Háttvirtur forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir.
Fyrir hönd óléttra kvenna sem eiga von á sér í febrúar 2019 hef ég þetta að segja.
Við eigum rétt á að fara í 12 vikna sónar núna á næstu dögum. Hvort sem við ákveðum að fara í hnakkaþyktarmælingu eða bara hinn venjulega sónar, þá viljum við fá staðfestingu á því hvort það sé í lagi með börnin okkar eða ekki.
Ég hef hlakkað til að komast yfir 12 vikna hjallann og geta sagt börnunum mínum að þau eigi von á litlu systkini. Hætt að fela bumbuna sem er farin að myndast og verið viss um það að krílið sé að dafna rétt og vel.
Ég hef beðið með eftirvæntingu eftir mánudeginum 23. Júlí, því þá á ég tíma í 12 vikna sónarinn. En ég er full kvíða núna, fósturgreiningardeild lokar akkurat þennan dag! Ég fæ ekki að vita hvort það sé í lagi með barnið mitt fyrr en í 20 vikna sónar. Þá er orðið ansi seint í rassinn gripið ef eitthvað reynist vera að, ég tala nú ekki um ef um fósturlát er að ræða.
Ég ber fulla virðingu fyrir því að ljósmæðurnar sem sinna ómskoðunum þurfi að ganga í önnur störf á fæðingar og sængurlegudeildum núna. Það er skiljanlegt. Það er bara alls ekki skiljanlegt að þessi staða sé eins og hún er. Að þær þurfi að loka fyrir sónar svo börn geti fæðst örugglega í þennan heim!
Þetta er ósanngjarnt og asnalegt og ég bið þig Katrín, ásamt öðrum ráðamönnum að endurskoða hugsanagang ykkar og semja STRAX við ljósmæður. Ekkert foreldri á að þurfa að vera stressað fyrir fæðingu barna sinna, vegna þess að ekki eru nógu margar ljósmæður á vakt. Og ekkert foreldri á að þurfa að bíða í von og óvon með að vita hvort barnið í bumbunni sé heilbrigt, eða jafnvel á lífi!
Með von í hjarta, Bumbulína.