Á 45-ára afmælisdegi mínum í hitteðfyrra barst mér óvæntur tölvupóstur frá föður mínum. Hefði hann grunað að ég ætti eftir að birta bréfið í fjölmiðli hefði hann sennilega hikað við að senda það. En tíminn líður bara í eina átt og sent er sent. Einn góðan veðurdag getur það gerst að orð sem voru ætluð einni manneskju eigi erindi við fleiri. (Það skal tekið fram að ég er ekki að reyna að verða pabba mínum til vandræða með þessu uppátæki.) Bréf hans hljóðar svo:
45 ár. Til hamingju!
„Sæl og blessuð elsku dóttir og til hamingju með daginn!
Ég, hann pabbi þinn, hef víst ekki verið mjög duglegur við bréfaskriftir í gegnum árin, en langar til reyna að gera svolitla bragarbót.
Þó liðin séu öll þessi ár síðan þú skaust inn í þennan heim, þá man ég daginn mjög vel. Enda kannski ástæða til. Þetta var dagurinn sem var sá fyrsti sem ég missti úr vinnu frá því ég byrjaði að vinna sem læknir. Ekki finnst nú öllum fyndið að ég skuli vera að tönnlast á því, enda kannski ekki skrýtið. En sannleikurinn er að ég var mættur í vinnu eftir að mamma þín var komin á Fæðingarheimilið og ekkert virtist vera að ske, en samstarfsmenn töldu ómögulegt annað en ég væri „hjá minni konu“ og ég var beinlínis rekinn niðreftir.
Þangað kominn varð ég nú ekki beinlínis var við sérstaka hrifningu. Mamma þín tilvonandi farin að sofa og ég var bara fyrir, eins og aðstoðarlæknar og kandídatar gjarnan eru þegar ljósmæður eiga í hlut. Mér var því fylgt upp í rjáfur í þessu húsi og inn í herbergi undir súð, þar sem ljósmæðranemar höfðu haft athvarf en stóð nú autt. Galtómt. Þar var legubekkur, skrifborð og stóll og nokkrar bókahillur. Allt tómt. Nema ein lítil bók, forn að sjá.
Þetta reyndist vera kennslubók fyrir verðandi ljósmæður, samin og útgefin af Jónassen landlækni um aldamótin 1800-1900. Ég fór að glugga í þetta kver, heldur en ekkert. Það byrjaði á ýmsum almennum atriðum sem að gagni mættu koma verðandi nærkonum, sem auðvitað urðu að bjarga sér sjálfar úti í sveitum landsins eins og aðstæður voru þá. Þar var ýmislegt forvitnilegt og ég gleymdi mér faktískt við lesturinn um stund.
Á þessum árum fóru lokapróf embættismanna fram í heyranda hljóði á sjálfu Alþingi, svo ætla má að mörg stúlkan hafi verið nervös þegar til kom. Eitt prófið er rakið þarna, lið fyrir lið, spurningar og svör eitthvað á þessa leið:
Dæmi: Hvað ber ljósmóður að gera þegar hún kemur til hinnar fæðandi konu?
Svar: Hún skal taka af sér reiðfötin og setja á sig hreina svuntu. Síðan skal hún lauga hendur sínar úr volgu vatni með sápu. (Jæja, hugsaði ég, þau eru alla vega með sterilitetið á hreinu).
Spurning: Hvað skal hún gera ef óstöðvandi blæðing verður?
Svar: Hún skal láta söðla skjótan hest og senda eftir lækninum, sem mun gefa viðeigandi inntökur. (Ég: ókey, þau eru alla vega með „back-up“).
Nú, dagurinn leið og kvöldið og þú lést ekki sjá þig fyrr er um tíuleytið (sem enn meira undirstrikaði þarfleysu þess að missa heilan vinnudag!). En allt gekk að óskum og þú gafst mér auga sem virtist segja: „Jæja, svo þú ert þá þessi pabbi minn. Það verður víst svo að vera. Ég mun ekki verða þér til vandræða.“ Við það hefur þú staðið og meir en það. Svo kom að því að kveðja. Það var komið myrkur og slabb á götunum. Ég lagði af stað heim og leið bara nokkuð vel. Orðinn faðir og lífið brosti.
Jæja, Edda mín, nokkurn veginn svona man ég nú þennan dag (smá skáldaleyfi).
Aftur: Til hamingju með daginn og bestu kveðjur.
Þinn Pabbi.“
Lífið er ótal sögur sem byrja hver innan í annarri. Þegar Jónassen landlæknir ritaði kennslubók sína fyrir verðandi ljósmæður gat hann ekki vitað að hann væri að ávarpa stressaðan aðstoðarlækni, verðandi föður, anno 1971, ekki fremur en pabbi gat vitað að hann væri með endurminningu sinni að skrifa innlegg í kjarabaráttu ljósmæðra 2018.
En sögur virka nú einu sinni þannig að í þeim gerist eitthvað óvænt. Læknir og ljósmóðir hafa til dæmis alltaf þurft að „bakka hvort annað upp“ til þess að fást við hið óvænta og til að læknir geti sinnt öðrum sjúklingum á meðan lífið er „sí og æ að kvikna“ eins og skáldið á Gljúfrasteini orðaði það.
Ég vona að ráðamenn Íslands komi nú öllum á óvart, snúi við blaðinu og marki sér sess í sögunni með því að semja við ljósmæður og gera þeim kleift að snúa aftur til sinna starfa sem allra fyrst. #égstyðljósmæður