Aðra eins sneypuför hefur bandarískur forseti ekki farið og sennilega vill Donald Trump gleyma því sem fyrst að hann hafi farið til Helsinki að hitta forseta Rússlands, Vladimír Pútín.
Þetta vara leynifundur og á honum sátu bara þeir tveir, Pútín og Trump og túlkar þeirra. Engir punktar voru færðir eða neitt viðhaft sem kallast mætti skrásetning á efni og samræðu forsetanna. Það er því hægt að segja að þetta hafi hreinlega verið leynimakk.
Enda hefur Trump nánast ekki sagt neitt frá því hvað hann ræddi við Pútín, það sem kallast mætti alvöru innihald; töluðu þeir um fótbolta, veðrið, Sýrland, mannréttindi, Úkraínu, Krímskaga, viðskiptahindranir eða Kína? Eða sögðu þeir bara hvor öðrum brandara í tvo tíma og skiptust á kjaftasögum?
Engin afskipti af kosningum og síðan viðsnúningur
Á fréttamannafundi eftir leynifundinn sagði reyndar Trump að Rússar hefðu ekkert skipt sér af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016, en það er alger andstæða þess sem allar helstu öryggisstofnanir Bandaríkjanna hafa komist að og meira að segja er búið að ákæra tugi Rússa fyrir aðild þeirra að skipulögðum aðgerðum Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar. Nýlega birti sérstakur saksóknari í málinu, repúblíkaninn Robert Mueller nýjar ákærur gegn rússneskum ríkisborgurum. Í staðinn bauðst Trump til þess að færa Pútín bandaríska ríkisborgara til yfirheyrslu, meðal annars fyrrum sendiherra landsins í Moskvu, Michael McFaul. Þykir þetta fáheyrt tilboð af hendi forseta Bandaríkjanna.
Daginn eftir (sennilega þegar ráðgjafar Trump höfðu náð að tala við hann) reyndi Trump svo með afspyrnu klaufalegum hætti að snúa þessu við og segja að um orðarugl og mismæli hafi verið að ræða. Jafn hallærislegt og í raun barnalegt athæfi hefur varla sést til forseta Bandaríkjanna og þess aðila sem í augum heimsins er „leiðtogi hins frjálsa heims“. Enda má sjá á líkamsburðum Trump við þessa yfirlýsingu að hann er í mikilli vörn, með krosslagaðar hendur.
FOX-menn í erfiðleikum
Viðbrögð vestanhafs verið í samræmi við þetta. Meira að segja gallhörðustu stuðningsmenn hans á meðal starfsmanna FOX-sjónvarpstöðvarinnar (sem er einskonar ,„málgagn“ Trump) og valdamiklir aðilar úr röðum Repúblíkana hafa lýst yfir vonbrigðum og jafnvel frati á frammistöðu Trump í Helsinki. Sama segja skoðanakannanir, en í sameiginlegri könnun frá sjónvarpsstöðinni ABC og Washington Post var helmingjur aðspurðra óánægður með frammistöðu Trump eftir fundinn.
En sá sem brosir kampakátur er Vladimír Pútín, enda segir sagan að í Kreml hafi verið skálað í kampavíni að fundi loknum. Reyndar er sagt að Pútín sé lítið fyrir áfengi, nema helst einstaka bjór, sem sagt er að hann hafi lært að drekka í árum sínum sem KBG-maður í Dresden (þá Austur-Þýskalandi). En ástæðu hafði hann til að gleðjast, því segja má að júdó-kappinn Pútín hafi tekið Trump á „ippon“ (fullnaðarsigri) í Helsinki.
Pútín vildi að Trump ynni kosningarnar
Það markverðasta sem komið hefur frá Pútín eftir fundinn er að hann hafi óskað sér að Trump hafi unnið kosningarnar og jafnvel stutt hann í því (svar við spurningu fréttamanns Reuters). Á fréttamannafundinum fór Pútin þó í upphafi yfir nokkur atriði sem þeir eiga að hafa rætt, án þess að fara út í smáatriði. Til dæmis sameiginlega baráttu gegn hryðjuverkum, afvopnun, bann við vopnum í geimnum og efnhagslega samvinnu landanna. Ekkert af þessu er í raun nýtt, nema ef til vill það síðasta. Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov lýsti fundinum sem „frábærum“ og „betri en súper“. Bandarískur starfsbróðir hans, Mike Pompeio, hefur lítið tjáð sig um fundinn svo haldbært sé.
„Bandaríkin hegðuðu sér kjánalega“
Á fréttamannafundinum lýsti Donald Trump því yfir að það væri „báðum ríkjum að kenna“ að Rússar hefðu skipt sér af forsetakosningunum árið 2016. Hann sagði að Bandaríkin hefðu hegðað sér „kjánalega“ í málinu og að „þetta væri okkur öllum að kenna.“ Ekki er vitað til þess að bandarískur forseti hafi gefið frá sér slíka yfirlýsingu og verður það að teljast afar sérkennilegt að forseti landsins látið slík orð falla. Fréttaskýrendur hafa túlkað þessi orð sem gríðarlegt veikleikamerki og á vefsíðu Foreign Policy er hreinlega fullyrt að Trump hafi haft öryggisstofnanir Bandríkjanna að fíflum, að hann hafi því í raun gjaldfellt Bandaríkin sem ríki. Meðal fjölmargra aðila í stjórnkerfinu hefur þetta valdið umtalsverðri gremju og menn almennt hissa á framferði Trumps, sem fór að því að best er vitað nánast óundirbúinn á fundinn. Hann hefur sagt að það sé ekki „hans stíll“ að fara undirbúinn á svona fundi!
Þegar á heildina er litið verður Pútín að teljast sigurvegari fundarins (í viðbót við Kim Jong Un) og sumir halda því fram að hann hafi hreinlega eitthvað á Trump, það sem á rússnesku er kallað „kompromat.“ Mjög frægt dæmi frá Rússlandi er mál með fyrrum ríkissaksóknara að nafni Skuratov í kringum árið 2000, sem var tekinn upp á myndband í viðurvist tveggja „vinkvenna“ á hótelherbergi. Myndbandið var sýnt í ríkissjónvarpi Rússlands. Skuratov var að rannsaka mögulega spillingu í kringum Boris Jeltsín, fyrsta forseta Rússlands og forvera Pútíns, þegar málið kom upp. Boris Jeltsín hefur aldrei verið ákærður fyrir spillingu og eitt af fyrstu verkum Pútíns, þegar hann tók við af Jeltsín var að koma í veg fyrir slíkt.
En heima fyrir þarf Pútín ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þurfa að svara erfiðum spurningum frá óháðum fréttamönnum, því nánast engu slíku er að dreifa lengur í Rússlandi, þar sem allir helstu fjölmiðlar landsins eru undir beinni eða óbeinni stjórn Kreml og Pútíns. Í Bandaríkjunum er þó ástandið (að minnsta kosti) ennþá þannig að óháðir fréttamenn geta spurt eðlilegra spurninga. Þrátt fyrir stöðugar árásir Trumps á ákveðna fjölmiðla sem hann kalla „óvini fólksins.“
Heimboð í Hvíta húsið í haust
Eftir Helsinki klikkti svo Trump út með því að bjóða Vladimír Pútín í opinbera heimsókn til Washington seinna á árinu, fyrir bandarísku þingkosningarnar sem fram fara í nóvember. Svo réðist hann á Íran á Twitter og hótaði landinu öllu illu, til að reyna að dreifa athyglinni frá vondri frammistöðu sinni í Helskini og í kjölfar fundarins.
Heimboðið kom áhrifamönnum og „innsta hring“ Trumps í opna skjöldu og yfirmaður þjóðaröryggismála Bandaríkjanna, Dan Coats (repúblíkani, tilefndur af Trump) frétti af þessu í beinnu útsendingu og varð yfir sig hissa. Það er meðal annars hlutverk Coats að sjá forsetanum fyrir daglegum upplýsingum um þjóðaröryggismál („presidential daily brief“) um þjóðarörygismál, sem safnað er frá 16 mismunandi öryggistofnunum landsins. Hann var sem sagt ekki hafður með í ráðum, þegar Trump tók ákvörðun um að bjóða Pútín í Hvíta húsið. „Það verður eitthvað,“ sagði Dan Coats í viðtalinu.
Eftir Helsinki-fundinn hefur í grundvallaratriðum lítið breyst í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands. Mörgum spurningum er ósvarað, en kjósi Pútín að samþykkja heimboð Trumps og fari Trump inn á þann fund undirbúinn og með einhver alvöru markmið og einhverja alvöru dagskrá þá kemur kannski eitthvað af viti út úr honum. Þá gætu samskipti ríkjanna mögulega batnað, en þau hafa verið ísköld árum saman. Það gæti því orðið „eitthvað“ - en á eftir að koma í ljós.
Uppfært: Skömmu eftir að greinin birstist var tilkynnt að fyrirhugaður fundur Trumps og Pútín verði ekki fyrir þingkosningarnar í haust og mögulega ekki fyrr en á næsta ári. Þetta var gert vegna mótmæla þingmanna beggja flokka á bandaríska þinginu.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði frá Austur-Evrópudeild Uppsalaháskóla í Svíþjóð.