Innanríkisráðherra Danmerkur segir á FB síðu sinni: „Þegar þú neitar að hlusta á eða starfa með lýðræðislega kjörnum fulltrúa, þá ert þú að hunsa þær þúsundir kjósenda sem kusu viðkomandi. Það er undarleg leið til þess að sýna að sumar skoðanir eru réttari en aðrar.“
Det hører ganske enkelt ingen steder hjemme, at medlemmer af det islandske parlament udvandrede, da Pia Kjærsgaard, som...
Posted by Inger Støjberg on Thursday, July 19, 2018Auglýsing
Til að byrja með skulum við hafa eitt á algerlega hreinu. Auðvitað eru sumar skoðanir réttari en aðrar. Það er merki um stórkostlega blindu að halda því fram að allar skoðanir séu jafn réttar. Sem öfgadæmi um það má benda á að Hitler hafði ákveðnar skoðanir. Mjög rangar skoðanir. Það eitt ætti að vera nóg til þess að sýna fram á að sumar skoðanir eru vissulega rangari en aðrar. Það má kannski segja sem svo að það eru fáar skoðanir rangari en skoðanir Hitlers.
Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um stjórnmálaskoðanir Piu Kjærsgaard. Það er til dæmis alveg nóg að benda á að hæstarétti Danmerkur þótti eðlilegt að hún væri kölluð rasisti (kynþáttahatari samkvæmt íslenskri þýðingu, en ég ætla að nota orðið rasisti í þessari grein). Það eitt og sér ætti að kveikja á varúðarbjöllum hjá okkur öllum. Rasismi er ekkert grín. Afleiðingar rasískrar stefnu hafa verið hörmulegar í gegnum aldirnar.
Hér er rétt að benda á að fordómar eru ekki endilega slæmir. Fordómar eru bara ákveðin varúðarviðbrögð gagnvart hinu óþekkta og eiga rætur sínar að rekja í flóttaviðbrögð sem eru flestum dýrum eðlislæg. Hvernig fólk tjáir eða bregst við fordómum sínum getur hins vegar valdið skaða. Rasismi er ein útgáfan af slíkum viðbrögðum. Það er ekki hægt að skilgreina sig sem vægan rasista eða „nei ég meina þetta ekki þannig“. Rasismi er mismunun á grundvelli kynþáttar vegna skoðana um að eigin kynþáttur sé á einhvern hátt betri. Þetta kristallast í ummælum Piu um múslíma sem ljúga, svíkja og pretta.
Einhverjum gæti dottið í hug að segja að múslímar séu ekki kynþáttur og þar af leiðandi sé ekki um rasisma að ræða. Það er alveg rétt, þar er í raun um útlendingahatur (e. xenophobia) að ræða. Þýðingin er ekki alveg nákvæm en hún er nægilega nákvæm fyrir tilgang þessarar greinar. Það eina sem það þýðir er að Pia er bæði kynþáttahatari og útlendingahatari.
Viðbrögðin við mótmælum Pírata um að Piu Kjærsgaard skyldi eiga halda ræðu á þingfundi voru fyrirsjáanleg. Persónulausan embættistitil var notaður sem varnarskjöldur fyrir rasískar stjórnmálaskoðanir, það var sagt að það væri rangt að gagnrýna embættið. Þannig var afsökunarbeiðni forseta Alþingis og ummæli fjármálaráðherra og utanríkisráðherra Íslands, óheiðarleg skrumskæling á mótmælunum. Mótmælin snúast að skoðunum stjórnmálamannsins, hversu hættulegar þær skoðanir eru og hvaða vettvangi þeim er gefin. Ef það má ekki gagnrýna skoðanir stjórnmálamannsins Piu af því að hún er hérna í krafti embættis síns, hvað segir það þá um embættið þegar það telur mig og aðra þingmenn Pírata eiga við kynþroskavandamál að stríða? Eða var það stjórnmálamaðurinn Pia sem sagði það? Ef það var stjórnmálamaðurinn þá er það bara í fína lagi, hennar skoðun … hversu rétt eða röng sú skoðun er.
Til þess að segja það eins skýrt og ég mögulega get, þetta eru rangar skoðanir. Það eru nokkurn veginn allar aðrar skoðanir um mannlegt samfélag réttari en þær sem styðja kynþáttahatur og útlendingahatur. Það skiptir máli að segja að þetta séu rangar skoðanir. Það skiptir líka máli að segja af hverju þetta eru rangar skoðanir. Þar ætti að vera nóg að benda á dæmi úr sögunni. Þau eru ekkert svo fjarri okkur og að taka undir þær skoðanir er rangt. Aðskilnaðarstefnan í suður-Afríku, aðskilnaðarstefna í Ísrael, þrælahald fyrri tíma í Bandaríkjunum, og núverandi mansal víða um heim. Erdogan í Tyrklandi, Duderte á Filipseyjum, Trump í Bandaríkjunum, Pútín í Rússlandi og fleiri og fleiri. Við höfum alveg séð hvaða afleiðingar aðskilnaðarstefna hefur og við eigum ekki að stefna í þá átt. Við eigum að stefna í hina áttina. Kannski var það það sem gerðist víða í Evrópu, það var farið of langt í hina áttina því vissulega er hægt að finna öfgar í allar áttir. Viðbrögðin við því mega hins vegar aldrei vera að fara aftur í átt að aðskilnaðarstefnu.
Það er ekkert rangt að óttast hið ókunna. Óttinn er okkur eðlislægur. Það er hvernig og hvert við beinum þessum ótta sem skiptir máli. Það er ekkert rangt við hræðsluna. Það er rangt að nota hana í rasískum tilgangi. Það er rangt að ala á ótta fólks til þess að öðlast völd. Það er rangt að beita þeim völdum til þess að mismuna fólki. Það er rangt að kenna kjósendum um því misnotkun stjórnmálamanna á ótta fólks er á ábyrgð þeirra sem beita hræðsluáróðrinum. Það er rétt og nauðsynlegt að mótmæla slíkri misnotkun á valdi. Það er því mjög mikilvægt fyrir stjórnmálamenn sem taka stefnumótandi ákvarðanir um þetta í opinberri umræðu að forðast þá freistni að nota ótta fólks til þess eins að ná völdum. Það er nauðsynlegt að andmæla rasisma og þeim sem beita hræðsluáróðri til þess að kynda undir rasisma. Hvað annað er í boði? Þegja? Það er ekkert annað val. Annað hvort mótmælir maður, þegir eða tekur undir. Ég vel að mótmæla.