Eitt hlutverk leik- og grunnskóla er af félagslegum toga og til þess fallið að virka til leiðréttingar á ójafnri stöðu barna sem búa við misgóða færni foreldra og misjafnar uppeldisaðstæður á heimili. Um miðja síðustu öld hafði það byltingarkennd áhrif víða um heim þegar leikskólavist varð smám saman jafnsjálfsögð og skólavist, meðal annars vegna breyttra atvinnuhátta og kynjabyltingar.
Sú breyting skipti miklu fyrir afkomu fjölskyldna, möguleika kvenna til menntunar og launavinnu og til bættra og jafnari þroskaskilyrða fyrir börn. Foreldar sem ekki áttu kost á leikskóla fyrir börn sín stofnuðu foreldrarekið dagheimili í Reykjavík (Ós, 1973) og dagmæðrum fór fjölgandi. Þótt foreldar upp til hópa kölluðu eftir þessum breytingum heyrðust þó vissulega efasemdaraddir hinna íhaldsömu þeirra tíma, og dæmi voru um að konur fórnuðu menntun og starfsánægju á vinnumarkaði eða legðu á sig tvöfalda vinnu, bæði innan heimilis og utan – e.t.v. með aðkeyptri aðstoð fyrir þær sem bjuggu við góð efni. Jafnframt unnu feministar og fagfólk að viðhorfsbreytingu með því að fræða um uppeldislegt gildi leikskóla, frelsandi áhrif þeirra fyrir kynin og jöfnunaráhrif fyrir velferð barna og foreldra. Í þessu fólust ekki síst leiðréttandi áhrif til styrktar stöðu barna sem bjuggu við bágar sálfélagslegar aðstæður heima fyrir.
Eftir borgarstjórnarkosningar vorið 1978 gerði vinstri meirihlutinn átak í þessum anda. Þetta var öðrum sveitafélögum til fyrirmyndar og skipti sköpum í átt að jöfnuði og velferð barnafjölskyldna. Í leikskólum nutu börnin góðs aðbúnaðar og atlætis auk umhugsunar og umhyggju fagfólks sem vann að því að styrkja sjálfsmynd þeirra, örva þau vitsmunalega og þróa félagsfærni þeirra í hópstarfi. Reynt var að tryggja undirstöðuríkt og reglulegt fæði í leikskólum en það var síðan undanfari sömu áherslu á skólamáltíðir í grunnskólum á Norðurlöndum. Þannig varð staða barnanna jafnari bæði til náms og í félagsfærni. Hvert barn skyldi eiga kost á leikskólavist af áðurnefndum leiðréttandi, uppeldislegum og hagkvæmnisástæðum. Það gildir enn frekar í dag.
Velferðarskekkja
En viti menn. Þá er þróuninni snúið við, meðal annars með skekkju milli ábyrgðarkvaðar, álags, launa, mönnunar og aðbúnaðar faghópa uppeldisstétta. Fjölgun í stétt leiks-og grunnkólakennara svarar ekki þörfinni, meðal annars vegna þess að launin svara ekki kröfum um ábyrgð, sérfræðiþekkingu og álag í starfi. Kennarar hafa ekki rými eða bolmagn til að mæta væntingum um uppeldisrækt. Stoðkerfi er veikt. Skortur á auknu fagafli, m.a. skólahjúkrunarfræðinga og skólafélagsráðgjafa til stuðnings kennurum á öllum skólastigum stingur í augu. Ofurálag og vanmáttur sem rekja má til umgjarðar starfsins kemur fram í starfsþreytu og atgervisflótta úr starfi. Gagnrýni beinist óverðskuldað að kennurum. Þá er verið að hengja bakara fyrir smið því smíð og skipulag skólaumhverfisins er á ábyrgð opinberrar stefnu og framkvæmdaáætlunar en ekki einstakra kennara sem líða fyrir brestina.
Þær aðstæður leik- og grunnskóla sem ógna fjölskyldum, hjónaböndum, og síðast en ekki síst ungum skólabörnum vor, sumar og haust, eru óásættanlegar árið 2018. Foreldrar glíma við vanda og eiga oft í átökum sín á milli um skiptingu tímans til að geta brúað bil vinnu og barnauppeldis. Ömmur og afar eru oft í hlutastarfi við að sinna barnabörnum auk annarra starfa og verkefna sem þau sinna í samfélagi nútímans. Þær fjölskyldur sem ekki eiga traust bakland í foreldrum eða frændgarði eru á köldum klaka. Það eru oft einmitt láglaunafjölskyldur sem ekki geta ráðstafað vinnutíma sínum með sveigjanleika. Möguleikar þeirra eru takmarkaðir. Það eru þeirra börn sem þá líða fyrir reiðileysi og eru á vergangi þessa dagana. Stundum eru það einmitt þau sem eiga við kvíða og öryggisleysi að stríða fyrir og eru þá enn verr í stakk búin fyrir skólastarfið og þátttöku í félaga-og tómstundastarfi. Þessar aðstæður stinga í stúf við hugmyndir velferðarsamfélagsins. Þær eru líklegar til að auka ójöfnuð jafnt barna sem fullorðinna og breikka gjá félagslegrar mismunar og siðferðislegra mannréttinda eftir stétt og afkomu. Gæfa slíks samfélags sem heildar verður í skötulíki.
Tímaskekkja
Í fjölmörgum greinum og pistlum í fjölmiðlum og vefmiðlum heyrast nú raddir örvæntingarfullra, reiðra foreldra og fagfólks með ákalli eftir bættu umhverfi og samskipan yngri skólastiganna og skipulegra fyrirkomulagi þjónustu í grunn- og leikskólum. Það er tímaskekkja að sumarleyfi og lokanir skólanna séu ekki skipulögð á samræmdan hátt og að ekki sé möguleiki á að sveigja til með tímasetningar sumarleyfa foreldra í stjúpfjölskyldum á leikskólum. Það að 200 2ja ár börn séu á biðlista eftir leikskólaplássi er 200 of mikið. Það að tímabilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar hafi ekki verið brúað er til háðungar. Það að hluti grunnskólabarna eigi ekki vísan aðgang á frístundaheimili nokkrum vikum fyrir skólasetningu er óviðunandi. Það getur gefið bjartsýnismönnum vonir að heyra um loforð eða jafnvel fyrirætlanir um úrbætur. En það er ekki nóg. Það þarf að það verja marktækt meira fé til þessara velferðarumbóta og beita þar forgangsröðun útfrá mati á verðmæti mannlegrar velferðar. Það eitt getur skilað árangri.
Af áratuga rannsóknarvinnu og meðferðarstarfi mínu með barnafjölskyldum er ljóst að miklar breytingar hafa orðið á þróun fjölskyldugerða, samskiptahátta og stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Umbreytingar hafa líka orðið á uppeldisumhverfi og atlæti barna í vaxandi fjölbreytileika íslensks samfélags. Þannig þarf skólakerfið á öllum stigum bæði að eflast og umbreytast í takt við samfélagsbreytingar rétt eins og um og eftir 1968, en ekki verða félagslegri mishröðun eða eftirlegu að bráð. Það verður seinlegt að bíta úr nálinni með afleiðingar þess að börn þurfi að búa við misrétti, skort og vanrækslu. Það hefur áhrif á heilsu og lífsþrótt síðar á ævinni með ómældum kostnaði og kvöðum fyrir samfélagið. þetta er staðfest í alþjóðlegum rannsóknum á samtíma fjölskyldum.
Það er ábyrgðarhluti samfélags að leggja svo mikið á kennara og annað fagfólk skólanna að við blasi uppgjöf eða atgervisflótti. Það er ábyrgðarhluti samfélags að skapa barnafjölskyldum þannig aðstæður að álag, átök og vonleysi geti leitt til veikinda foreldra eða skilnaðar. Sáttir foreldar eru uppspretta lífsgæða barna. Lífsgæði barna eru uppspretta heilbrigðs samfélags.
Höfundur er prófessor emerita í félagsráðgjöf og fjölskyldufræðingur.