Sæl öll og takk fyrir að koma hingað við tjörnina í kvöld til að minnast fórnarlamba kjarnorkusprengjanna sem Bandaríkin vörpuðu á Japan sjötta og níunda ágúst, árið 1945.
Sá hryllingur má aldrei endurtaka sig.
Í eftirfarandi erindi mun ég tala um tvö sóknarfæri í kjarnorkuafvopnun, þar sem Ísland getur sýnt mikla ábyrgð.
Fyrra sóknarfærið er Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem lagður var fram til undirritunar á síðasta ári (2017). Forsvarsmenn sáttmálans fengu friðarverðlaun Nóbels sama ár. 122 þjóðir hafa skrifað undir sáttmálann. Ísland er ekki þeirra á meðal.
Orðræðan er sú að Ísland geti ekki skrifað undir Sáttmálann, vegna annarra skuldbindinga sinna. Þið vitið, Bandaríkin, NATO og allt það.
Auðvitað getum við skrifað undir sáttmálann!
Okkur ber ekki lagaleg skylda til að standa utan hans.
Þvert á móti höfum við fullan rétt á að sýna ábyrgð á þessu sviði.
Við þurfum einfaldlega að kafa ofan í þjóðarsálina og finna kjarkinn.
Og það er mjög mikilvægt að við finnum kjarkinn, vegna þess að sprengjurnar sem við minnumst í dag, sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki eru líkt og eldspýtur í samanburði við kjarnorkusprengjur nútímans.
Í raun hefur heimurinn aldrei áður staðið frammi fyrir jafn mikilli kjarnorkuógn.
Sumir segja að sáttmálinn skipti engu, á meðan kjarnorkuveldin skrifi ekki undir.
Það er ekki rétt.
Í fyrsta lagi hefur reynslan sýnt að alþjóðlegir staðlar hafa áhrif á hegðan ríkja, bæði þeirra sem eru aðilar að þeim, en einnig ríkja sem standa fyrir utan.
Í öðru lagi: Því fleiri ríki sem gerast aðilar að sáttmálanum, þeim mun auðveldara er fyrir kjarnorkuveldin og ríki sem telja öryggi sínu borgið undir vernd kjarnorkuríkja, að fylgja á eftir.
Í þriðja lagi er bann til þess fallið, að flækjast fyrir í hernaðarsamvinnu.
Í fjórða lagi gerir bann framleiðendum slíkra vopna erfiðara fyrir.
Í fimmta lagi er útrýming kjarnorkuvopna eina tryggingin fyrir því að þau verði aldrei aftur notuð.
Síðara sóknarfærið varðar Norðurslóðir.
Þar standa nú tvö kjarnorkuríki í störukeppni.
Bandaríkin og Rússland.
Þessi ríki eiga samanlagt 95% allra kjarnorkuvopna.
Ástæða spennunnar er sú að á þessum slóðum er þriðjungur náttúruauðlinda heimsins, þar á meðal gríðarlegt magn olíu.
Vegna hlýnunar jarðar er svæðið, (og þar með þessar auðlindir), að verða aðgengilegra.
Ósamrýmanlegar kröfur gætu leitt til átaka, með tilheyrandi hættu á beitingu kjarnorkuvopna.
Það sem gerir stöðuna jafnvel enn snúnari er að ekki er nógu ljóst hvaða reglur gilda á svæðinu, þar sem umhverfið bráðnar og breytist, ár frá ári.
Þess vegna hefur vaknað áhugi á því að setja reglur um svæðið og að Norðurskautið verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Slík svæði eru víða, og fer fjölgandi.
Góðu fréttirnar eru að Ísland getur sýnt mikla ábyrgð í málefnum Norðurlóða á næsta ári, þegar við tökum við formennsku í Norðurskautsráðinu. Við getum sett málefnið á oddinn og tryggt því brautargengi.
Kæra fólk, í dag fleytum við kertum.
Á morgun tökum við höndum saman, og fleytum þessu málefni inn í almenna umræðu.
Slíkt framlag hins borgaralega samfélags, er til þess fallið að koma af stað skriðþunga farsælla breytinga.
Takk fyrir mig
Melkorka Mjöll Kristinsdóttir
Ávarp, flutt við kertafleytingu á Akureyri níunda ágúst 2018.