Sjálfbærni er nokkuð sem alltaf á að stefna að og vera til grundvallar lagasetningu á 21. öldinni. Það vill þó oft gleymast að undir sjálfbærni eru þrjár stoðir; umhverfis/náttúru-, efnahags- og samfélagslegar. Það er auðvitað mikilvægt í öllum málum, en sérstaklega þó hvað fiskeldi varðar, enda er starfsemi fiskeldisfyrirtækja gjarnan í smærri byggðarlögum og mikilvægi hvers fyrirtækis fyrir sig því mikið í nærumhverfi sínu.
Í frumvarpi um málið, sem lagt var fram í vor, er komið inn á samfélagslega ábyrgð. Samband íslenskra sveitarfélaga lagði til, í umsögn sinni,, að endurskilgreint yrði hvernig hugað er að samfélagslegri ábyrgð fiskeldisfyrirtækja. Fyrirtækin yrðu að „leggja sitt af mörkum til að efla velferð samfélags, stuðla að sjálfbærri þróun og skipuleggja starfsemi sína þannig að þau viðhaldi jákvæðum áhrifum á þróun samfélagsins.“ Þetta tel ég skynsama nálgun.
Skilvirkt eftirlit skiptir miklu máli, þegar kemur að jafn umdeildri og viðkvæmri atvinnugrein og fiskeldi er. Þá er lykilatriði að byggt sé á vísindalegum grunn, enda er það leiðarstefið í allri auðlindanýtingu okkar.
Fiskeldisstofa í héraði
Eldi á frjóum norskum laxi við Íslandsstrendur er eðli málsins samkvæmt tilfærsla á framandi tegund í íslenska náttúru. Eftirlit með slíkri starfsemi þarf að vera eins og best verður á kosið og eðlilegt er að fiskeldisfyrirtækin standi straum að kostnaði við það. Það er mikilvægt að jafn umdeild atvinnugrein og fiskeldi, þar sem umhverfisleg áhætta er mikil ef allt fer á versta veg, lúti skilvirku og gagnsæju eftirliti á meðan verið er að byggja upp og þangað til meira jafnvægi fæst í greinina.
Ef umsagnir um fiskeldisfrumvarpið sem kom fram í vor eru skoðaðar, sést að margir velta því fyrir sér hvort íslensku eftirlitsstofnanirnar séu í stakk búnar til að takast á hendur það umfangsmikla eftirlit sem óhjákvæmilegt er. Þær raddir hafa raunar heyrst frá stofnunum sjálfum líka. Það má velta því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að koma upp sérstakri stofu sem sinni fiskeldi; Fiskeldisstofu sem væri staðsett á Vest- eða Austfjörðum, í námunda við þau svæði þar sem eldið er mest.
Aftur vil ég horfa til Noregs hvað þetta varðar. Þar eru fjölmargar stofnanir sem koma að því að veita leyfi fyrir fiskeldi og um leið hafa eftirlit með því. Það á bæði við um búnað, lús, en ekki síst strokufiska. Þar er fyrirmynd sem við getum tekið upp og höfum raunar enn frekar þörf á en Norðmenn, þar sem eldisfiskur Norðmanna er norskur og því síður framandi tegund.
Að sjálfsögðu gera allir ráð fyrir því að sem minnst af fiski sleppi úr kvíunum og reyna að tryggja það á sem bestan máta. Rannsóknir og mælingar sýna hins vegar að aldrei er hægt að koma í veg fyrir slíkt til fulls. Þess vegna verður að koma því þannig fyrir að sleppi fiskur, sé hægt að fanga hann strax og rekja til viðkomandi kvíar. Hvað það síðarnefnda varðar er vísað til þess afsláttar af auðlindagjaldi sem áður var komið inn á, en það er einmitt að norskri fyrirmynd að fyrirtæki fái afslátt af leyfisgjöldum sé fiskurinn í kvíunum örmerktur.
Sérstök stofnun hefur það hlutverk í Noregi að fylgjast með og fanga strokufisk. Skoða má starfsemi hennar hér en kostnaður við starfið er greiddur með árlegu gjaldi allra fiskeldisfyrirtækja. Þannig greiða fyrirtækin árgjald sem stendur undir kostnaði við teymi kafara sem sem fara í nærliggjandi ár verði uppvíst um strokufiska. Þar er litið á gjaldið sem nokkurs konar tryggingu fyrir því að hægt verði að bregðast hratt við, þegar slysin verða. Slíku kerfi þarf að koma upp á Íslandi og tel ég að fyrrnefnd Fiskeldisstofa væri réttur vettvangur fyrir slíka starfsemi.
Vísindalegur grunnur
Mikilvægt er að vísindalegur grunnur liggi á bak við mat á því hvort svæði beri fiskeldi og þá hve mikla framleiðslu. Það er í fullkomnum takti við það kerfi sem við höfum sett upp varðandi nýtingu á sjávarauðlindum; við stundum sjálfbærar veiðar fiskistofna sem byggja á vísindalegu mati Hafrannsóknarstofnunar.
Hið sama verður að gilda um fiskeldi. Því miður hefur of mikið borið á því að bornar séu brigður á mat Hafró, bæði burðarþols- og áhættumat. Að sjálfsögðu er ekkert yfir allan vafa háð og án efa er hægt að betrumbæta matsfyrirkomulag stofnunarinnar, eins og önnur mannanna verk. Við erum hins vegar komin á hættulega braut ef við ætlum að leyfa okkur að afskrifa vísindalegt mat Hafró. Það verður að lögfesta það, fiskeldi verður að byggja á vísindalegum grunni.
Það mat þarf þó að þróast í takt við það nýjasta og besta í vísindum hverju sinni. Sjálfum fyndist mér til dæmis eðlilegt að umhverfismat yrði hluti af burðarþolsmati.
Eitt og annað
Töluvert hefur verið tæpt á umhverfismál í þessum skrifum, enda er það lögbundin skylda okkar að náttúran njóti vafans. Þannig er erfitt að gera of mikið á því sviði og áður hefur verið nefnt að umhverfismat ætti að vera hluti af burðarþolsmati.
Rætt hefur verið um að innblöndun við villta stofna megi ekki vera meiri en 4%. Erfðanefnd landbúnaðarins gaf jákvæða umsögn hvað það varðar, en ég leyfi mér að velta því upp að annað hvort verndum við villta laxastofna eða ekki. Það sé ekki ásættanlegt að lögfesta lágmarksinnblöndun, að það megi blanda eldislaxi upp að ákveðnu marki við villtan. Þess vegna er allt eftirlit svo mikilvægt eins og hér hefur verið komið inn á og viðbrögð við strokufiski.
Ísland hefur lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Það er því skylda okkar að vernda villtu laxastofnana. Áður hefur verið komið inn á að engin atvinnustarfsemi er án áhættu, hamfarir geta alltaf orðið. Þess vegna er mikilvægt að huga að því að vernda gen villtra laxastofna, en þeim má koma fyrir í norska genabankanum fyrir laxfiska. Velta má því upp hvort kostnaður við slíkt eigi ekki að lenda á herðum fiskeldisfyrirtækjanna sjálfra.
Mikilvægt er að vernda villtu laxastofnana okkar. Allur umbúnaður um fiskeldi verður að taka tillit til þess, en ef allt fer á versta veg þá er genabankinn trygging þó vonandi þurfi aldrei að nota hana.
Að lokum má velta því fyrir sér hvers vegna við setjum erlendu eignarhaldi á fyrirtækjum í sjávarútvegi og orku skorður, þ.e. þeim sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, en ekki þegar að fiskeldi kemur. Mér finnst það einnar messu virði að svara því hvers vegna annað eigi að gilda um þá nýtingu sjávarauðlindarinnar, sjálfur sé ég ekki rökin fyrir því.
Norðmenn gefa út sérstök nýsköpunarleyfi, sem eru ódýrari en full starfsleyfi. Þannig brúa þeir bilið á milli rannsókna og starfsemi og hvetja til nýjunga í greininni. Þessa leið er hægt að nota til að kom á auknum kröfum til umhverfisvænni framleiðslu.
Í næstu grein mun ég fjalla um umhverfisvæna uppbyggingu og reyna að draga saman framtíðarsýn fyrir greinina.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.