera sífellt fleirum kleift að njóta þeirra þæginda. Vagnar sem koma eftir tímaáætlun og færa farþega ekki nema hluta úr leiðinni munu smám saman deyja út með meiri velmegun og tæknilausnum.

Nú þegar eru bílar orðnir sjálfakandi. Þetta er ekki lengur vísindaskáldskapur, heldur raunveruleiki. Það eina sem vantar til að við förum að sjá heilu borgirnar með sjálfakandi bílum er að lögum og regluverki sé breytt til að leyfa þróunina. En löggjafinn er smám saman að vinna að þessu marki. Til dæmis eru í dag 4 ríki Bandaríkjanna sem leyfa sjálfakandi bílum að aka, án ökumanns við stýrið(Kalifornía, Arizona, Michigan og Ohio). 36 ríki til viðbótar leyfa sjálfakstur með ökumanni við stýrið, ásamt nokkrum ríkjum Evrópu. Það ætti að vera stefna stjórnvalda hér á Íslandi að undirbúa vegakerfið til að mæta þörf sjálfakandi bíla. Þetta er ekki lengur spurning um ‘hvort’ heldur ‘hvenær’ þeir verða almennir. Í meginatriðum þýðir þetta: fleiri mislæg gatnamót og betri vegmerkingar. Þetta væru hvort sem er ráðstafanir sem myndu gagnast umferðinni í dag. En við gætum kallað þessar ráðstafanir „framtíðarbærar“, þ.e. að þær gagnast í nútímanum en undirbúa um leið framtíðina (e. future proofing).

GM-Cruise-AV bifreiðin sem er væntanleg á markað 2019. Stýribúnaður og pedalar fylgja ekki með.

Veðjað á vitlausan fararskjóta

Ímyndaðu þér ef bíllinn þinn gæti skutlað þér og makanum í vinnuna, síðan börnunum í skólan. Síðan þess á milli gæti hann verið að skutla öðru fólki, skyldmennum eða hluthöfum í bílnum, þangað sem það þarf að komast. Eins og þinn eigin leigubíll eða einkabílstjóri. Það verður óþarft að eiga sinn eigin bíl. Því það verður enginn vandi fyrir marga aðila að nýta sama ökutækið. Þá þarf heldur ekki að leggja bílnum fyrir framan vinnustaðinn, verslunina eða aðra fjölfarnari staði. Það sparar gríðarlegt pláss í bílastæðum. Bíllinn keyrir þig bara upp að dyrum þar sem þú þarft að komast og fer svo af stað í næsta verkefni, eða bíður á einhverjum afskekktum stað, eftir að þjónustu hans sé þarfnast.  Svona skutlu bílar þurfa heldur ekki endilega að vera fyrir marga farþega. Í dag erum við bundin af því að kaupa bíl sem passar fyrir alla fjölskylduna, til að vera búin undir þá nokkra daga á ári sem við þurfum stærri bíl. En flestar ferðir erum við etv. bara ein í bílnum. Með sjálfakandi deilibílum er hægt að vera á bíl sem hentar farþegafjölda hverju sinni. Þetta getur sparað gríðarlega í orku og plássi á vegum.

Hér sést hvernig nútíma sjálfakandi bíll skynjar umhverfi sitt. Bíllinn skynjar bæði gangandi og akandi vegfarendur og bregst við þeim hraðar en nokkur maður gæti gert.

Sú þróun sem mun eiga sér stað á næstunni í einkabílum er ekki nærri því öll fyrirséð.  Ljóst er að fólk mun kjósa einkavagna í framtíðinni í ríkari mæli en það gerir í dag. Snjallar lausnir munu enda gera fleirum kleift að ferðast um sömu göturnar með meira öryggi og skilvirkni en áður. Einkavagnar munu smám saman verða jafn umhverfisvænir eins og almenningsvagnar. Minni vagnar eru léttari og eyða þar með veldisminnkandi minna af malbiki. Þannig eru fleiri og minni vagnar orðnir umhverfisvænni en færri og þyngri. Því það stefnir í að einkavagnar verði að megninu til rafdrifnir með endurnýtanlegri orku.

Snjallir bílar vita af hvorum öðrum og vita alltaf hvaða leið er best að fara miðað við umferð. Þeir vita alltaf hvar er laust stæði þegar þeir þurfa að leggja. Sem verður sjaldnar.

Til að taka þetta allt saman: Ætlum við að byggja upp samgöngukerfið okkar á naumhyggju og gamaldags lausnum sem fáir vilja nota nema vera þvingaðir til þess? Eða ætlum við að byggja upp samgöngur eftir vilja og þörfum fólks með fyrirsjáanlega framtíð í huga? Ég tel að ofur-fjárfestingar í almenningsvögnum og hatur við einkabílinn sé ekki rétta leiðin áfram. Það verði hrein sóun á fé. Meðan uppbygging gatnakerfisins með aukinni vandvirkni muni alltaf skila sér inn í framtíðina. Aukin þægindi sem spara fólki dýrmætan tíma er leiðin áfram.

Það mun enginn velja yfirfullan strætó sem kemur þér aðeins hluta af leiðinni í staðinn fyrir sjálfakandi vagn með friðhelgi sem hegðar sér líkt og einkabílstjóri.

P.S. Viljir þú fræðast um hvernig spár um að ekki verði hægt að leysa umferðarvanda án Borgarlínu eru rangar, þá er hér ítarleg greining á öllum þeim rangindum sem hefur verið haldið fram varðandi þá framtíðarsýn.

https://m.facebook.com/story.php?story_fbid=10156635022133593&id=657033592

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Þögnin rofin á ný
Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni?
Kjarninn 8. maí 2021
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Arion banki að ná markmiðum sínum og ætlar að dæla fé til hluthafa á næstu árum
Umfram eigið fé Arion banka var 41 milljarður króna í lok mars síðastliðins. Bankinn ætlar að greiða hluthöfum sínum út um 50 milljarða króna á næstu árum. Hann hefur nú náð markmiði sínu um arðsemi tvo ársfjórðunga í röð.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar