Íslenska lýðveldið er í miklum vanda. Eins og Rannsóknarskýrsla Alþingis leiðir glögglega í ljós var Hrunið 2008 í sérlegu boði íslenskra stjórnvalda, fjármálastofnana og eftirlitsaðila. Reyndar er íslenska Hrunið eina dæmið um fjármálakerfi í lýðræðisríki sem hrynur undan þunga innlendrar spillingar, vanhæfni, frændhygli og fúsks valdhafa í stjórnmálum og fjármálakerfi. Heimskreppa og/eða styrjaldir komu þar ekki við sögu.
Þjóðfélagið er gegnsýrt af vantrausti - ekki síst viðvarandi tortryggni almennings í garð valdhafa og stofnana. Ríkisstjórnir koma og fara – meira að segja þrjár sama árið 2017. Þingkosningar haldnar 2009, 2013, 2016 og 2017. Núverandi ríkisstjórn nýtur samkvæmt skoðanakönnun fylgis minna en helmings kjósenda. Óstöðugleiki í stjórnmálum og þjóðlífi er orðið að reglu fremur en undantekningu. Framundan hörð stéttaátök ef að líkum lætur.
Við þurfum að finna leið til að endurreisa íslenska lýðveldið. Hafa sameiginlegan sáttmála og grundvallarlög sem visa okkur leiðina til lýðræðis og réttlætis. Fyrsta skrefið í endurreisninni að horfast í augu við þá staðreynd að í lýðveldisstjórnarskránni er ekki að finna neinn vegvísi til lýðræðis.
Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, sagði m.a. í nýársávarpi 1949:
„Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurfum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogum, að sett verði sem fyrst. Í því efni búum vér enn við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld.”
Í grundvallaratriðum er núverandi stjórnarskrár byggð á stjórnarskrá konungsríkisins Danmörku –frá 1849. Sveinn var mikill lýðræðissinni og taldi að fullveldisréttur þjóðarinnar ætti að vera grundvallaratriði í stjórnskipun sérhvers lýðveldis. Stjórnarskrá konungsríkis hæfði ekki íslensku lýðræðislandi. Sveinn hvatti því til þess að kosið yrði sérstakt stjórnlagaþing til að semja stjórnarskrá lýðveldisins. Alþingismenn ættu ekki að ákvarða efni stjórnarskrá enda væri nauðsynlegt að kveða þar m.a. skýrt á um takmarkanir á valdi Alþingis sem og annarra valdsmanna.
Í lýðveldisstjórnarskránni frá 1944 hefur forseti Íslands víðtækt geðþóttavald en bera enga ábyrgð. Núverandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, hefur ítrekað kallað eftir að völd og ábyrgð forseta Íslands verði skilgreind í stjórnarskrá. Í þingsetningarræðu sinni 12. september 2017 sagði forsetinn að „við óbreytt ástand verði ekki unað” og að „Stjórnarskrárbundið ábyrgðarleysi, sem felur samt í sér formlega staðfestingu á ákvörðunum annarra, samræmist ekki réttarvitund fólks og á ekki heima í stjórnsýslu samtímans”.
Geðþóttavald Alþingis er líka oft algjört og þá mest þegar mikilvægast er að Alþingi gæti almannahags og þjóðarfarsældar en gangi ekki erinda sérhagsmuna hinna ríku og voldugu. Þannig hefur Alþingi Íslendinga tekið sér vald til þess að svipta þjóðina virku eignarhaldi á dýrmætustu sameign Íslendinga, fiskveiðiauðlindinni, en afhenda hana gjafakvótagreifum til eigin fénýtingar og brasks. Á Íslandi geta ráðherra, jafnvel dómsmálaráðherra, brotið lög og setið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Fengið meira að segja sérstaka traustsyfirlýsingu frá meirihluta Alþingis.
Við getum ekki búið við stjórnarskrá sem galopnar leiðir til geðþóttaákvarðana og ábyrgðarleysis ráðamanna. Við þurfum að leita nýrra leiða til að endurreisa íslenska lýðveldið. Leitum fyrst til þjóðskálds. Hannes Pétursson segir í ljóðabók sinni Fyrir Kvölddyrum:
„Við stóðumst ekki án drauma
neinn dag til kvölds … “.
Sem betur fer hefur okkur þrátt fyrir allt auðnast að búa til fínar tillögur að Samfélagssáttmála og einnig frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Árið 2010 var kosið til Stjórnlagaþings sem síðar varð Stjórnlagaráð eftir að Hæstiréttur Íslands hafði ógilt kosninguna án þess að sýnt væri fram á að framkvæmd kosninganna hefði haft einhver áhrif á niðurstöðuna. Umboðið frá þjóðinni var þar af leiðandi óhaggað.
28. júlí 2011 samþykkti Stjórnlagaráð eftirfarandi:
„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.
Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.
Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.
Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.
Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins sem öllum ber að virða.”
Líf einstaklinga og samfélaga er vissulega flókið en sumt er samt bæði einfalt og satt. Þannig getur íslenskt lýðræði ekki þroskast án nýs samfélagssáttmála og nýrrar stjórnarskrár. Við höfum einfaldlega engin viðmið – ekkert sameiginleg markmið, engar sameiginlegar hugsjónir, enga sameiginlega drauma. Draumar eru hins vegar upphaf en ekki endalok. Vegferðin er síðan á ábyrgð okkar hvers og eins og í sameiningu. Aðfaraorðin er góður grunnur að Samfélagssáttmála. Þar er að finna draumsýn sem gæti sameinað íslenska þjóð og skapað möguleika á endurreisn íslenska lýðveldisins. Íslendingar eignuðust sinn fyrsta Samfélagsáttmála.
Meginatriði frumvarps Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrár voru samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. okt. 2012. Hvað svo sem segja má um einstakar greinar þess er er ljóst að það getur ásamt Aðfaraorðunum markað leiðina til raunverulegs lýðveldis.
Baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði og fullveldi getur ekki lokið með stjórnarskrá sem byggir á stjórnarskrá konungsríkis. Við þurfum og skulum reglulega rifja upp að meginmarkmið fullveldisbaráttu Íslendinga – samkvæmt forskrift Jóns Sigurðssonar - var að íslenska þjóðin yrði fullvalda en ekki að innlend ráðastétt kæmi í stað hins danska valds. Forræði þjóðarinnar var t.d. undirstrikað sérstaklega með því að kosið var almennri kosningu til að velja fulltrúa á Þjóðfundinn 1851 sem fjallaði um stjórnskipun landsins. Ekki var talið við hæfi að Alþingi semdi tillögur sem m.a. ætti að afmarka vald Alþingismanna.
Á tímum Jóns Sigurðssonar hefði Alþingi Íslendinga örugglega ekki hunsað niðurstöðu þjóðaratkvæðis um nýja stjórnarskrá. Lýðveldið er nefnilega fjöregg þjóðarinnar –og á ekki að vera áfram einkaleikvöllur ráðastéttarinnar í landinu.
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og félagi í ReykjavikurAkademíu. Grein er byggt á erindi á Fullveldismaraþoni ReykjavíkurAkademíu á Menningarnótt Reykjavíkur 18. ágúst 2018.