Orlofshús verkalýðsfélaganna eru vinsælust á þessum árstíma. Launafólk pantar sér bústaði með góðum fyrirvara og getur oftast valið milli nokkurra staða á landinu. Hugsunin er að hafa það huggulegt, borða góðan mat, grilla og fara í heita pottinn, slaka vel á og stunda áhugamál, kannski golf eða eitthvað. En þetta dekur og spa er ekki í boði fyrir láglaunafólkið í félögunum. Ekki vegna þess að það megi ekki sækja um, heldur vegna þess að það hefur ekki efni á því, alveg sama þótt orlofshúsin séu niðurgreidd af verkalýðsfélögunum.
Algengt verð fyrir orlofshús á þessum tíma árs er á milli 20-35 þúsund fyrir vikuna. Það þarf bíl til að komast á staðinn. Rútur fara yfirleitt ekki afleggjarana að þessum stöðum. Þá þarf að kaupa bensín sem dugar báðar leiðir og kannski í einhverjar skoðunarferðir um sveitina. Svo er það kjötið á grillið, allur maturinn og annað sem tilheyrir.
Láglaunafólkið í verkalýðsfélögunum sem á ekki fyrir húsleigu eða mat út mánuðinn getur ekki leyft sér þetta. Þetta er dekur og spa fyrir hinn stönduga hluta millistéttarinnar. Láglaunamaðurinn borgar hins vegar stéttarfélagsjöldin alveg eins og stöndugi millistéttarmaðurinn. Það má því segja að láglaunamenn í félögunum séu að borga undir hina stöndugu millistétt þetta dekur og spa. Láglaunafólk borgar en hefur síðan ekki ráð á að nýta sér fríðindin.
Þetta er eins öfugsnúið og eitt má vera. Orlofshúsin voru í upphafi einmitt hugsuð fyrir þá hópa í samfélaginu sem minnst hafa, þannig að þeir gætu komist eitthvað í frí. Þá voru verkalýðsfélögin yfir höfuð ekki stofnuð með það fyrir augum að styrkja stönduga millistéttarhópa í dekur og spa.
Þegar Alþýðusamband Íslands var stofnað ári 1916 þá var tilgangurinn að koma á samstarfi meðal íslenskra alþýðumanna, sem reist væri á grundvelli jafnaðarstefnu og miða að því að efla og bæta hag alþýðunnar. En þetta hefur verklýðshreyfingin ekki gert á undanförnum árum og áratugum. Heldur þveröfugt. Þegar samið hefur verið um launahækkanir í kjarasamningum þá hafa þeir sem bestu launin hafa, hin stönduga millistétt, fengið mestu hækkun vegna þess að samið er um prósentuhækkanir. Þá fær láglaunamaðurinn auðvitað minnst. Ennþá eru svívirðilega lágar tölur í launatöxtum verkalýðsfélaganna og margir á lágum launum.
Tökum önnur dæmi um það sem er niðurgreitt af verkalýðsfélögum. Sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, kírópraktorar, heilsunudd, heilsuefling, félags-eða fjölskylduráðgjöf og markþjálfun. Öll þessi þjónusta er fokdýr þó hún sé niðurgreidd. Stöndugi millistéttarmaðurinn sem vill laga andlega eða líkamlega heilsu sína hefur líklega efni á að nýta sér alla þessa möguleika. Stöndugi millistéttarmaðurinn sem kannski er orðinn eitthvað áttavilltur í lífinu getur líklega einnig leyft sér að kaupa niðurgreidda markþjálfun.
En sá sem hefur kannski mesta þörf fyrir að nýta sér svona þjónustu t.d. vegna vinnuálags, eilífs afkomuótta, kvíða og vonleysis hefur ekki efni þá því. Það er láglaunamaðurinn. Það er maðurinn sem kvíðir því að geta ekki borgað húsaleiguna, eiga ekki fyrir mat út mánuðinn, komast ekki til læknis vegna peningaleysis. Og kvíðir fyrir því að geta ekki gefið börnunum sínum það sem hin börnin fá. Hann borgar þó alltaf stéttarfélagsgjöldin eins og stöndugi millistéttarmaðurinn. Munurinn er bara sá að sá stöndugi getur nýtt sér þá peninga sem stéttarfélagið setur í þessa þjónustu en láglaunamaðurinn ekki. Enn og aftur er láglaunamaðurinn að borga undir dekur og spa fyrir stönduga millistéttarmanninn. Aftur er öllu snúið á haus.
Verkalýðshreyfingin missti alveg sjónar á tilgangi sínum fyrir einhverjum áratugum síðan. Sem betur fer má segja að endurreisn hreyfingarinnar sé hafin með nýrri stjórn í Eflingu og samstarfi þess félags við Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn á Húsavík. Vonandi verður þetta til þess að verkalýðshreyfingin á Íslandi finni aftur sinn rétta tilgang, að bæta kjör alþýðunnar í landinu þannig að allir geti lifað góðu lífi og með reisn.
Verkalýðshreyfingin er mjög rík og miklu betur stæð heldur en flesta grunar. Það er til nóg að peningum til að heyja kröftuga baráttu fyrir bættum hag þeirra sem minnst hafa. Og baráttu fyrir stórauknum réttindum launafólks í samskiptum við atvinnurekendur á vinnumarkaði. Launafólk á að geta setið augliti til auglitis og með höfuðið hátt á móti atvinnurekanda sínum og samið um kaup og kjör á jafnréttisgrunni. Samið um mannsæmandi laun, hluta í þeim arði sem fyrir vinnuna fæst og að starfsfólk sitji í stjórnum fyrirtækja. Það er kominn tími til að hætta að líta á það sem náttúrulögmál að atvinnurekendur hafi yfirburðastöðu á vinnumarkaði. Án launafólks kemst atvinnurekandinn ekki lönd né strönd.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og MA í atvinnulífsfræðum frá Háskóla Íslands.