Um það hvernig valdaelítan á Íslandi, fyrst og síðast Eimreiðarelíta Davíðs Oddssonar í bandalagi við nýjan leiðtoga Framsóknarflokksins Sigmund Davíð Gunnlaugsson, yfirfærði skipulega og af óhugnanlegri þekkingu rýtingsstungugoðsögn nasistanna yfir á Ísland við valdatöku vinstri manna árið 2009.
Fyrst, Þýskaland, 1918, fyrri heimsstyrjöldin:
Valdaelítan hafði þá nýlokið við að fremja ófyrirgefanlega stríðsglæpi. Efnahagur landsins í rúst. Atvinnuleysi geigvænlegt. Þjóðin og heimilin sokkin í skuldir. Reiðin gífurleg, sérstaklega gagnvart kröfuhöfum: Útlendingum og gyðingum. Fram undan svartnætti: Uppgjöf og Versala-nauðasamningarnir um ógnvænlegar skaðabætur, fullveldisafsal og viðurkenning á einhliða sekt Þjóðverja. Handrukkun stórvelda. Vinstri menn og frjálslyndir ná völdum með byltingu. Weimar-lýðveldið verður til með nýrri lýðræðis-stjórnarskrá.
Sem sagt: Stórglæpir. Efnahagsrúst. Ný stjórnarskrá, gífurleg reiði (m.a. gegn kröfuhöfum), stjórnlausar skuldir, bylting, uppgjöf, nauðungarsamningar, fullveldisafsal, einhliða sekt og ógnvænlegar skaðabætur. Ásamt handrukkun stórvelda.
Minnir þetta einhverja Íslendinga á eitthvað?
Hvað geta þeir sem bera ábyrgð á slíkum stríðsglæpum og efnahagshruni gert? Glæpirnir verða ekki réttlættir. Reiðin ekki lægð. Eina og aðeins eina leiðin er að beina reiðinni og athyglinni annað. Finna blóraböggulinn. Útlendingurinn auðvitað hentugasta fórnarlambið, ekki síst útlendingurinn innanlands; valdaútlendingurinn. Í kapítalísku samfélagi ævinlega vinstri menn, verkalýðsforingjar og innflytjendur – allir auðvitað í samsæri með útlendingum.
Í Þýskalandi Weimar-lýðveldisins bjó valdaelítan til skýringarsögu sem átti eftir að verða illræmdasta og frægasta áróðursbragð síðustu aldar. Hún var samin og flutt af þjóðernisfasistanum Ludendorff, einum helsta ábyrgðarmanni þýska Hrunsins. Ludendorff (sem eftir stríð sóttist eftir forsætisembætti) teiknaði upp í eigin syndaaflausn, mystíska mynd svika, bakstungu og alþjóðlegs samsæris gegn þýsku þjóðinni. Þýskaland hefði aldrei tapað stríðinu ef kommúnistar, jafnaðarmenn og gyðingar hefðu ekki svikið þjóðina með byltingum, verkföllum og samningum við óvininn. Þessi stóra svikasaga fékk nafnið rýtingsstungugoðsögnin, Dolchstosslegende.
Þýska valdaelítan gerði ekkert rangt. Stóð ekki fyrir stríðinu, tapaði því aldrei og bar takmarkaða ábyrgð á hörmungunum. Hún bar enga ábyrg á samningunum við óvininn, eins og Versalasamningunum, því ráðist var á þjóðina og hún svikin. Sjálf var valdaelítan saklaus af fljótandi blóði 12 milljóna manna. Hinir einu sönnu glæpamenn voru jafnaðarmennirnir sem skrifuðu undir uppgjafarsamningana – uppnefndir: Nóvember glæpamennirnir.
Stórlygin um rýtingsstunguna sló í gegn. Hún aflétti sektarkennd valdaelítunnar og stuðningsmanna hennar og beindi reiðinni að fjölmiðlum, fulltrúum fátæklinga, menntafólki, útlendingum og gyðingum.
Í krafti hennar sló óvænt í gegn háværasti lýðskrumari þjóðernishyggjunnar, vinur og arftaki Ludendorffs: Adolf Hitler. Studdur af ofbeldisfullri og háværri hreyfingu valdshyggjumanna spann hann í kringum rýtingsstunguna nýtt tungumál: Stríðstungumálið þar sem orsakasamhengi sögunnar réðist af tvenns konar afli: Ofurviljanum og illviljanum.
Það var á baki þessu fantasíudrifna áróðursofstæki sem þýskir nasistar riðu á svið 1933 með það markmið í farteskinu að eyða öllum ummerkjum um Weimar-lýðræðið.
Og það var stigmagnandi vitfirring þessa áróðurs sem dreif voðaverk nasistanna áfram gegn vinstrimönnum og gyðingum, út í hið óendanlega og „óhugsanlega”, eins og Hannah Arendt orðaði það.
90 árum síðar hóf valdaelítan á Íslandi, í sambærilegum aðstæðum, að yfirfæra rýtingsstungugoðsögnina yfir á Ísland og útfæra áróður nasistanna af smásmugulegri nákvæmni. Gráðugi ameríski kröfuhafa-gyðingurinn, sem nasistar táknuðu sem kakkalakka, tók þá á sig mynd gráðugra amerískra hrægamma en vinstri mennirnir voru á sínum stað – óvænt úthrópaðir sem kommúnistar. Fáa óraði fyrir hvað slíkur ofstækisáróður ætti greiða leið að hjörtum og sálum landsmanna né heldur hvaða þjóðernishyggjuöfl áróðurinn myndi leysa úr læðingi. Meira um það í næstu grein.