„Ég hrekk up með óp á vörunum. Svitaperlurnar renna niður ennið á mér. Ég finn að gamalkunnu þyngslin yfir brjóstinu eru þarna enn. Ég drösla mér frammúr til að hella uppá rótsterkt kaffi og hlusta á fréttirnar, en get engan veginn einbeitt mér að því sem verið er að segja. Í vinnunni á ég erfitt með að sinna verkefnum dagsins vegna þess að kvíðahnúturinn í maganum heimtar stanslausa athygli. Örmagna kem ég heim og leggst fyrir í von um að geta sofið þetta úr mér. En í staðinn fyrir að sofna byltist ég um og hugsanirnar eru á fleygiferð. Bráðnandi ísjakar, skógareldar sem geisa, risavaxnar flóðbylgjur og börn sem eru að kafna úr kolaryki. Undir morgun næ ég loksins að festa svefn en sef laust. Í morgunsárinu hrekk ég upp með óp á vörunum og hringrásin heldur áfram.“
Í málsgreininni hér að ofan reyndi ég að setja mig í spor einstaklings sem er með loftlagskvíða í fullu samræmi við hversu alvarleg loftlagsröskunin er. Slíkur einstaklingur hættir ekki að vera með loftlagskvíða þó að upp renni nýr dagur, þótt besta vinkonan eigi afmæli eða þótt ljósmæður fari í verkfall. Loftlagsröskunin er stöðugt til staðar, alltaf alvarleg, og því sleppir kvíðinn ekki.
Þrátt fyrir að ég hafi hitt margskonar fólk í sambandi við fyrirlestra mína um hinar sálfræðilegu hliðar loftlagsmála, þá hef ég ekki enn hitt einstakling sem fellur að þessari lýsingu. Ég hef vissulega hitt fólk sem er illa haldið af loftlagskvíða. Fólk með krónískt samviskubit yfir vistspori sínu, og fólk sem er kulnað eftir að hafa gefið allt í loftlagsbaráttu. Samt sem áður er það sjaldgæft að fólk sé með linnulausar áhyggjur af loftlagsröskuninni. Í staðinn virðast flestir hafa áhyggjur af loftlagsmálum endrum og sinnum. Kannski rétt á eftir að hafa lesið ömurlega lýsingu af því hvernig manneskjan eyðileggur lífríki sitt. Svo á tilfinningin það til að líða hjá. Hvernig stendur á því? Er einhver ástæða til þess að hætta nokkurntíma að hafa áhyggjur af því að við höfum með neyslu okkar, umsvifum og offorsi raskað loftslaginu þannig það ógnar lífi okkar á jörðinni?
Takmörkuð áhyggjulaug
Þrátt fyrir að vísindamenn verði sífellt sannfærðari um að manneskjan hafi raskað loftslaginu á jörðinni og að afleiðingarnar séu alvarlegar, þá benda ýmsar rannsóknir til þess að almenningur telji að viðvaranirnar vísindamanna séu ýktar. Í kerfisbundinni yfirlitsgrein sem skoðaði mælingar á viðhorfum til loftlagsbreytinga frá árunum 1980 til 2014 komust greinahöfundar að þeirri niðurstöðu að undir lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar hafi tortryggni almennings gagnvart loftlagsrannsóknum tekið að aukast. Ein af skýringunum er talin vera sú að við höfum ekki til að bera nema takmarkaða áhyggjulaug. Það þýðir að þegar athygli okkar beinist af ákveðnu áhyggjuefni þá minnka áhyggjur okkar í öðrum málaflokkum á sama tíma. Sem dæmi má nefna að tilhneiging bandarísks almennings að forgangsraða umhverfismálum sveiflast í takt við atvinnuleysi í landinu. Ef mörgum vanntar vinnu, þá minnkar áhuginn á umhverfismálum.
Sé kenningin um takmarkaða áhyggjulaug rétt, getum við spurt okkur afhverju svo stór hluti af orðræðunni um loftlagsröskunina miðar að því að hræða fólk til aðgerða? Skilaboð á borð við - Það er nú eða aldrei! Við erum seinasta kynslóðin sem getur snúið við blaðinu!, heyrast oft í tengslum við loftlagsaðgerðir. En vegna þess hvað loftlagsmálin eru óræð og óáþreifanleg er ólíklegt að þau verði ofaná í samkeppninni um takmarkað áhyggjusvið okkar og athygli fólks til langs tíma. Þó að loftlagsáhyggjur almennings í Evrópu hafi líkast til aukist á þessu ári eftir óvenjulega heitt og þurrt sumar, er líklegt að þær áhyggjur lúti í lægra haldi um leið og efnahagsörðuleikar, stríð, flóttamenn, heilbrigðismál og skólamál heimta athyglina aftur.
En aðgerðarsinnar halda engu að síður áfram að hræða fólk með loftlagsröskunninni því þeir vita að hræðsla getur hrist upp í fólki og knúið það til aðgerða. Og þess getur vissulega stundum verið þörf. Mótmælaaðgerðir gegn ágengum, raskandi, og mengandi framkvæmdum eru mjög líklega knúnar áfram af tilfinningum eins og reiði, hræðslu og kvíða, og slíkar aðgerðir geta skilað mikilvægum árangri. Þessar tilfinningar eru mikilvægur hvati til þess að koma hlutunum í verk. Vandamálið er hins vegar að þessir hvatar krefjast mikillar orku. Eins og lýsingin í byrjun greinarinnar gaf til kynna verður sá sem hefur þrotlausar áhyggjur af loftslaginu að lokum örmagna. Neikvæðar tilfinningar fóstra þröngsýna hugsun, þar sem athyglin beinist fyrst og fremst að vandamálinu en allt nærliggjandi er úr fókus. Þess vegna henta neikvæðar tilfinningar best sem hvati til þess að leysa vel skilgreind vandamál. Þetta á mjög sjaldan við um úrlausnarefni tengd loftlagsröskuninni.
Víkka og byggja
Ef hræðsla hentar illa til að hvetja til loftlagsaðgerða, hvað er þá til ráða? Kannski er vandamálið ekki að koma okkur í gang, heldur að halda okkur gangandi. Markvissar aðgerðir í loftlagsmálum krefjast þolgæðis og festu. Til þess þurfum við að eiga orku til skiptana. Ólíkt neikvæðum tilfinningum þá fylla jákvæðar tilfinningar okkur af orku. Það er þess vegna sem þær henta betur sem hvati til að leysa úr erfiðum, flóknum og langvarandi vandamálum. Samkvæmt kenningunni um tilgang jákvæðra tilfinninga miða þær að því að víkka sjóndeildarhring okkar og byggja brýr. Við þurfum gleði til að safna orku, forvitni til þess að sjá nýjar lausnir, von sem gefur okkur háleit markmið, og stolt sem hvetur okkur til dáða. Jákvæðar tilfinningar hjálpa okkur að tengjast öðru fólki, og slíkar tengingar við vini, samfélagið okkar og önnur lönd, eru nauðsynlegar til þess að við getum unnið saman að því að draga úr loftlagsröskuninni. Væri það ekki reynandi að fjölmiðlafólk, aðgerðasinnnar og ráðamenn höfðuðu í auknum til þessara hvata til þess að koma af stað raunhæfum úrbótum?
Loftlagsúlfurinn
Að lokum, fyrir þá sem enn eru sannfærðir um að aðeins með því að hræða fólk sé hægt að knýja fram aðgerðir í loftslagsmálum sem duga, vil ég minna á dæmisöguna um smalann sem hrópaði úlfur, úlfur. Ástæðan er langt því frá sú að ég telji að það leiki einhver vafi á því að hrópa þurfi úlfur út af loftlagsröskuninni. Í staðinn held ég að sagan hafi ýmislegt að segja um mannleg viðbrögð við endurteknum viðvörunum. Ímyndum okkur útfærslu af sögunni þar sem úlfurinn er ósýnilegur, óáþreifanlegur, óljós, ónákvæmur en engu að síður ógnvænlegur. Aðeins smalinn væri gæddur náðargáfunni að sjá þennan ósýnilega úlf! Hvernig er líklegt að þorpsbúarnir brygðust við endurteknum viðvörunum hans? Ætti smalinn að hrópa úlfur, úlfur ennþá hærra eða ætti hann að leita annarra lausna til þess að hvetja þorpsbúana til þess að hjálpa sér að verja kindurnar fyrir úlfinum? Við vitum öll hvernig klassíska dæmisagan endar, en nú er spurning hvernig við ætlum að láta söguna um smalann og og stóra ljóta loftlagsúlfinn enda?
Höfundur er doktor í félags- og umhverfissálfræði.