Saga fiskeldis á Íslandi er orðin nokkuð löng og brotakennd, en í dag er um umtalsverða starfsemi að ræða sem gegnir mikilvægu hlutverki víða um land. Fram hjá því verður hins vegar ekki horft að fiskeldi í opnum sjókvíum felur í sér áhættu, ef illa fer. Það er skylda okkar að huga að náttúru og umhverfi, fyrir nú utan að það er siðferðislega rétt þá er það einfaldlega bundið í lög að náttúran skuli alltaf njóta vafans.
Hvernig verður best tryggt að ekki verði umhverfisslys af fiskeldi? Því er í raun auðsvarað; með því að leggja af allt eldi í opnum sjókvíum og færa það á land. Ef á að fást 100% öryggi um að eldisfiskur sleppi ekki, þá eru lokaðar kvíar ekki einu sinni nægilega öruggar því á öllum mannanna smíðum geta reynst gallar og seint mun maðurinn framleiða nokkuð sem hægt er að fullyrða að muni standast náttúruöflin í sinni ofsafengnustu mynd.
Er 100% landeldi raunhæft? Ég leyfi mér að efast um það, fyrir nú utan að öll umræða um sjónmengun og nýtingu á landi, verði allt eldi flutt þangað, er eftir. Hvað er þá til ráða, hvernig búum sem best um fiskeldi með umhverfismál að leiðarljósi? Það er eitt af þeim stóru verkefnum sem ég tel að verði að ráðast í sem fyrst. Það er hins vegar raunhæft að stefna að því að ekkert eldi verði í opnum kvíum, en til þess þarf að gefa aðlögunartíma.
Ég hef, bæði sem nefndarmaður í atvinnuveganefnd og almennur áhugamaður, kynnt mér fiskeldismálin, lesið mig í gegnum athugasemdir við frumvarp sem fram kom í vor og hlustað á og átt samtöl við gesti á fundum atvinnuveganefndar. Þá gerði ég mér ferð í norska sjávarútvegsráðuneytið í sumar til að kynnast því hvernig Norðmenn búa um hnútana. Ég hef nefnilega tröllatrú á því að kynna mér hvernig gert er í öðrum löndum þannig að við getum lært af því.
Í þessum greinaflokki mun ég setja fram sýn mína um hvernig hægt væri að búa sem best um þessi mál, í sem mestri sátt. Því rótgrónari sem atvinnugreinin verður, því erfiðara verður að stilla hana af upp á nýtt. Sumt af því sem ég set fram er þegar við lýði, annað er að finna í frumvarpi sjávarútvegsráðherra frá í vor, en sumt er frá mér komið. Mig langar að setja fram sýn mína til að skapa umræðugrundvöll um málið.
Líklega er það barnaleg von að telja að hægt sé að ná sátt um fiskeldi. Það verður mjög auðvelt að skjóta það í kaf sem ég set fram hér. Sérfræðingar og rekstraraðilar geta án efa bent á að einhvers staðar sé ég á villigötum með óraunhæfar væntingar. Það er allt í lagi, ég þarf ekki alltaf að hafa rétt fyrir mér. Þá geta hörðustu andstæðingar fiskeldis áreiðanlega farið þá auðveldu leið að úthrópa mig sem svikara við umhverfissjónarmið fyrir að opna á að til sé einhver millivegur um uppbyggingu fiskeldis. Það er líka allt í lagi, en færir okkur ekkert upp úr skotgröfunum. Hér er í það minnsta mín sýn og ég mun hlusta á allar gagnrýnisraddir.
Raunar vona ég að þeir sem kunni að vera mér ósammála komi því á framfæri, því þannig getum við rætt saman og þokað þessum málum áfram.
Í þessari fyrstu grein hyggst ég fjalla um auðlindagjöld, umhverfismál og hagræna hvata. Í grein tvö mun ég fjalla um eftirlit byggt á vísindum og þekkingu og í lokagreininni mun ég draga málið saman og setja framtíðarsýn mína fram. Full mynd fæst því ekki á minn málflutning fyrr en allar greinarnar hafa birst. Í sem stystu máli snýst sú framtíðarsýn um umhverfisvænt fiskeldi.
Sanngjörn og skilvirk gjaldtaka
Fiskeldisfyrirtæki nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar, hafið, og því er eðlilegt að þau greiði til samfélagsins fyrir það. Starfsemi þeirra getur, ef allt fer á versta veg, haft í för með sér umhverfislys og breytingu á vistkerfum, með blöndun eldislaxa og villtra.
Norðmenn hafa mikla reynslu í fiskeldismálum, hafa rekið sig á ýmis horn og gert mörg mistök. Í dag er fiskeldi umfangsmikil atvinnugrein í Noregi og áform eru uppi um að efla hana enn frekar. Þar eru gerðar miklar kröfur til fyrirtækja í rekstri og rukkað hátt leyfisgjald.
Þar í landi notast menn við svokallað umferðarljósakerfi; svæðum er skipt í græn, gul og rauð eftir því hvort heimilt er að auka við framleiðslu, hvort þarf að skoða það betur eða jafnvel draga úr henni. Fyrr á þessu ári gáfu Norðmenn út leyfi sem jafngiltu 6% aukningu á framleiðslu á grænum svæðum.
Tvenns konar fyrirkomulag var viðhaft við aukninguna. Þriðjungi hennar var skipt á milli fyrirtækja á föstu verði, sem nam 120 þúsund NKR pr. tonn. Tveir þriðju voru boðnir út og meðalverðið sem fékkst var 195 þúsund NKR pr. tonn. Þetta jafngildir því að 1,5 milljón íslenskra króna hafi fengist á fasta verðinu og um 2,5 milljónir í uppboðinu. Fyrir hvert einasta tonn. Það er því ljóst að um umtalsverða fjármuni er að ræða og Norðmenn líta á þetta sem mikilvægan tekjustofn, en um leið að greinin sjálf standi undir öllum kostnaði við vöktun og eftirlit.
Er þetta leiðin sem við eigum að fara? Það væri í sjálfu sér einfalt og í frumvarpi um fiskeldi sem lagt var fram í vor er gert ráð fyrir umtalsvert háu leyfisgjaldi. Gallinn er að það miðast aðeins við leyfi á svæðum sem ekki hafa þegar verið burðarþolsmetin. Þá hefur það engin áhrif á þá starfsemi sem nú þegar er til staðar og nýliðar í greininni sætu alls ekki við sama borð og þeir sem fengu leyfið á mun lægri upphæð.
Sjálfum finnst mér hins vegar eðlilegra að fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda verði einfaldlega greitt auðlindagjald. Slíkt gjald leggst hlutfallslega jafnt á öll fyrirtæki í greininni og með slíku kerfi næðist fram sanngjörn greiðsla fyrir nýtingu sameiginlegrar auðlindar. Raunar tel ég eðlilegt að skoða allt umhverfi auðlindagjalda, hvort sem auðlindin er hafið, orkan, sameiginleg landsvæði eða hvað sem er, og samræma. Auðlindagjald gefur líka færi á því að nýta hagræna hvata til að stuðla að umhverfisvænni rekstri, eins og komið verður inn á hér á eftir.
Skýrar umhverfiskröfur
Þrátt fyrir að aldrei sé hægt að segja að lokaðar sjókvíar séu fullkomnar, frekar en önnur mannanna verk, þá eru þær mun öruggari en þær opnu. Ég tel einsýnt að stefna eigi að því að allt fiskeldi við Íslandsstrendur verði á endanum í lokuðum kvíum. Það er umfangsmikið og kostnaðarsamt verkefni og eðlilegt að til þess verði gefinn tími. Hins vegar á engan afslátt að gefa af umhverfiskröfum, þó ekki verði strax krafist lokaðra kvía.
Það þarf að gera þá kröfu að allur búnaður sé umhverfisvænn og eftir bestu fáanlegu tækni hverju sinni. Í því skyni er eðlilegt að gefa fyrirtækjum aðlögunartíma þurfi þau þess, að eftir ákveðið langan tíma verði ekki eldi í opnum kvíum við Íslandsstrendur.
Þar kemur að því sem komið var inn á, hagrænum hvötum. Það er hægt að beita þeim til að hvetja fyrirtæki til að færa rekstur sinn til umhverfisvænni vegar og einfaldasta leiðin til þess er að gefa afslátt á auðlindagjaldinu. Þannig má hugsa sér að afsláttur verði veittur fyrir fyrirtæki sem vinna að því að:
- Fara í lokað eldi
- Fara í landeldi
- Nýta ófrjóan lax í eldi
- Merkja alla fiska þannig að hægt sé að rekja strokufiska til þeirra
- Framleiðslan er laus við lús og um leið þau fyrirtæki sem minnst nota af lyfjum
Eðlilegt er einnig að tekið sé tillit til ferils fyrirtækja í umhverfismálum, til dæmis þegar að endurúthlutun leyfa kemur. Þá gæti það haft áhrif til afsláttar á auðlindagjöldum að vera með flekklausan feril í þeim efnum, í það minnsta á þeim uppbyggingarfasa sem við nú erum í.
Sú uppbygging verður að vera á vísindalegum grunni og undir merkjum sjálfbærni, en um það verður fjallað betur í næstu grein.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.