Hér ríkir um þessar mundir mesti húsnæðisskortur í manna minnum. Sögulega hægt gengur að byggja nýjar íbúðir. En á sama tíma koma borgarfulltrúar hins svokallaða meirihluta fram og tala um „mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar“ og segja jafnvel að „það hefur aldrei verið byggt eins mikið í Reykjavík eins og er byggt upp akkúrat núna“.
Eins og sjá má á þessum tölum frá Byggingarstjóra í Reykjavík, hefur reyndar oft verið byggt meira í Reykjavík en akkúrat núna. Uppbyggingin nú er reyndar undir miðgildinu af kláruðum íbúðum síðan 1929. Þrátt fyrir að nú séu borgarbúar umtalsvert fleiri en oft áður.
En þegar Dagur B. borgarstjóri og Heiða Björg formaður Velferðarráðs létu þessa frasa falla, voru þau auðvitað ekki að tala um fullgerðar íbúðir, eins og mátti skilja. Heldur er þá verið að tala um íbúðir sem eru á skipulagsstigi eða bygging hafin. Nú ef Heiða Björg hefði sagt: „Það hefur aldri verið byrjað á eins mörgum byggingum eins og undanfarin 3 ár“. Þá hefði það verið alveg hárrétt. En hvar eru þessar íbúðir í dag?
Myndin hér að ofan sýnir íbúðir sem hafin er smíði á í Reykjavík að frádregnum fullkláruðum. Þá sést að það hefur safnast upp slíkur fjöldi af ókláruðum íbúðum að undanförnu, að það eru ekki fordæmi fyrir öðru eins í sögu borgarinnar.
Reynslan erlendis frá
Ísland er ekki eina landið sem er að ganga í gegnum mestu húsnæðiskreppu í manna minnum. Svo er einnig farið á Bretlandi. Háskólinn í Sheffield gaf út nokkuð áhugaverða úttekt á stöðu málanna þar sem helstu ástæður kreppunnar eru raktar ásamt mögulegum úrræðum.
Þessi glæra birtist í skýrslu hagfræðinganna frá Sheffield. Það vekur nokkra athygli við lestur þeirrar skýrslu að hvergi er minnst á „íbúðaráform“, „staðfest áform“, „íbúðir í skipulagsferli“ eða einu sinni „íbúðir sem eru í byggingu“. Heldur er einungis talað um það sem skiptir máli: fullkláraðar íbúðir. En hér má sjá hvernig fjöldi kláraðra íbúða hefur dregist saman síðan 1960.
Ein helsta skýringin á þessari þróun, samkvæmt hagfræðingunum frá Sheffield er að það hefur orðið gríðarleg samþjöppun á markaði byggingarverktaka. Árið 1980 voru um 10.000 verktakar, smáir og meðalstórir, sem byggðu 57% allra íbúða. 2015 hinsvegar eru þessir smáu og meðalstóru orðnir 2.800 talsins og framleiða aðeins um 27% af húsnæði. Meðan 10 stærstu framleiða 47%.
Lóðabraskarar fyrst, byggingafélög síðan
Það fer ekki á milli mála að stórir aðilar á markaði geta búið til og viðhaldið skorti á markaðnum. Þannig haldið verði uppi og hámarkað hagnaðinn. Þessi félög hafa síðan verið að taka hagnaðinn út úr rekstrinum í stórum stíl með því að greiða hluthöfum mikinn arð.
Hér sést hvernig arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði hefur aukist. Framleiðsla jókst um 33% hjá 9 stærstu félögunum í Bretlandi frá 2012-2015. Á sama tíma óx hagnaður fyrir skatta um nærri 200%.
Að mati Bresku hagfræðinganna er þetta mögulegt með því að þessi félög safni að sér byggingarlandi í miklu magni í það sem kalla mætti ‚lóðabanka‘. Kaupi jafnvel upp aðra verktaka til að eignast land og nota sterka stöðu sína til að fá betri samninga við landeigendur. Þeir hafa lítinn hag af því að framleiða nógu hratt til að metta markaðinn, því það er alltaf eftirspurn eftir húsnæði, þó það sé keypt dýru verði. Þannig fá þessir stóru aðilar meiri hagnað fyrir hverja framleidda einingu. Meiri hagnað með minni fyrirhöfn og ábyrgð.
Það bendir margt til að það sé nákvæmlega þetta sem er líka að gerast á Íslandi. Stærstu félögin hagnast gríðarlega um þessar mundir. Lóðabrask er mikið stundað og stórir aðilar geta í krafti stærðar sinnar þvingað sveitarfélög til að auka samþykkt byggingarmagn á lóðum, meðan þeir sitja á lóðunum eins og ormar á gulli. En á endanum áframselja þeir svo lóðina einhverjum öðrum og innleysa þannig hagnað. Á meðan á þessu stendur er ekkert byggt á lóðinni.
Aðgerðir til að örva framleiðslu
Eðlilega vilja fyrirtæki græða. Alveg eins og við hin viljum fá sem mest fyrir okkar vinnu. Freistingin er mikil að nýta sterka samningsstöðu sína við hvert fótmál. Ábyrgð yfirvalda er því nokkur að leyfa ástandinu að þróast á þennan veg.
Hagfræðingarnir frá Sheffield og fjöldi annara eru sammála um að í ástandi sem þessu er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að örva framleiðslu á húsnæði. Niðurgreiðslur til kaupenda muni reynast skammgóður vermir, því það gerir þeim aðeins kleift að kaupa of dýrt húsnæði.
Byggingafélög og verktakar vilja auðvitað alltaf græða og eiga rétt á að fá sanngjarnar heimtur af sinni vinnu. En þegar markaðurinn er orðinn eins fjandsamlegur neytendum eins og nú er orðið, þá þarf hið opinbera að stíga inn í.
- Það fyrsta sem ætti að gera er að stofna opinbert byggingafélag þá t.d. með samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Þetta hefur áður verið gert í sögu okkar þjóðar með Viðlagasjóðshúsunum. Þar sem byggð voru um 560 hús á innan við ári í kjölfar eldgoss í Vestmannaeyjum árið 1973. Því ætti ekki neyðarástand sem ríkir nú að vera ástæða til að endurtaka þann leik?
- Setja þarf kröfur á lóðarkaupendur að þeir klári að byggja og setji íbúðir í sölu eða notkun innan skynsamlegra tímamarka. Til að koma í veg fyrir söfnun á lóðum og braski sem á endanum kostar almenning. Það er ekki réttlátt að stórir aðilar í krafti fjármagns síns einoki auðlind sem er takmörkuð til að geta okrað á hinum sem minna eiga.
- Sveitarfélög þurfa að stórauka framboð á lóðum og á svæðum sem er auðvelt að byggja. Eins þá fyrir íbúðir sem eru hagkvæmar og fljótlegar í byggingu.
- Sveitarfélög þurfa að aflétta gjöldum og sköttum af íbúðaruppbyggingu til þeirra sem standast eðlileg tímamörk. Sérstaklega á þetta við um hið háa byggingarréttargjald sem Reykjavíkurborg, eitt sveitarfélaga, innheimtir. Vissulega mun þetta ekki skila sér strax í lægra íbúðarverði, en þetta hvetur byggingafélög og verktaka til að byggja meira og hraðar. Þannig mun markaðurinn á endanum ná jafnvægi.
- Setja þarf lög um sérstakan skatt á Airbnb. Stór hluti vandans er að of margar íbúðir eru fráteknar í skammtímaleigu vegna vaxtar í ferðamannaiðnaði. Þetta mun búa til hvata fyrir húseigendur að leigja frekar á almennum leigumarkaði heldur en í villta-vestrinu sem skammtímaleigumarkaðurinn er. Í neyðarástandi sem nú ríkir á íbúðamarkaði er þetta nauðsynlegt. Að auki er óréttlátt gagnvart öðrum hótelrekstri að þarna séu ekki innheimt sömu gjöld.
Vandinn á íslandi er ekki: skortur á peningum til að byggja, skortur á landi til að byggja, skortur á verkafólki til að byggja. Og ekki einu sinni skortur á byggingarkrönum, líkt og Dagur borgarstjóri sagði nýverið. Vandinn er í kerfinu. Kerfið stuðlar ekki að meiri uppbyggingu heldur að meiri samþjöppun og braski. Við getum lagað það.
Áhugasamir geta hérna séð myndband þar sem ég fer yfir þessi mál og fleiri. Þarna spila ég t.d. hljóðbúta þar sem sýna hvernig orðræðan og afneitunin á vandanum hefur verið hjá borgarstjórnarmeirihlutanum:
Það er mikið bullað um húsnæðismálin. Sumir ganga svo langt að segja að "aldrei hafi verið byggt meira í Reykjavík." EN staðreyndin er sú að við erum að ganga í gegnum mestu húsnæðiskreppu í manna minnum. Í þessu myndbandi fer ég aðeins yfir orðræðuna hjá núverandi meirihluta í borginni: * Talað um: “Mesta uppbyggingarskeið” * Fullt af íbúðum sagðar rétt handan við hornið, en þær koma síðan ekki * Gengur sögulega hægt að byggja í Reykjavík með mikið af uppsöfnuðum ókláruðum íbúðum * Reykjavík aftast í íbúðauppbyggingu miðað við nágrannasveitarfélög * Áhrif byggingarréttargjalds á íbúðaverð * Áhrif íbúðaskorts á lóðaverð * Hvað er hægt að gera * Reynslan erlendis frá
Posted by Viðar Freyr Guðmundsson on Wednesday, August 15, 2018