Vísitala kauphallarinnar hefur hækkað töluvert í dag, eða um 3,3 prósent. Mest hefur hækkunin verið á markaðsvirði Icelandair, en verðmiðinn hefur hækkað um 6,07 prósent í dag.
Þá hefur virði Marel, langsamlega stærsta fyrirtækisins á aðallista kauphallarinnar, aukist um 3,5 prósent í dag.
Á undanförnum tveimur dögum hefur Marel keypt eigin bréf fyrir tæplega 4 milljarða króna og á nú um 8,3 prósent af hlutafé félagsins, sem er jafnvirði um 22 milljarða króna.
Viðskiptin eru gerð á grundvelli heimildar frá stjórn Marel hf. til stjórnenda félagsins til að kaupa allt að 20 milljónum hluta að nafnvirði, sem ætlaðir eru sem endurgjald í mögulegum fyrirtækjakaupum.
Virði Origo lækkaði í dag um rúmlega 3 prósent, en önnur félög hækkuðu í verði. N1 hækkaði um rúmlega 5 prósent og Eik um tæplega fjögur prósent.