Biskup Íslands, dómsmálaráðherra, vígslubiskupar, góðir áheyrendur.
Að vera eitt hundrað ára, eins og fullveldið, er ekki hár aldur. Það eru liðin rúm eitt þúsund ár frá fæðingu fyrsta biskups Íslands, Ísleifs Gissurarsonar, sem sat hér í Skálholti, þeim stað sem var í reynd höfuðstaður landsins og væri það enn ef hafnarskilyrðin væru betri hér við ströndina.
Við það að halda upp á afmæli fullveldis einnar þjóðar vakna ýmsar spurningar. Er mannkynið fullvalda þótt margar þjóðir séu það? Í fullveldi felst að ráða sér sjálfur og við gerðum það frá 874 til 1262 og svo í þremur skrefum á 20. öld, 1904, 1918 og 1944. Þá réðum við okkur sjálf. En ræður mannkynið sér sjálft? Það búa 7,6 milljarðar á jörðinni og þrír milljarðar af þeim þjást af hungri eða glíma við afleiðingar fæðuskorts. Það fólk ræður sér ekki sjálft. Lífsbarátta þess fer í að lifa af, oft frá degi til dags.
Maðurinn í okkar mynd er um 200 þúsund ára en fyrir aðeins 2000 árum lifði Jesús Kristur á jörðinni og talaði fyrir þeim boðskap sem hér á þessum stað á sér sitt óðal. Það er ekki langt síðan. Í byrjun 20. aldar þegar faðir minn fæddist voru jarðarbúar 1,6 milljarðar. Þeim hefur fjölgað um 6 milljarða síðan. Þetta eru óraunverulegar tölur og hugsanlega hefur fullveldi mannkynsins aldrei verið eins langt frá okkur og nú.
Við erum að eyðileggja náttúru jarðar, guðs gjöf. Við drepum samborgara okkar með vopnum í meira mæli en nokkurn tíma fyrr og flestum stendur á sama. Mannslífið hefur aldrei verið jafn lítils virði og nú á tímum. Um 500 þúsund manns hafa verið drepnir í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi sem hefur staðið í átta ár. Fyrir tæpum 25 árum var ein milljón manns drepin á þremur mánuðum í Rúanda og heimurinn stóð aðgerðalaus hjá.
„Þar saug Niðhöggur
nái framgengna,
sleit vargur vera.
Vituð ér enn – eða hvað?“ (Völuspá 39).
Lífið er ekki tilgangslaust. Vitaskuld eru sköpunin, þróunin, vísindi, framfarir og mannlegt líf með tilgang. Þróun er tilgangur í eðli sínu. En höfum við vald, fullveldi, í okkar umhverfi? Það er hægt að ná því en það er ekki öruggt að við á þessari jörð getum það. Jörðin getur hins vegar hæglega lifað án mannanna.
Það er verðugt verkefni að stuðla að fullveldi mannkyns, en hvernig gerum við það? Við getum fundið svarið á þessum stað og litið til boðskaps þess manns sem fyrir um tvö þúsund árum prédikaði kærleika gagnvart náunganum. Það er hægt að öðlast fullveldi með náungakærleika. Ef við hugsum ekki um náungann eins og okkur sjálf þá náum við aldrei valdi á samskiptum manna. Það þarf ekki að vera kristinn til að feta þessa leið.
Flest, ef ekki öll trúarbrögð, boða náungakærleika en okkur sést oft yfir það. Það er sameiginlegur þráður hjá flestum þjóðum, flestum mönnum og í nær öllum trúarbrögðum. Sá þráður er væntumþykja og umhyggja gagnvart öðrum og það er æskileg hegðun. Nú er svo komið að þessi hegðun er ekki aðeins æskileg heldur er hún lífsnauðsynleg. Annars lifir mannkynið ekki af á þessari jörð og þá höfum við lifað án tilgangs. Það er dauðsyndin og hún er endanleg.
Að boða kærleika gagnvart öðrum er eina markmiðið sem er einhvers virði. „Því að hvað mun það stoða manninn, þótt hann eignist allan heiminn, en fyrirgjöri sálu sinni?“ (Matteus 16.26). En það er ekki auðvelt að tileinka sér kærleika. „Kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu, vinnur allt, umber allt.“ (1. Korintubréf 13.7). Þessi boðskapur er undirstaða hinnar tvö þúsund ára trúar okkar og fjölmargra annarra, sem aðhyllast önnur trúarbrögð, eða jafnvel engin. Þetta er leiðarvísirinn. Það þarf ekkert að hafa guð í þeirri leiðarlýsingu frekar en menn vilja.
Guð er ekki vandamál og hefur aldrei verið það en vandamálið er að við erum komin að endimörkum hins byggilega heims. Við höfum aldrei verið jafn mörg á jörðinni, aldrei notið meiri velmegunar, það er að segja að meðaltali, og aldrei ráðið yfir jafn mörgum verkfærum og vísindum í sögu mannsins. Við ráðum líka yfir mesta vopnabúri allra tíma og eyðum stórfé í vopnabúnað, sem við gætum varið í baráttu gegn fátækt og misskiptingu. Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er að vopn sem til eru verða notuð. Þessi vopn drepa þó ekki aðeins fólk, heldur geta þau eytt lífsskilyrðum jarðarinnar. Í þeim sporum höfum við ekki staðið áður.
Ef við viljum hugsa um leiðina að fullveldi mannsins þá eigum við að minnast allra leiðarsteinanna á þeirri vegferð. Eitt áhrifamesta tækið var hið ritaða mál. Jóhann Gutenberg ruddi ekki aðeins brautina fyrir öll vísindi nútímans heldur gerði hann þessa kirkjudeild okkar mögulega, hina evangelisku kirkju. Án prentlistarinnar hefðu siðaskiptin aldrei gerst og margt fleira hefði aldrei litið dagsins ljós. Fyrir okkur Íslendinga, sem fögnum fullveldisafmæli þjóðarinnar, hefði þjóðin ekki lifað, ef ekki hefði verið fyrir hið ritaða mál. Ari fróði skrifaði á íslensku, Oddur Einarsson þýddi Nýja testamentið á íslensku og Guðbrandur Þorláksson prentaði trúarritin, þar með talið þýðingu Odds, alla sína löngu biskupstíð.
Ef Ari, Oddur og Guðbrandur hefðu ekki unnið sín verk eins og þeir gerðu hefði íslenskan ekki lifað og þjóðin hefði horfið inn í aðrar þjóðir. Við gleymum því oft að það er ekki sjálfsagt að við Íslendingar, nú aðeins 350 þúsund, séum enn sjálfstæð þjóð. Við verðum að vita hverju það er að þakka og við verðum að berjast fyrir sjálfstæðinu. Það er okkar litli tilgangur og við eigum að vera hinu litla trú.
Ég tel, og er ekki einn um það, að tungumálið, íslenskan, og ritlistin, bækur og kvæði, hafi gert okkur að þjóð sem varðveitti menningu sína í tæp 1.200 ár, á tíma þegar slíkt var alls ekki sjálfgefið.
Norðmenn eiga ekki slík verk sem hér voru skrifuð og þar dafnaði ekki þessi áhugi og ekki heldur á öðrum Norðurlöndum. Sagnfræðinni voru þó gerð góð skil í Danmörku af Saxo Grammaticus hinum fróða eða málspaka en hann var samtíðarmaður Snorra Sturlusonar. Saxo skrifaði á latínu, meðal annars Danmerkursögu sína.
Norrænar þjóðir, ásamt Engilsöxum og Söxum, skráðu nokkuð á þjóðtungum sínum um 1100 fram á 13. öld en mest varðaði það trúarlegt efni og lög og varð ekki eign alþýðu eins og hér. Þjóðtungur Dana og Svía urðu einnig fyrir áhrifum frá þýsku og hjá Norðmönnum varð danskan rit- eða bókmálið.
Íslendingar prentuðu tiltölulega einsleitt efni frá síðari hluta 16. aldar og fram á síðari hluta 18. aldar, eða aðallega rit trúarlegs eðlis. Brynjólfur Sveinsson var biskup í Skálholti um miðja 17. öld og hafði hann mikinn áhuga á því að hafa prentsmiðju í Skálholti til mótvægis við prentsmiðjuna á Hólum. Hans hugur stóð einkum til þess að gefa út veraldleg rit, eins og Íslendingasögur og annað sögulegt efni. Brynjólfur fékk leyfi til þess en það var síðar dregið til baka af höfuðsmanni konungs hérlendis þannig að ekki varð af útgáfu Brynjólfs biskups.
Áhuginn á ritun hér á landi smitaði út frá sér. Því fleiri sem skrifuðu sögur, þætti, kvæði og konungasögur því meira kveikti það áhuga annarra og enn fleiri fóru að sinna þessu. Þannig margfaldaðist uppskeran í góðum jarðvegi. Þegar pappírinn kom voru bækur afritaðar á heimilum manna í stórum stíl, til dæmis rímur.
Nú háttar svo til hér í Skálholti að við erum með bautastein þessarar sögu. Bókasafnið sem er geymt að mestu leyti í turni Skálholtskirkju á sér merka sögu. Það er að stofni til hið þekkta bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns. Þorsteinn safnaði bókum af mikilli alúð nær alla sína ævi. Hann seldi safnið Kára B. Helgasyni kaupmanni í Reykjavík árið 1962.
Kári bætti við safnið áður en hann seldi það kirkjunni. Séra Sigurbjörn Einarsson biskup, merkasti kirkjunnar maður á 20. öld, hafði forgöngu um að safnið væri keypt árið 1965 til Skálholts fyrir rúmum 50 árum, meðal annars til að það færi ekki úr landi. Þá hafði séra Sigurbjörn ekki hvað síst sögu og mikilvægi Skálholts í huga.
Safninu hefur verið sýnd lítill virðing. Það hefur verið geymt í meira en hálfa öld í kirkjuturninum. Sú saga er kirkjunni ekki til sóma og er þar vægt til orða tekið. Hvað á að gera við bókasafnið? Það ætti að gera góðar bækur, sem tengjast Skálholti og trúnni, aðgengilegar og setja hér upp góða sýningaraðstöðu. Selja síðan aðrar bækur bókasafnsins og hugsa vel um þær bækur sem hér eru varðveittar.
Þessi stefna snýst um að sýna bókunum og sögunni virðingu. Það hefur ekki verið gert í rúm 50 ár. Auðvelt er að skipta safninu. Bókasafnið er gott en það er tvískipt. Annars vegar er það lesbókasafn eða bækur sem teljast ekki til fágætis. Hins vegar eru fágætisbækur sem eiga að vera til sýnis fyrir almenning.
Við varðveitum ekki fullveldið ef við sýnum bókum ekki sóma og kunnum ekki íslensku. Rannsókn í þrjátíu og fimm löndum sýnir að fjórði hver nemandi hérlendis les aldrei bók sér til ánægju. Í nágrannalöndunum er þetta hlutfall lægra. Í fjölþjóðlegum könnunum eru íslenskir nemendur undir meðaltali OECD í náttúruvísindum, í stærðfræði og í lesskilningi.
Lesskilningur á Íslandi er sá lakasti á Norðurlöndum. Undanfarin ár hefur staða Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar batnað en versnað á Íslandi á sama tíma. Niðurstaðan í mörgum fjölþjóðlegum könnunum um lestur í samburði við aðrar þjóðir er grafalvarleg. Hins vegar eru þessar kannanir aðeins frétt í einn eða tvo daga og svo er þetta gleymt. Það er því miður ekki áhugi á úrbótum á þessu sviði og alls ekki meðal stjórnmálamanna. Íslenskan er í hættu, en flestum er sama. Áhugaleysið á varðveislu tungumálsins er óskiljanlegt hjá þessari fámennu þjóð sem á þó glæsta sögu með þessu tungumáli. Í vaxandi mæli flyst ungt fólk til útlanda, ekki aðeins til að sækja sér tímabundna menntun, heldur til að setjast þar að. Hvernig tökumst við á við það?
Til að tryggja fullveldi þarf auðvitað að geta varðveitt eigið tungumál. Setjum það okkur sem leiðarsljós og sýnum öðrum kærleika. „Allt, sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ (Matteus 7.12). Það þarf ekki einu sinni að leita trúarbragðanna fyrir slíkri hegðun. „Hagaðu þér eins og þú vilt að aðrir hagi sér við sömu aðstæður“ (siðaboð Kant).
Það er svo merkilegt að við getum vel ímyndað okkur kærleikann hjá okkar nánustu. Næstu 50 árin mun þjóðinni fjölga um 100 þúsund manns og verða 75 þúsund þeirra eða þrír af hverjum fjórum 65 ára og eldri. Eldri borgarar eru nú 50 þúsund hérlendis en verða 125 þúsund eftir tæp 50 ár. Hvernig ætlum við að hugsa um það fólk, þegar við getum ekki einu sinni sinnt eldra fólki nú með hjúkrunarheimilum, læknishjálp og öðru? Hvað ætlar kirkjan að gera? Sáralítil umræða er um þessa staðreynd, hvort sem er innan samfélagsins eða kirkjunnar sérstaklega. Fáir gera sér grein fyrir að óhemju kostnaður fellur til vegna þessara óhjákvæmilegu lýðfræðilegu breytinga. Heilbrigðiskostnaður hvers eldri borgara er fjórum sinnum hærri en annarra og fyrir hvern einstakling sem er yfir 85 ára er heilbrigðiskostnaðurinn meira að segja 11 sinnum hærri.
Ef til vill er lausnin sú að við önnumst meira eldra fólk sjálf innan fjölskyldna eins og við gerðum áður fyrr þegar eldra fólk bjó með fjölskyldu sinni þar til það dó. Halldór Kiljan Laxness sagði að „kör hefur verið ein mikilsverðust þjóðfélagsstofnun á Íslandi frá því land byggðist“ (Innansveitarkroníka). Ef til vill sjáum við það aftur eða hvernig ætlum við að leysa þetta stærsta vandamál framtíðarinnar? Engin svör hafa fengist en spurningunni er þó að minnsta kosti varpað fram og á réttum stað, í hinni heilögu kirkju Skálholts, miðstöð trúariðkunar og seturs fyrsta biskups Íslendinga. Hér á kirkjan að taka forystu til verndar eldri borgurum og af umhyggju og kærleika. Þið sjáið, ágætu áheyrendur, að lausnin hverfist enn og aftur um hugtakið náungakærleika.
Hverjum stendur næst að leiða þau sinnaskipti hérlendis og erlendis? Auðvitað trúarhreyfingum, hvort sem það eru siðaskiptamenn, kaþólikkar, áhangendur Íslams eða Búdda eða einfaldlega þeir sem aðhyllast ekki trú en bera velvild og gæsku í hjarta sér. Það þarf ekki merkimiða í baráttu fyrir kærleika. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“ (Matteus 25.40).
Margt er að breytast. Vélmenni munu yfirtaka störf, fólki fjölgar í Asíu og Afríku og mestu vísindalegu framfarir sögunnar munu sjá dagsins ljós á næstu árum, meðal annars í erfðavísindum og gervigreind.
Það er talið að um 40 milljón manns séu nú þrælar í heiminum þótt það sé alls staðar bannað. Það voru 25 milljón þrælar fyrir 150 árum þegar þrælahald var leyfilegt. Fólki hefur að vísu fjölgað en á þessu sést ekki mikil aukning á kristilegu umburðarlyndi.
Við höfum hlutverki að gegna og verðum að vanda okkur, fámenn þjóð, sem á erfitt með að manna innviði nútímasamfélags, einmitt vegna fámennis. Við horfum upp á minnkandi stuðning við þjóðkirkjuna. Árið 1998 voru 90% þjóðarinnar í þjóðkirkjunni. Nú eru það 67%. Þeim hefur fækkað um fjórðung á 20 árum. Hvenær hrekkur kirkjan við? Þegar hlutfallið er orðið 50%, eða hvað? En þá er kirkjan ekki þjóðkirkja lengur. Hvar er frumkvæði kirkjunnar hérlendis í málefnum barna, barnaheimila, hjúkrunarrýma og aðstoð við útigangsfólk? Jú, það er til, en er lítið og minna en hjá trúfélögum í öðrum löndum. Hér þarf íslenska kirkjan að taka sér tak. Kirkjan á að ganga á undan með góðu fordæmi, hafa forystu um úrbætur og fara af stalli sjálfhverfu.
„Ár skal rísa
sá er á yrkjendur fá
og ganga síns verka á vit“ (Hávamál 59).
Það eru ótal verkefni framundan og margt bendir til þess að öfgahyggja sé að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum en einnig hjá okkur. Það gerðist síðast í Evrópu fyrir 100 árum, einmitt á fyrstu árum fullveldis okkar. Það endaði með skelfingu á fjórða áratug síðustu aldar. Það ber því margt að varast og breytingar eru svo örar að við vitum minna en áður hvernig á að bregðast við. Þess vegna skulum við leita svara í kærleika og umhyggju. Það er eina leiðin fram á við. Göngum þá vegferð saman.
Þakka ykkur fyrir.
Höfundur er prófessor emeritus, fyrrverandi alþingismaður og rektor og flutti þessa hátíðarræðu á Skálholtshátíð 22. júlí 2018.